4/2020
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2020, föstudaginn 6. mars var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Jón Ólafsson (varamaður fyrir Guðrúnu Geirsdóttur), Kristrúnu Heimisdóttur, Ólafur Pétur Pálsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Rektor bar upp dagskrártillögu um að liður 7 yrði tekinn fyrir á eftir lið 3 og var það samþykkt. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Benedikt Traustason óskaði eftir því að bera upp spurningu varðandi lið 8b og Ólafur Pétur Pálsson tilkynnti að hann myndi sitja hjá við afgreiðslu liðs 8a, en að öðru leyti voru ekki gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann að því leyti samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a) Rekstur Háskóla Íslands á liðnu ári. Staða mála.
Jenný Bára fór yfir framlagt yfirlit um rekstur Háskóla Íslands árið 2019. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum. Fram kom að reksturinn var í jafnvægi.
b) Drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2019, sbr. fjárlaga- og áætlanagerð ríkissjóðs.
Jenný Bára fór yfir framlögð drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2019. Málið var rætt. Fram kom að enn standa nokkur atriði út af til að unnt sé að ganga frá endanlegum ársreikningi.
Inn á fundinn kom Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs.
c) Ráðstöfun framkvæmda- og viðhaldsfjár 2019.
Fyrir fundinum lá yfirlit um ráðstöfun fjár til framkvæmda og viðhalds á árinu 2019. Sigríður gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
d) Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi mögulegt framtíðarfyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands. Málið var rætt.
Daði Már og Jenný Bára viku af fundi.
3. Húsnæðismál.
a) Forathugun vegna flutnings Menntavísindasviðs, sbr. fund ráðsins 9. janúar sl. Staða mála.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og gerði ásamt Guðmundi grein fyrir niðurstöðu nefndar um framtíðarhúsnæði fyrir Menntavísindasvið. Málið var rætt og að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi bókun:
„Háskólaráð fagnar þeirri vinnu sem lögð hefur verið í forathugun á framtíðarhúsnæði Menntavísindasviðs á aðalsvæði Háskóla Íslands. Flutningur fræðasviðsins er afar mikilvægur fyrir starfsemi Háskólans og forsenda þess að markmið sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands náist til fulls. Skoðaðir hafa verið nokkrir valkostir og að athuguðu máli er talið vænlegast til framtíðar að reisa nýbyggingu fyrir Menntavísindasvið. Háskólaráð hvetur stjórnvöld til að samþykkja áform Háskóla Íslands um flutning Menntavísindasviðs á aðalsvæði Háskólans og að styðja skólann í að nýbygging fyrir sviðið rísi á næstu árum.“
Sigríður vék af fundi.
b) Frá stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.: Málefni Vísindagarða og Grósku, sbr. lið 2 í fundargerð stjórnar Vísindagarða 27. febrúar sl.
Rektor gerði grein fyrir leigusamningi við Grósku um frumkvöðla- og sprotasetur sem stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. hefur samþykkt með fyrirvara um samþykki háskólaráðs.
– Samþykkt einróma.
Guðmundur og Steinunn viku af fundi.
4. Ytri úttekt á Háskóla Íslands skv. áætlun Gæðaráðs háskóla, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri Háskóla Íslands, og fór yfir fyrirhugaðan fund háskólaráðs með ytri matshóp vegna úttektar á Háskóla Íslands á vegum Gæðaráðs háskóla 2. apríl nk. kl. 12.00-13.30. Málið var rætt og svaraði Áslaug spurningum fulltrúa í háskólaráði.
Áslaug vék af fundi.
5. Verksamningur Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar um klíníska munnholsskoðun og röntgenmyndatöku, dags. 25. mars 2019, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir stöðu málsins og fundum sem hann hefur átt um málefnið frá síðasta háskólaráðsfundi. Málið var rætt ítarlega. Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi bókun:
„Á fundi háskólaráðs 7. mars 2019 var rektor, í samráði við Heilbrigðisvísindasvið, falið að ganga frá samkomulagi við Útlendingastofnun um verksamning Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar um aðkomu Háskóla Íslands að aldursgreiningum umsækjenda um alþjóðlega vernd, í samræmi við tillögu meirihluta ráðsins. Samkvæmt samningnum tilnefndu báðar stofnanir fulltrúa í samráðshóp sem hafði það hlutverk að fylgjast með framkvæmd samningsins, þróun mála er tengjast aldursgreiningum almennt, siðferðilegum álitaefnum og aðferðum við aldursgreiningar. Samráðshópurinn skilaði skýrslu til rektors og gerði grein fyrir henni á fundi háskólaráðs 6. febrúar 2020.
