1/2020
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2020, fimmtudaginn 9. janúar var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðrún Geirsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ólafur Pétur greindi frá því að hann myndi ekki taka þátt í afgreiðslu dagskrárliða 8 og 9 þar sem hann á sæti í framgangsnefnd. Rektor greindi frá því að hann myndi víkja af fundi undir dagskrárlið 10. Jafnframt spurði rektor hvort einhver annar lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.
a) Tillaga að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands 2020, sbr. fund háskólaráðs 5. desember sl.
Rektor gerði grein fyrir framlagðri tillögu fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitingar, þ.m.t. úthlutun úr Aldarafmælissjóði, árið 2020. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.
b) Stofnanasamningar, sbr. síðasta fund.
Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi gerð kjarasamninga og stofnanasamninga Félags prófessora (Fp) og Félags háskólakennara (Fh), sbr. meðfylgjandi gögn. Fram kom að Fp hefur samþykkt nýjan kjarasamning með atkvæðagreiðslu og hefur rektor gengið frá samkomulagi í tengslum við hann f.h. Háskóla Íslands. Atkvæðagreiðsla um kjarasamning Fh stendur yfir. Málið var rætt.
– Háskólaráð samþykkir stofnanasamning Félags prófessora ásamt samkomulagi, dags. 6. desember sl., sem rektor gerði við félagið í tengslum við samninginn. Rektor falið að ganga f.h. háskólaráðs formlega frá stofnanasamningi við Félag háskólakennara ásamt viðaukum.
3. Forathugun vegna flutnings Menntavísindasviðs, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerðu þau ásamt rektor grein fyrir stöðu mála varðandi mögulegan flutning Menntavísindasviðs á háskólasvæðið á Melunum. Málið var rætt og svöruðu þau Kolbrún, rektor, Sigríður og Guðmundur spurningum ráðsmanna. Rætt var m.a. um mögulega húsaleigu í Grósku, nýbyggingu fyrir fræðasviðið og tækifæri til aukinnar faglegrar samlegðar Menntavísindasviðs með öðrum fræðasviðum Háskóla Íslands. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
Kolbrún, Guðmundur og Sigríður viku af fundi.
4. Innri endurskoðun: Áætlun fyrir árið 2020.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi, og fór yfir endurskoðunaráætlun og fjárhagsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2020. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum.
– Samþykkt einróma.
Ingunn vék af fundi.
5. Innleiðing Stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.
Steinunn Gestsdóttir fór yfir stöðu mála varðandi innleiðingu Stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021, HÍ21. Gerði hún m.a. grein fyrir breyttu verklagi við innleiðingu stefnunnar og helstu áhersluatriði á fjórða innleiðingarári. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.
6. Inntökukröfur við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og Gísli Fannberg, deildarstjóri á kennslusviði. Róbert fór yfir kröfur og verklag við inntöku nemenda í Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu Róbert og Gísli spurningum ráðsmanna.
Steinunn, Róbert og Gísli viku af fundi.
7. Erindi frá doktorsnema. Beiðni um að háskólaráð endurskoði synjun um að skipaður verði prófdómari vegna miðbiksprófs í doktosnámi, sbr. afgreiðslu háskólaráðs 1. nóvember 2018.
Inn á fundinn kom Anna Rut Kristjánsdóttir, lögfræðingur, og gerði grein fyrir erindinu og framlagðri tillögu að bréfi til kærunefndar í málefnum nemenda og drögum að svari til doktorsnemans. Málið var rætt ítarlega.
– Samþykkt samhljóða að fela rektor að ganga frá niðurstöðu háskólaráðs í samræmi við framlagt minnisblað og rita bréf til kærunefndar í málefnum nemenda á grundvelli framlagðra draga, en fjórir sátu hjá.
Ólafur Pétur vék af fundi þar sem hann átti sæti í framgangsnefnd sem tók þátt í afgreiðslu dagskrárliða 8 og 9 á fyrri stigum.
