Samvinna um umbótaverkefni um rannsóknarinnviði
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Hagstofa Íslands gerðu á dögunum samstarfssamning sem gefur sérfræðingum stofnananna tækifæri til að vinna saman að umbótaverkefnum á sviði aðferðafræði og aðgengis að örgögnum um íslenskt samfélag. Markmiðið er m.a. að bæta þjónustu Hagstofunnar við innlenda rannsakendur og að sameina krafta til uppbyggingar á innlendum rannsóknarinnviðum.
Samningurinn gerir Hagstofunni kleift að fá til liðs við sig metnaðarfulla fræðimenn á vegum Félagsvísindastofnunar til að sinna afmörkuðum tímabundnum verkefnum. Þannig munu þeir fá aðgang að aðstöðu, gögnum og aðstoð sérfræðinga Hagstofunnar við að vinna fyrir fram skilgreind verkefni sem stofnanir tvær eru sammála um að mikilvægt sé að ráðast í. „Bætt þjónusta við rannsóknarsamfélagið er til bóta fyrir Félagsvísindastofnun og fræðasamfélagið í heild sinni þegar litið er til framtíðar,“ segir enn fremur í samningnum.
Tekið er fram í samningnum að öll meðferð gagna verði í samræmi við lög og reglur og munu starfsmenn Félagsvísindastofnunar Háskólans skrifa undir trúnaðaheiti Hagstofunnar áður en þeim er veittur aðgangur að gögnum eða öðrum upplýsingum.
Það voru þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri sem undirrituðu samninginn en tengiliðir vegna hans innan stofnananna eru þau Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, og Ólafur Arnar Þórðarson fyrir hönd Hagstofunnar.