Fram kemur í skýrslu starfshópsins að framkvæmd verksamningsins af hálfu Tannlæknadeildar hafi gengið vel. Starfsfólk deildarinnar býr yfir þekkingu á nákvæmustu aðferðum sem völ er á við aldursgreiningar og fylgir vinnureglum sem stuðla að virðingu og nærgætni við umsækjendur og öruggri meðferð og varðveislu gagna.
Í verksamningnum er áskilið að Útlendingastofnun sendi ekki verkbeiðni til Tannlæknadeildar nema enn sé til staðar vafi eftir að aðrar aðferðir aldursgreininga hafi verið reyndar. Í umræðu um aldursgreiningar hafa félagasamtök og hagsmunahópar gagnrýnt að þær aðferðir sem beitt er við greiningu á aldri umsækjenda um alþjóðlega vernd uppfylli ekki skilyrði reglugerðar um útlendinga þar sem fram kemur að við greiningu á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásögn hans af ævi sinni, en auk þess megi beita líkamsrannsókn. Ferlið hefur í reynd ekki falið í sér aðkomu fleiri sérfræðinga, svo sem barnasálfræðinga og annarra sérfræðinga í þroska barna, áður en líkamsrannsóknum hefur verið beitt. Þá hefur Rauði kross Íslands sérstaklega haldið því fram að Útlendingastofnun gefi niðurstöðum röntgenrannsókna á tönnum of mikið vægi við ákvörðun aldurs.
Þann 13. mars 2019 sendi rektor dómsmálaráðherra bréf f.h. háskólaráðs þar sem vakin var athygli á þeirri niðurstöðu starfshóps háskólaráðs að bókun barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, nr. CMW/C/GC/4-CRC/C/GC/23, dags. 16. nóvember 2017, kunni að gefa tilefni til þess að endurskoða lög um útlendinga nr. 80/2016, í ljósi þess að ríkjum ber almennt að haga löggjöf sinni í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga sem þau eru aðilar að. Í umræddri bókun barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna segir m.a. að ríki skuli notast við fjölþætt mat á líkamlegum og andlegum þroska barna, sem framkvæmt er af barnalæknum og öðrum sérfræðingum í þroska barna. Í sömu bókun kemur fram að ríki skuli m.a. forðast að notast við greiningar á tönnum. Háskóli Íslands kom sömu sjónarmiðum á framfæri í skriflegum athugasemdum við þingmannafrumvarp um breytingu á lögum um útlendinga haustið 2019.
Háskólaráð hafði væntingar til þess að brugðist yrði við þessum athugasemdum með breytingum á reglum og verklagi Útlendingastofnunar í þá átt að heildstætt mat á aldri umsækjenda yrði fjölþættara og að einungis yrði notast við aldursgreiningar á tönnum í takmarkatilvikum. Þetta hefur ekki gengið eftir á því ári sem samningurinn hefur verið í gildi. Af þeirri ástæðu hefur háskólaráð ákveðið að endurnýja ekki samninginn.“
Benedikt Traustason lagði fram svohljóðandi bókun:
„Stúdentar hafa nú barist gegn framkvæmd tanngreininga á fylgdarlausum ungmennum á flótta innan Háskóla Íslands í um tvö ár og hafa á þeim tíma ítrekað vakið athygli háskólasamfélagsins á því að slíkar greiningar eigi ekki heima innan skólans. Í þeirri baráttu hefur verið haldið á lofti áliti fræðafólks og samtaka sem helga sig baráttunni fyrir réttindum barna. Má þar nefna UNICEF, Rauða krossinn og ýmis landssamtök barnalækna. Þá hefur Akademía evrópskra barnalækna sagt að siðferðislegar ástæður standa í vegi fyrir því að barnalæknar geti tekið þátt í slíkum rannsóknum og hefur akademían hvatt félagsmenn sína til þess að taka ekki þátt í þeim. Loks hafa breskir tannlæknar bent á að ekki sé til nein nægilega áreiðanleg leið til þess að meta aldur út frá líkamsþroska.
Það er undirrituðum til efs að þjónustusamningur um tanngreiningar við Útlendingastofnun geti uppfyllt nýsamþykktar siðareglur Háskóla Íslands, þá sérstaklega þau ákvæði sem snúa að viðmiðum um siðferði í vísindum. Stúdentar telja að Háskóli Íslands eigi að opna dyr sínar fyrir fylgdarlausum ungmennum á flótta og bjóða möguleika á framtíð sem þau gætu annars aldrei látið sig dreyma um.“
6. Málefni Happdrættis Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir rekstri, framtíðarhorfum fyrirtækisins og áskorunum. Málið var rætt og svaraði Bryndís spurningum ráðsmanna.
Bryndís vék af fundi.
7. Stefna Háskóla Íslands 2016-2021. Staða valdra aðgerða.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar og fór yfir stöðu mála varðandi innleiðingu valdra aðgerða í stefnu Háskóla Íslands 2016-2021, sbr. einnig starfsáætlun háskólaráðs 2019-2020. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.
