6/2021
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2021, fimmtudaginn 3. júní var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00. Fundað var í húsnæði Vísindagarða Háskóla Íslands í Grósku.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson og Snædís K. Bergmann (varamaður fyrir Einar Sveinbjörnsson). Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Ingibjörg Gunnarsdóttir sig vanhæfa til að taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 2a, Jón Ólafsson lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 8b og Guðvarður Már Gunnlaugsson lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu liðar 8d. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands.
a. Fasteignafélag Háskóla Íslands og tengd málefni, sbr. síðasta fund. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir tillögu að fulltrúum Háskóla Íslands í stjórn Fasteigna, félags um fasteignir Háskóla Íslands.
– Samþykkt einróma. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Fasteigna Háskóla Íslands ehf. eru Daði Már Kristófersson, prófessor, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og varaforseti háskólaráðs. Varamaður er Siv Friðleifsdóttir, fulltrúi í háskólaráði. Ingibjörg Gunnarsdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, prófessor, og gerði ásamt rektor grein fyrir fjármálum og leigugreiðslum vegna húsnæðis Háskóla Íslands í nýju fasteignafélagi. Málið var rætt og svöruðu rektor og Daði Már spurningum fulltrúa í háskólaráði.
Daði Már vék af fundi.
b. Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands. Staða mála.
Inn á fundinn kom Erla Guðrún Ingimundardóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og greindi frá stöðu mála varðandi afleiðingar og eftirmál vatnstjóns í byggingum Háskóla Íslands í janúar sl. Fram kom að úrlausn málanna mun væntanlega taka langan tíma og gera þarf ýmsar ráðstafanir varðandi skrifstofu- og kennsluhúsnæði á komandi haustmisseri. Málið var rætt og svaraði Erla Guðrún spurningum.
Erla Guðrún vék af fundi.
c. Staða viðhaldsverkefna.
Rektor fór yfir framlagt yfirlit um stöðu viðhaldsverkefna í byggingum Háskóla Íslands. Málið var rætt.
3. Niðurstöður háskólaþings 25. maí 2021.
Rektor fór yfir niðurstöður háskólaþings 25. maí 2021. Á þinginu voru m.a. samþykkt lokadrög að nýrri heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, sbr. dagskrárlið 4.
4. Ný heildarstefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026.
Inn á fundinn komu Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar og formaður stýrihóps stefnumótunar, og Andrea G. Dofradóttir, verkefnisstjóri stefnuinnleiðingar. Rektor og Steinunn fóru yfir framlagða tillögu að nýrri heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, þar sem m.a. hefur verið tekið mið af framkomnum ábendingum á háskólaþingi 25. maí sl., sbr. dagskrárlið 3. Stefnan ber yfirskriftina „Betri háskóli – betra samfélag.“ Málið var rætt og svöruðu rektor og Steinunn spurningum. Fulltrúar í háskólaráði þökkuðu stýrihópnum og öðrum sem komu að undirbúbúningi stefnunnar fyrir vandaða vinnu.
– Ný heildarstefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026 samþykkt einróma. Stefnan verður kynnt á ársfundi Háskóla Íslands 14. júní nk. og gerð aðgengileg á vef Háskólans.
Steinunn og Andrea viku af fundi.
Fundarhlé.
5. Skilagrein starfshóps háskólaráðs um störf ráðsins á undangengnu starfsári.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, varaforseti háskólaráðs og formaður nefndar ráðsins um störf þess á liðnu starfsári, gerði grein fyrir áliti nefndarinnar, en hlutverk hennar er að rýna vinnubrögð ráðsins og leggja eftir atvikum til umbætur á starfsháttum þess. Auk Ingibjargar voru í nefndinni Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson og Jessý Rún Jónsdóttir, fulltrúar í háskólaráði. Málið var rætt ítarlega.
– Sameiginlegri stjórnsýslu falið að fara yfir ábendingar er fram komu og undirbúa mögulega útfærslu og framkvæmd fyrir næsta fund ráðsins eftir sumarhlé.
