Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 3. október 2019

08/2019

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2019, fimmtudaginn 3. október var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Helga Lind Mar (varamaður fyrir Benedikt Traustason), Ingibjörg Gunnarsdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Einar Sveinbjörnsson boðaði forföll og varamaður hans einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og bauð Kristrúnu Heimisdóttur, nýjan fulltrúa í háskólaráði, velkomna til starfa. Rektor greindi síðan frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.

a)    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020.
Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum fulltrúa í háskólaráði.

b)    Staða kjaraviðræðna.
Guðmundur R. gerði grein fyrir stöðu mála varðandi yfirstandandi kjaraviðræður. Málið var rætt.

Jenný Bára vék af fundi.

3.    Starfsáætlun háskólaráðs 2019-2020, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu uppfærð drög að starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2019-2020. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom ein smávægileg athugasemd við drögin frá fulltrúa stúdenta.
– Starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2019-2020 samþykkt einróma svo breytt.

4.    Tillaga eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda um launadeild Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 6. júní sl.
Guðmundur R., formaður eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda, gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.

Guðmundur R. vék af fundi.

5.    Frá vísindanefnd háskólaráðs: Hugmynd að breytingu á reglum um doktorssjóði.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Rektor og Halldór gerðu grein fyrir framlögðum hugmyndum vísindanefndar háskólaráðs um breytingu á reglum um doktorssjóði Háskóla Íslands. Meginbreytingin sem um ræðir lýtur að því að doktorsnemar geti sótt um styrk þegar við upphaf náms. Málið var rætt.
– Samþykkt að tillaga að breytingum á viðeigandi reglum um doktorssjóði verði undirbúin fyrir næsta fund háskólaráðs.

Halldór vék af fundi.

6.    Áfangaskýrsla um húsnæðismál Menntavísindasviðs, sbr. fund ráðsins 10. janúar sl.
Inn á fundinn kom Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og formaður starfshóps um húsnæðismál Menntavísindasviðs, og gerði grein fyrir áfangaskýrslu starfshópsins. Málið var rætt og svaraði Kolbrún spurningum ráðsmanna. Áformað er að starfshópurinn skili lokaskýrslu í janúar nk.

Kolbrún vék af fundi.

7.    Bókfærð mál.
a)    Fjöldatakmörkun í læknisfræði 2019-2020.

– Samþykkt.

b)    Starfsreglur Hugverkanefndar, uppfærðar.
– Samþykkt.

c)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að reglubreytingum vegna námsleiðar í hjúkrunarfræði fyrir fólk sem lokið hefur öðru háskólaprófi og ráðgert er að hefjist haustið 2020.
– Samþykkt.

d)    Verklagsreglur um árlega viðurkenningu til starfsfólks Háskóla Íslands, uppfærðar.
– Samþykkt.

e)    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar Íslands.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar Íslands eru Brynhildur G. Flóvenz, dósent og Kári Hólmar Ragnarsson, lögmaður. Trausti Fannar Valsson, dósent, er varamaður. Skipunartíminn er tvö ár.

f)    Stjórn Listasafns Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð þeim Æsu Sigurjónsdóttur, dósent í Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði, sem er formaður, Arndísi Vilhjálmsdóttur, sérfræðingi hjá Hagstofu Íslands, og Magnúsi Diðrik Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu. Skipunartíminn er fjögur ár.

g)    Gjaldskrá íþróttahúss Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

h)    Innri endurskoðandi. Beiðni um endurskoðun rekstraráætlunar 2019.
– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Röðun Háskóla Íslands á virtustu matslistum heims.
b)    Nýir deildarforsetar við Háskóla Íslands.
c)    Formaður mannaflanefndar.
d)    Viljayfirlýsing um Sjóveikisetur.
f)    Glærur frá opnum fundi rektors, dags. 18. september 2019.
e)    Fréttabréf Háskólavina, dags. 26. september 2019.
f)    Stöðuskýrsla edX.
g)    Háskóli Íslands í hópi 300 bestu í hugvísindum.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 14.50.

Að loknum fundi var fulltrúum í háskólaráði boðið í skoðunarferð um Vísindagarða Háskóla Íslands og hús Grósku. Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og varamaður í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands annaðist leiðsögn ásamt Kristjáni Garðarssyni, arkitekt hjá Andrúmi arkitektum.