8. Erindi frá kennara. Óskað eftir afstöðu háskólaráðs til synjunar rektors á umsókn um framgang í starf prófessors.
Anna Rut fór yfir framlögð drög að afstöðu varðandi erindi kennara til háskólaráðs. Málið var rætt og svaraði Anna Rut spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt að vísa málinu frá háskólaráði þar sem það fellur utan valdsviðs þess.
9. Bréf frá umboðsmanni Alþingis, dags. 13. desember 2019, þar sem óskað er svara við nokkrum spurningum varðandi niðurstöðu háskólaráðs um erindi sem því barst, sbr. fund háskólaráðs 7. nóvember sl.
Anna Rut fór yfir minnisblað varðandi fyrirspurnarbréf umboðsmanns Alþingis. Málið var rætt og svaraði Anna Rut spurningum ráðsmanna.
– Rektor falið að ganga frá svari til umboðsmanns Alþingis f.h. háskólaráðs á grundvelli minnisblaðsins.
Anna Rut vék af fundi. Rektor vék af fundi undir dagskrárlið 10.
10. Embættisgengi umsækjenda um embætti rektors Háskóla Íslands, sbr. 6. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, varaforseti háskólaráðs og formaður nefndar ráðsins sem falið var á síðasta fundi að meta hverjir umsækjenda um starf rektors Háskóla Íslands uppfylla skilyrði um embættisgengi, greindi frá því að ein umsókn hefði borist um starfið og uppfyllti hún sett skilyrði. Ingibjörg lagði fram drög að bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem háskólaráð tilnefnir dr. Jón Atla Benediktsson, prófessor, sem rektor Háskóla Íslands til næstu fimm ára, frá 1. júlí 2020 að telja.
– Samþykkt einróma.
11. Bókfærð mál.
a. Skipun formanns siðanefndar Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Nýr formaður siðanefndar Háskóla Íslands er Skúli Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor Háskólans á Hólum.
b. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Stjórnin verður óbreytt árið 2020 og er hún skipuð Eyvindi G. Gunnarssyni, prófessor við Lagadeild, formaður, Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs, og Kristbjörgu Eddu Jóhannsdóttur, viðskiptafræðingi.
c. Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár komandi háskólaárs 2020-2021.
– Samþykkt.
d. Frá námsstjórn í Umhverfis- og auðlindafræði: Tillaga um nýja námsleið, þverfræðilegt diplómanám á meistarastigi.
– Samþykkt.
e. Frá námsstjórn lýðheilsuvísinda: Tillaga um stofnun nýrrar námsleiðar, Ph.D. í faraldsfræði.
– Samþykkt.
f. Frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Tillaga um nýja námsleið fyrir doktorsnám (Ph.D.) í efnaverkfræði innan Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideildar (IVT).
– Samþykkt.
g. Frá Hugvísindasviði: Diplómanám á meistarastigi í hagnýtri skjalfræði.
– Samþykkt.
h. Frá Hugvísindasviði: Tillaga um að heimilt sé að sameina klassísk mál (grísku og latínu) í eina námsleið sem aðalgrein til BA-prófs og tillaga um að heimilt sé að taka skandinavísk fræði sem aðalgrein til BA-prófs.
– Samþykkt.
i. Frá Félagsvísindasviði: Tillaga um að leggja niður MA- og doktorsnám í norrænni trú innan námsbrautar í þjóðfræði og safnafræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild frá og með háskólaárinu 2020-2021.
– Samþykkt.
j. Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillögur að breytingu á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 (XI. kafla um Heilbrigðisvísindasvið) vegna breytinga sem gerðar hafa verið á reglum HVS um doktorsnám.
– Samþykkt.
k. Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á reglum um inntöku nemenda í Læknadeild (A-próf aflagt).
– Samþykkt.
l. Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á 97. og 98. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, vegna hámarksnámstíma í hjúkrunarfræði.
– Samþykkt.
m. Frá Menntavísindasviði og Heilbrigðisvísindasviði: Hagnýt atferlisgreining, þverfræðilegt nám til meistaraprófs og viðbótardiplómu.
– Samþykkt.
n. Frá Menntavísindasviði: Heimild til að undirbúa nýjar námsleiðir til meistaraprófs án rannsóknarverkefnis.
