5/2022
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2022, fimmtudaginn 7. apríl var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson (kom inn á fundinn kl. 14.20), Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“og skoðast hann því samþykktur. Rektor greindi frá því að hann væri vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 8b. Jafnframt spurði rektor hvort einhver annar lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.
2. Nefnd um störf háskólaráðs, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs Háskóla Íslands segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli ráðið taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögu til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði að þessu sinni skipuð þeim Ingibjörgu Gunnarsdóttur, varaforseta háskólaráðs og fulltrúa háskólasamfélagsins, Isabel Alejandra Díaz, fulltrúa nemenda, Guðvarði Má Gunnlaugssyni, fulltrúa völdum af háskólaráði, og Einari Sveinbjörnssyni, fulltrúa tilnefndum af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (áður: mennta- og menningarmálaráðherra). Nefndin mun leggja fram greinargerð sína á fundi háskólaráðs í júní nk.
– Samþykkt einróma.
3. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, kom inn á fundinn. Rektor gerði ásamt Jenný Báru grein fyrir þeim þáttum fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar sem snerta háskólastigið almennt og Háskóla Íslands sérstaklega. Málið var rætt.
Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð svohljóðandi bókun:
„Háskólaráð Háskóla Íslands fjallaði á fundi sínum í dag um fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir tímabilið 2023-2027. Ánægjulegt er að sjá að gert er ráð fyrir byggingu húss fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Það er stórt skref fyrir Háskóla Íslands og framtíð heilbrigðiskerfisins hér á landi. Ýmislegt fleira er fram undan í málefnum háskólastigsins skv. áætluninni. Háskólaráð leggur áherslu á bætta fjármögnun háskólastigsins og að hún verði sambærileg við fjárveitingar til háskóla á Norðurlöndunum eigi síðar en árið 2025. Er þetta í samræmi við þær áherslur sem ráðherra háskólamála hefur haldið á lofti og hafin er greiningarvinna fyrir.“
Jenný Bára vék af fundi.
4. Lagaumhverfi háskóla.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um nokkur atriði sem til álita koma við mögulega endurskoðun lagaumhverfis háskóla. Málið var rætt ítarlega og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs.
Að umræðu lokinni lögðu fulltrúar nemenda fram svohljóðandi bókun:
„Stúdentar hafa tvo af ellefu aðalmönnum í háskólaráði, og eru 18% ráðsins en mikilvægt er að stúdentar hafi traust sæti við borðið og hlustað sé á þeirra sjónarmið. Við teljum að svo sé raunin við HÍ en jafnframt að lengi megi gott batna. Ef horft er 25 ár aftur fóru stúdentar með fjórðung atkvæða í ráðinu og hefur því hlutdeild stúdenta minnkað um 28%.
Á móti, ef fulltrúum stúdenta fjölgar um einn og ráðið skipað tólf manns færu stúdentar að nýju með fjórðungsvald, sem og jafna vægi fulltrúa háskólasamfélagsins. Árið 2022 eru stúdentar ríflega 15.000 en nýjustu tölur fyrir starfsmenn háskólans frá árinu 2020 sýna að þeir eru 5.443 (með stundakennurum). Árið 2020 voru stúdentar jafnframt um 15.000 og því tæplega þrisvar sinnum fleiri en starfsmenn. Ljóst er að breidd stúdenta er mikil og mikilvægt að sú breidd endurspeglist í fjölda sæta við borðið.
Fulltrúar stúdenta fara á leit við háskólaráð að skrifa undir viljayfirlýsingu að auka vægi stúdenta í ráðinu úr tveimur í þrjá en til þess þyrfti lagabreytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008, 6. gr. laganna.
Jessý Jónsdóttir
Isabel Alejandra Díaz
fulltrúar stúdenta í háskólaráði 2020-2022“
Jón Ólafsson kom inn á fundinn.
5. Niðurstöður hönnunarsamkeppni vegna nýs Heilbrigðisvísindahúss.
Inn á fundinn kom Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og gerði grein fyrir niðurstöðu hönnunarsamkeppni vegna byggingar nýs Heilbrigðisvísindahúss í tengslum við nýjan Landspítala og næstu skref varðandi undirbúning framkvæmda. Fyrir liggur áætlun um ráðstöfun fjármuna frá Happdrætti Háskóla Íslands til byggingarinnar og endurbóta á Læknagarði.
Inga vék af fundi.
Fundarhlé.
6. Áhrif stríðsins í Úkraínu á háskólastarf.
Inn á fundinn komu Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra HÍ, og Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs, og fóru ásamt rektor yfir aðgerðir Háskóla Íslands vegna stríðsins í Úkraínu, þ. á m. framlag húnæðis á Sögu og stuðning við Karazin Kharkiv National University. Jón Ólafsson gerði grein fyrir hugmyndum um miðstöð um málefni Úkraínu. Málið var rætt og svöruðu rektor, Sæunn, Friðrika og Jón spurningum fulltrúa í háskólaráði. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
Sæunn og Friðrika viku af fundi.
7. Upplýsingatæknimál Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og fór yfir stöðu og horfur í upplýsingatækni við Háskóla Íslands. Málið var rætt og brást Guðmundur við athugasemdum og ábendingum fulltrúa í háskólaráði.
8. Bókfærð mál.
a. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Fasteigna Háskóla Íslands ehf.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórninni sem kjörnir eru á aðalfundi eru Daði Már Kristófersson, prófessor, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og varaforseti háskólaráðs. Varamaður er Sif Friðleifsdóttir, fulltrúi í háskólaráði.
b. Frá samráðsnefnd um kjaramál: Tillaga um miðlægan stuðning til deilda vegna launagreiðslna að loknu starfi rektors og forseta fræðasviðs.
– Samþykkt. Rektor tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.
c. Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á reglum nr. 1145/2011 um Lífvísindasetur.
– Samþykkt.
d. Viljayfirlýsing um viðauka við samstarfssamning Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands, dags. 31. mars 2022.
– Samþykkt.
e. Viljayfirlýsing um samstarf Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og RHnets, dags. 31. mars 2022.
– Samþykkt.
f. Viðbrögð við ofbeldi og hótunum á vettvangi Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
9. Mál til fróðleiks.
a. Viljayfirlýsing um samstarf Háskóla Íslands, Reiknistofu bankanna og Vísindagarða Háskóla Íslands.
b. Samstarfssamningur embættis ríkislögreglustjóra og Háskóla Íslands, vegna rannsóknar á vinnumenningu og kynjatengslum innan lögreglunnar, dags. 10. mars 2022.
c. Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um starfsþróun, rannsóknir og nýsköpun, dags. 11. mars 2022.
d. Samkomulag Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um stofnun og rekstur nýsköpunarstofu menntunar sem verður starfrækt í Vísindagörðum Háskóla Íslands, dags. 11. mars 2022.
e. Samstarfssamningur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Háskóla Íslands, dags. 14. mars 2022.
f. Erindisbréf starfshóps um fyrirhugaða sameiningu Bókasafns Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
g. Erindisbréf sjálfbærninefndar Háskóla Íslands.
h. Samið um fullnaðarhönnun á húsi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.
i. Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2021.
j. Fréttabréf Háskólavina, dags. 31. mars 2022.
k. Ársskýrsla Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2021.
l. Starfshópur Menntavísindasviðs um undirbúning flutningsins í Sögu, sbr. fund ráðsins 3. mars sl.
Næsti fundur háskólaráðs er áætlaður fimmtudaginn 5. maí 2022 kl. 13.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.