6. Uppgjör starfsáætlunar háskólaráðs 2020-2021.
Rektor gerði grein fyrir framlögðu uppgjöri starfsáætlunar háskólaráðs 2020-2021. Fram kom að almennt hefur gengið vel að vinna að framgangi starfsáætlunarinnar, en eðli máls samkvæmt verða sumir þættir hennar áfram í vinnslu. Málið var rætt og komu fram ábendingar sem tekið var tillit til.
– Samþykkt einróma.
7. Erindi frá nemendum.
Inn á fundinn komu Víðir Smári Petersen, dósent og formaður kærunefndar í málefnum nemenda, og Erla Guðrún Ingimundardóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors. Víðir Smári gerði grein fyrir framlögðum álitum kærunefndar nr. 2021/1 um erindi frá nemanda um afturköllun deildar á fyrri ákvörðun um nám og nr. 2021/2 um um erindi frá nemanda varðandi skil lokaritgerðar. Málin voru rædd og svaraði Víðir Smári spurningum ráðsmanna.
Víðir Smári vék af fundi.
a. Erindi varðandi afturköllun deildar á fyrri ákvörðun um nám.
Erla Guðrún gerði grein fyrir framlagðri tillögu að úrskurði háskólaráðs um erindið. Málið var rætt og svaraði Erla Guðrún spurningum.
– Samþykkt einróma.
b. Erindi varðandi skil lokaritgerðar.
Erla Guðrún gerði grein fyrir framlagðri tillögu að úrskurði háskólaráðs um erindið. Málið var rætt og svaraði Erla Guðrún spurningum.
– Samþykkt einróma.
8. Bókfærð mál.
a. Stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.
– Tilnefningar hafa borist og er samþykkt að fela rektor að ganga frá skipan stjórnarinnar. Stjórnin er skipuð til þriggja ára frá 1. júlí 2021 að telja.
b. Erindisbréf gæðanefndar háskólaráðs ásamt tillögu að skipan nefndarinnar, sbr. fund háskólaráðs 15. apríl sl. og starfsáætlun háskólaráðs.
– Samþykkt. Í gæðanefnd sitja Jón Ólafsson, prófessor, formaður, tilnefndur af rektor, NN, fulltrúi stúdenta. Fastafulltrúar eru Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, Friðrika Þóra Harðardóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs, Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri, og Guðlaug Þóra Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri Miðstöðvar framhaldsnáms. Skipunartími nefndarinnar er til þriggja ára, frá 1. júlí að telja.
Jón Ólafsson tók ekki þátt í afgreiðslu þessa dagskrárliðar.
d. Framgangsdómnefndir fræðasviða, sbr. fund ráðsins 6. maí sl. [tillögur um tilnefningar háskólaráðs].
– Samþykkt að fela rektor að ganga frá skipan nefndanna. Guðvarður Már tók ekki þátt í afgreiðslu þessa dagskrárliðar.
9. Mál til fróðleiks.
a. Drög að dagatali Háskóla Íslands 2021-2022.
b. Skipan málnefndar Háskóla Íslands. Tilnefningar hafa borist og mun rektor ganga frá skipan nefndarinnar.
c. Skipan sjálfbærni- og umhverfisnefndar Háskóla Íslands. Tilnefningar hafa borist og mun rektor ganga frá skipan nefndarinnar.
d. Minnisblað um niðurfellingu kandídatsárs í læknisfræði.
e. Árleg vorráðstefna Aurora samstarfsins.
f. Sumarnám við Háskóla Íslands.
g. Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um Happdrætti Háskóla Íslands og happdrætti (bann við spilakössum).
h. Nýsköpunarvikan 26. maí-2. júní.
i. Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2-.3. júní 2021.
j. Breyting á lögum nr. 63/2006 og 85/2008 vegna inntökuskilyrða í grunnnám. Viðbrögð.
k. Niðurstöður nýrrar Eurostudent-könnunar um félagslegar og fjárhagslegar aðstæður evrópskra háskólanema.
l. Háskóli Íslands á lista Shanghai Ranking fimm ár í röð.
m. Úthlutun úr kennslumálasjóði 2021.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.35.
Að fundi loknum var fulltrúum í háskólaráði boðið að skoða húsið Grósku undir leiðsögn formanns stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.