Reglur um Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands, nr. 543/2010
með síðari breytingum
1. gr. Almennt.
Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands er vísindaleg rannsóknastofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands.
Stofnunin er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á fræðasviðum lífeðlisfræðinnar og heyrir formlega undir Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði, sbr. 27. gr. sameiginlegra reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. [Um samvinnu Læknadeildar við aðrar deildir á Heilbrigðisvísindasviði, auk Líf- og umhverfisvísindadeildar, á sviði lífeðlisfræði skal gerður sérstakur samningur þar sem fjallað er um verkefni innan einstakra fræðasviða, um þjónustukennslu og um fjármál.]1
Heimilt er að gera samninga um aðild annarra deilda að stofnuninni og skal það gert ef ráðið er í fullt starf á sviði lífeðlisfræði við aðrar háskóladeildir.
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 354/2017.
2. gr. Hlutverk.
Hlutverk Lífeðlisfræðistofnunar er:
- að annast rannsóknir í lífeðlisfræði og efla tengsl rannsókna og kennslu í lífeðlisfræði og tengdum fræðasviðum,
- að leggja til aðstöðu til verklegrar kennslu í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samræmi við ákvæði samstarfssamnings þeirra deilda sem eiga hlut að starfsemi stofnunarinnar,
- að styðja kennslu og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og veita nemendum í framhaldsnámi og rannsóknatengdu námi (sem hluta af námi til fyrstu háskólagráðu og í meistara- og doktorsnámi) aðstöðu og búnað til rannsóknarstarfa eftir því sem kostur er,
- að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði lífeðlisfræði, læknisfræði og í öðrum heilbrigðisvísindagreinum og sterkum tengslum við atvinnu- og þjóðlíf,
- að stunda þjónusturannsóknir á sviðum lífeðlisfræði gegn greiðslu,
- að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í lífeðlisfræði,
- að veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi lífeðlisfræði,
- að gangast fyrir ráðstefnum, námskeiðum og fyrirlestrum í lífeðlisfræði.
3. gr. Stofuskipulag.
Stjórn Lífeðlisfræðistofnunar, að fengnu samþykki forseta Heilbrigðisvísindasviðs, er heimilt að koma á fót sjálfstæðum rannsóknastofum, í samræmi við 27. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.
Stjórn Lífeðlisfræðistofnunar setur hverri stofu starfsreglur sem forseti Heilbrigðisvísindasviðs staðfestir. Í starfsreglum stofu kemur m.a. fram hverjir standa að stofunni og tengsl stofu og stofnunar eru nánar tilgreind. Stofustjóri er fyrir hverri stofu, valinn í samræmi við starfsreglur stofunnar og ber á henni fjárhagslega ábyrgð.
Stofustjóri er ábyrgur gagnvart stjórn Lífeðlisfræðistofnunar í starfi sínu og leggur fram rekstraráætlanir. Hann ber ábyrgð á daglegum rekstri stofunnar og hefur eftirlit með starfsmönnum hennar og fjármálum.
Heimilt er að stofna rannsóknarstofur um langtíma þjónustuverkefni.
4. gr. Aðstaða.
Háskóli Íslands lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er.
Stofnunin veitir starfsliði sínu skv. 8. gr. aðstöðu og nauðsynlegan búnað til rannsókna eftir því sem unnt er.
5. gr. Stjórn.
[Stjórn stofnunarinnar er skipuð þeim starfsmönnum sem upp eru taldir í a. lið 8. gr. og hafa fasta ráðningu á grundvelli hæfnisdóms í a.m.k. 50% starfshlutfalli. Auk þess sitja í stjórn einn fulltrúi nemenda í framhaldsnámi í lífeðlisfræði og einn fulltrúi annarra starfsmanna en þeirra sem áður eru tilgreindir.]1 Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
[Heimilt er]1 að skipa þriggja manna framkvæmdastjórn.
Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs sér formann til tveggja ára í senn. Skal kjörtímabil miðast við fjárhagsárið.
1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 354/2017.
6. gr. Stjórnarfundir.
Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar.
Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef forseti Læknadeildar, forseti Heilbrigðisvísindasviðs eða rektor ber fram slíka ósk og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum.
Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum.
Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send forseta Læknadeildar.
Ef forstöðumaður er ráðinn til stofnunarinnar án þess að eiga sæti í stjórninni situr hann stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.
7. gr. Verkefni stjórnar.
Stjórnin tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina og setur henni starfsreglur. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar.
[Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar gagnvart Læknadeild og forseta Heilbrigðisvísindasviðs og eftir því sem nánar er kveðið á um í samstarfssamningi skv. 2. mgr. 1. gr.]1
[...]1
Stjórnin efnir til ársfundar þar sem ársskýrsla er lögð fram og fjallað um önnur mál svo sem kveðið er á um í reglum fyrir Háskóla Íslands.
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 354/2017.
8. gr. Starfslið.
Heimilt er að ráða forstöðumann að stofnuninni. Forseti Heilbrigðisvísindasviðs ræður forstöðumann á grundvelli umsagnar stjórnar stofnunarinnar og að fenginni tillögu Læknadeildar. Forseti fræðasviðs setur forstöðumanni erindisbréf.
Ef heimild skv. 1. mgr. er ekki nýtt er stjórnarformaður jafnframt forstöðumaður stofnunarinnar.
Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar og sér um framkvæmd á þeim málum, sem stjórnin felur honum.
Stofustjórar skulu tilnefndir samkvæmt starfsreglum stofnunarinnar sem stjórn setur. Stjórn stofnunarinnar skipar stofustjóra.
Starfsmenn stofnunarinnar eru auk forstöðumanns:
- [Prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar í lífeðlisfræði við Læknadeild og við aðrar deildir Háskóla Íslands á grundvelli samstarfssamnings skv. 2. mgr. 1. gr., sbr. einnig 5. gr.]1 Einnig þeir sem hafa fengið starfsaðstöðu á stofnuninni.
- Gistikennarar, sérfræðingar, stundakennarar og nemar í rannsóknatengdu námi, sem sinna tímabundnum verkefnum í lífeðlisfræði eða skyldum greinum, samkvæmt ákvörðun stjórnar stofnunarinnar.
- Stúdentar sem vinna að verkefnum í tengslum við nám.
- Annað starfsfólk á skrifstofu og rannsóknastofum.
Um ráðningu annars starfsfólks fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands. Sé um að ræða ráðningu í starf, og ekki er gert ráð fyrir því starfsheiti í reglum fyrir Háskóla Íslands, fer stjórn stofnunarinnar eða forstöðumaður í umboði hennar með ráðningarmálið.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 354/2017.
9. gr. Fjármál.
Tekjur Lífeðlisfræðistofnunar Háskóla Íslands eru eftirfarandi:
- [framlag frá Læknadeild og öðrum deildum Háskóla Íslands í samræmi við ákvæði samstarfssamnings, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglna þessara,]1
- styrkir til einstakra verkefna,
- greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
- tekjur af útgáfustarfsemi,
- aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum.
[Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans og Læknadeildar.]1
Sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.
Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.
1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 354/2017.
10. gr.
Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að fenginni tillögu Læknadeildar og stjórnar Heilbrigðisvísindasviðs, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands nr. 1047/2003.
Háskóla Íslands, 15. júní 2010.