– Samþykkt.
o. Frá ráði um málefni fatlaðs fólks og Stúdentaráði Háskóla Íslands: Tillaga að breytingu á 12. gr. reglna nr. 481/2010 um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands. Lýtur að því að í ráðinu sitji tveir fulltrúar nemenda í stað eins.
– Samþykkt.
p. Stjórn styrktarsjóða Háskóla Íslands 2020-2022.
– Samþykkt. Stjórnin verður óbreytt til loka árs 2022 og er hún skipuð Gylfa Magnússyni, dósent við Viðskiptafræðideild, formaður, Ásu Ólafsdóttur, prófessor við Lagadeild, og Jóhanni Ómarssyni, viðskiptafræðingi. Varamaður er Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
q. Fastar dómnefndir vegna nýráðninga og framgangsmála fyrir tímabilið 1. janúar 2020 til 30. júní 2023. Tilnefning fulltrúa háskólaráðs.
– Samþykkt.
Dómnefnd á sviði félagsvísinda er skipuð Þorgerði J. Einarsdóttur, prófessor við Stjórnmálafræðideild, formaður, (varamenn: Valdimar Tr. Hafstein, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, og Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild) og Jóni Torfa Jónassyni, prófessor emeritus á Menntavísindasviði (varamenn: Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor emeritus á Menntavísindasviði, og Guðmundur Ævar Oddsson, prófessor við Háskólann á Akureyri).
Dómnefnd á sviði heilbrigðisvísinda er skipuð Vilhjálmi Rafnssyni, prófessor emeritus við Læknadeild, formaður, (varamenn Guðmundur Þorgeirsson, prófessor emeritus við Læknadeild, og Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild), og Ástu Thoroddsen, prófessor við Hjúkrunarfræðideild (varamenn Elísabet Hjörleifsdóttir, dósent við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, og Stefán B. Sigurðsson, prófessor við Heilbrigðisvísindadeild Háskólans á Akureyri).
Dómnefnd á sviði hugvísinda er skipuð Arnfríði Guðmundsdóttur, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, formaður, (varamenn: Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor við Mála- og menningardeild, og Guðmundur Jónsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild), og Sigurði Kristinssyni, prófessor við Háskólann á Akureyri, (varamenn: Páll Björnsson, prófessor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, og Ásdís Egilsdóttir, prófessor emerita við Íslensku- og menningardeild).
Dómnefnd á sviði menntavísinda er skipuð Berki Hansen, prófessor við Menntavísindasvið, formaður, (varamenn: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið, og Allyson Macdonald, prófessor við Menntavísindasvið), og Hafdísi Ingvarsdóttur, prófessor emerita við Menntavísindasvið (varamenn: Rúnar Sigþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og NN).
Dómnefnd á sviði verkfræði- og náttúruvísinda er skipuð Kesara Margréti Jónsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, formaður, (varamenn: Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Ólafur Ingólfsson, prófessor við Jarðvísindadeild), og Jóhanni Örlygssyni, prófessor við Háskólann á Akureyri (varamenn: Bjarni Kristófer Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Hólum, og Helga Gunnlaugsdóttir, faglegur leiðtogi hjá Matís).
r) Erindi frá Heilbrigðisvísindasviði f.h. Tannlæknadeildar.
– Samþykkt að Tannlæknadeild verði heimilt að taka inn 9 nemendur á vormisseri fyrsta námsárs 2020 á grundvelli niðurstöðu samkeppnisprófa í desember sl., en háskólaráð hafði áður samþykkt að taka inn 8 nemendur.
12. Mál til fróðleiks.
a) Valnefnd um veitingu akademískra nafnbóta 2020-2023.
b) Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Reykjalundar, dags. 13. desember 2019.
c) Bréf til kærunefndar í málefnum nemenda, sbr. 7. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
d) Fréttabréf Háskólavina, dags. 20. desember 2019.
e) Tveir starfsmenn Háskóla Íslands sæmdir fálkaorðu.
f) Ársskýrsla Hugverkanefndar 2019.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.