8. Bókfærð mál.
a) Skipan framkvæmdanefndar vegna nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands við Læknagarð og endurbóta á Læknagarði, ásamt erindisbréfi.
– Samþykkt. Nefndina skipa þau Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, formaður, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor, fulltrúi í háskólaráði, Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, fulltrúi sviðsins, og Eyrún Baldursdóttir, fulltrúi stúdenta við Heilbrigðisvísindasvið. Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs, vinnur með nefndinni. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild, situr fundi nefndarinnar eftir þörfum. Ólafur Pétur Pálsson sat hjá við afgreiðslu málsins.
b) Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á 9. gr. reglna nr. 481/2010 um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands.
Benedikt Traustason spurði hvernig það að færa umsóknarfrest um sértæk úrræði í námi fram um tvær vikur muni bæta þjónustu við nemendur sem rétt eiga til sértækra úrræða. Þórður Kristinsson svaraði spurningunni með því að helstu rökin fyrir breytingunni séu hagsmunir stúdenta, örara námsmat/próf sem hefjast fyrr á hvoru misseri fyrir sig en áður hefur verið og að starfsfólki sé gert kleift að veita stúdentum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.
– Samþykkt með 9 atkvæðum en fulltrúar stúdenta greiddu atkvæði á móti.
c) Ráðgefandi nefnd Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Í nefndinni sitja þau Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, formaður, Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, Guðrún Á. Jónsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Skipunartími nefndarinnar er þrjú ár eða til 6. mars 2023.
d) Stjórn Eggertssjóðs.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Bryndís Brandsdóttir, vísindamaður hjá Jarðvísindastofnun, Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, Steinunn Thorlacius, líffræðingur, verkefnisstjóri hjá Blóðbanka, Landspítala. Varamenn: Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Jarðvísindastofunun, Guðmundur H. Guðmundsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Bjarni Þorbergsson, stjórnmálafræðingur. Skipunartími stjórnarinnar er þrjú ár eða til 6. mars 2023.
e) Stjórn Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau David Pitt, framkvæmdastjóri, Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Sigrún Nanna Karlsdóttir, prófessor við sömu deild. Varamaður: Jón Þórisson, lögfræðingur. Skipunartími stjórnarinnar er þrjú ár eða til 6. mars 2023.
f) Stjórn Minningarsjóðs Aðalsteins Kristjánssonar.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Sigurður S. Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaðður við Jarðvísindastofnun, og Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor við Raunvísindadeild. Varamenn: Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Jarðvísindadeild, Snædís Huld Björnsdóttir, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og NN. Skipunartími stjórnarinnar er þrjú ár eða til 6. mars 2023.
g) Stjórn sagnfræðisjóðs dr. Björns Þorsteinssonar.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Sverrir Jakobsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, tilnefndur af háskólaráði, Anna Agnarsdóttir, prófessor emerita, tilnefnd af stjórn Sögufélagsins, og Guðmundur Jónsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, tilnefndur af stjórn Sagnfræðistofnunar. Stjórnin kýs sér formann. Skipunartími stjórnarinnar er þrjú ár eða til 6. mars 2023.
h) Frá Heilbrigðisvísindasviði: Viðbótarbreytingar á reglum um inntökupróf í Læknadeild.
– Samþykkt.
i) Tillaga um að rektor skipi nefningarnefnd fyrir stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
– Samþykkt.
9. Mál til fróðleiks.
a) Drög að svari við erindi ráðuneytis vegna samkeppnisreksturs.
b) Skipan kærunefndar í málefnum nemenda.
c) Fulltrúi í ráð um málefni fatlaðs fólks.
d) Færeyjanefnd Háskóla Íslands 2017-2020.
e) Skipun háskólarektors, bréf mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 31. janúar 2020.
f) Umsögn Háskóla Íslands um grænbók mennta- og menningarmálaráðuneytisins um fjármögnun háskóla.
g) Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Háskólabíói 22. febrúar 2020.
h) Glærur frá opnum fundi rektors með starfsfólki Háskóla Íslands 25. febrúar 2020.
i) Viðbótarfjármagn í verkefnastyrki Rannsóknasjóðs, ásamt yfirliti um úthlutun úr sjóðnum 2020.
j) Úthlutun nýdoktorastyrkja nýliðunarsjóðs Háskóla Íslands.
k) Starfshópur mennta- og menningarmálaráðuneytis um gæði og skilvirkni í háskólum.
l) Fréttabréf Háskólavina, dags. 26. febrúar 2020.
m) Tölfræði doktorsnáms við Háskóla Íslands.
n) Úthlutun úr Tækjakaupasjóði.
o) Viðbragðsáætlun Háskóla Íslands vegna Covid-19 veirufaraldurs 2020.
p) Samstarf við háskólann í Gdansk í Póllandi.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.05.