6/2022
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2022, fimmtudaginn 5. maí var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir (á fjarfundi), Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir (á fjarfundi) og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson (á fjarfundi).
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a. Drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2021, ásamt umsögn endurskoðunarnefndar háskólaráðs.
Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðum drögum að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2021 ásamt tilheyrandi skýrslu forstöðumanns (rektors). Jafnframt gerði Ásthildur grein fyrir umsögn endurskoðunarnefndar háskólaráðs um drögin. Málið var rætt og svöruðu Jenný Bára og Ásthildur spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Ársreikningur Háskóla Íslands 2021 samþykktur einróma. Rektor falið að undirrita ársreikninginn fyrir hönd skólans.
b. Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-mars 2022.
Jenný Bára fór yfir framlagt yfirlit um rekstur Háskóla Íslands janúar-mars 2022. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum. Fram kom að rekstur Háskóla Íslands er í jafnvægi það sem af er ári.
Jenný Bára vék af fundi.
c. Húsnæðismál.
Inn á fundinn komu Daði Már Kristófersson, prófessor og formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., og Hilmar Þór Kristinsson, framkvæmdastjóri félagsins. Rektor og Guðmundur fóru yfir framlögð drög að minnisblaði frá fjármálanefnd háskólaráðs um meginlínur í nýtingu og innra skipulagi húsnæðis Háskóla Íslands. Meðal annars kemur fram í minnisblaðinu að stjórnvöld hafa gefið út viðmið um fyrirkomulag vinnurýma í nýbyggingum opinberra stofnana eða þegar gerðar eru gagngerar endurbætur á eldra húsnæði. Fram kom hjá Daða Má að nauðsynlegt væri að fara eftir þessum viðmiðum. Viðmiðin fela í sér m.a. að horfið verði frá þeirri meginlínu að sem flest starfsfólk hafi einkaskrifstofu og í staðinn komi verkefnamiðuð vinnurými og um leið verði tryggt að nægjanlegt framboð sé af stoðrýmum, s.s. fundarherbergjum, næðisrýmum, rýmum fyrir félagslegt samneyti og rýmum til að sinna fjarkennslu. Í eldri byggingum verði horft til þess að þegar starfsmaður flytur úr einkaskrifstofu komi til álita að skrifstofunni verði breytt þannig að aðstaða skapist fyrir tvo eða fleiri starfsmenn.
Málið var rætt og samþykkt að við útfærslu viðmiðanna verði leitað til faglegra sérfræðinga og sérstaklega að því gætt að innleiðing viðmiðanna stuðli að framgangi markmiða Háskóla Íslands í HÍ26 um starfsánægju og góðan vinnustað.
Loks var rætt um nýtt heiti á Bændahöllinni/Hótel Sögu eftir að húsið varð ein af byggingum Háskóla Íslands. Var samþykkt að byggingin skuli heita “Saga” eins og þegar er orðið viðtekið í daglegu máli.
Daði Már, Hilmar Þór og Guðmundur viku af fundi.
3. Áhrif stríðsins í Úkraínu á háskólastarf, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra HÍ, og gerði ásamt rektor grein fyrir stöðu mála varðandi aðgerðir Háskóla Íslands varðandi stuðning við flóttafólk vegna stríðs í Úkraínu, sbr. síðasta fund.
Sæunn vék af fundi.
Kaffihlé.
4. Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ26, og Akkerisfundur 17. maí 2022.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innleiðingu og framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26. Einnig fór Steinunn yfir drög dagskrár Akkerisfundar sem haldinn verður 17. maí nk. Málið var rætt og svöruðu Steinunn og rektor spurningum.
Steinunn vék af fundi.
5. Rannsóknir og nýsköpun.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi árangur í rannsóknum og innlent og erlent rannsóknasamstarf vísindamanna Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu Guðbjörg Linda og Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði.
Guðbjörg Linda og Halldór viku af fundi.
6. Samstarf Landspítala og Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Runólfur Pálsson, nýr forstjóri Landspítala, Inga Þórsdóttir, fráfarandi forseti Heilbrigðisvísindasviðs og Unnur Þorsteinsdóttir, sem tekur við sem forseti sviðsins 1. júlí nk. Runólfur gerði grein fyrir stöðu mála varðandi samstarf Landspítalans og Háskóla Íslands tengdra aðila á sviði kennslu og rannsókna og hugmyndum sínum um hvernig auka megi samnýtingu innviða til að efla vísindastarf enn frekar. Málið var rætt.
Runólfur, Inga og Unnur viku af fundi.
7. Bókfærð mál.
a. Tillaga að samþykktum fyrir Sprota, eignarhaldsfélag Háskóla Íslands ehf., sbr. fund ráðsins 13. janúar sl.
– Samþykkt.
c. Frá vísinda- og nýsköpunarsviði og mannauðssviði: Tillaga að breytingu á verklagsreglum um ráðningarferli akademískra starfsmanna.
– Samþykkt.
d. Frá Hugverkanefnd: Tillögur að breytingum á erindisbréfi og starfsreglum Hugverkanefndar ásamt minnisblaði.
– Samþykkt.
8. Mál til fróðleiks.
a. Samstarf Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og Háskólanets Íslands hf. (RHnets) um hýsingu og samnýtingu tölvubúnaðar.
b. Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands rís á næstu þremur árum.
c. Úthlutun úr Kennslumálasjóði 2022.
d. Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Hugverkastofunnar, dags. 25. apríl 2022.
e. Fréttabréf Háskólavina, dags. 2. maí 2022.
f. Nýr forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.
g. Samstarfssamningur Women Political Leaders og Háskóla Íslands vegna Heimsþings kvenleiðtoga.
h. Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra HÍ 2021.
i. Áfram á lista þeirra háskóla sem hafa mest samfélagsleg áhrif.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.