Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 3. febrúar 2022

2/2022
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2022, fimmtudaginn 3. febrúar var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Ólafur Pétur greindi frá því að hann tæki ekki þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 9.a. Að öðru leyti voru ekki gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Rekstur Háskóla Íslands á liðnu ári. Staða mála.
Jenný Bára fór yfir drög að yfirliti um rekstur Háskóla Íslands á árinu 2021. Fram kom að reksturinn var í jafnvægi. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá.

b.    Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands.
Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir framlagðri áætlun fjármálanefndar um ráðstöfun fjár úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands á árinu 2022. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.

    Jenný Bára vék af fundi.

3.    Húsnæðismál og framkvæmdir.
Inn á fundinn komu Áslaug Magnúsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs.

a.    Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands, sbr. fyrri fundi.
Fyrir fundinum lá matsgerð vegna beiðni Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta um mat á umfangi tjóns í húsnæði Háskólans og Félagsstofnunar af völdum vatnsflóðs aðfaranótt 21. janúar 2021. Áslaug og Kristinn gerðu grein fyrir stöðu málsins og mögulegum næstu skrefum. Málið var rætt og svöruðu rektor, Áslaug og Kristinn spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Rektor falið að fylgja málinu eftir. Stefnt er að því að hafist verði handa við endurbætur eins fljótt og auðið er.

Áslaug og Kristinn viku af fundi.

b.    Saga. Undirbúningur flutnings starfsemi Háskóla Íslands í húsið. Undirbúningshópur, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Kristján Garðarsson, arkitekt, og lýsti húsinu og sögu þess og reifaði ýmsar hugmyndir um mögulega nýtingu þess. Ráðgert er m.a. að Menntavísindasvið flytji í húsið, auk þess sem þar verða stúdentaíbúðir. Málið var rætt. Rektor mun skipa tvo undirbúningshópa til að vinna að framgangi málsins.

Kristján vék af fundi.

c.    Málefni Fasteigna Háskóla Íslands ehf. Listi eigna, húsaleigusamningur, þjónustusamningur.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, prófessor og formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., og gerði ásamt Guðmundi R., fulltrúum Háskóla Íslands í stjórn félagsins, grein fyrir málefnum þess. Málið var rætt.

Guðmundur vék af fundi.

4.    Innri endurskoðun. Endurskoðunaráætlun 2022.
Inn á fundinn kom Sigurjón Guðbjörn Geirsson, innri endurskoðandi Háskóla Íslands. Ásthildur Margrét Otharsdóttir, formaður endurskoðunarnefndar háskólaráðs, fór yfir áformaðar áherslur í starfi nefndarinnar á árinu 2022 og Sigurjón gerði grein fyrir framlagðri tillögu að endurskoðunaráætlun ársins. Málið var rætt og svaraði Sigurjón spurningum.
– Endurskoðunaráætlun fyrir árið 2022 samþykkt einróma.

Sigurjón vék af fundi.

5.    Stefnubundin úthlutun starfa. Minnisblað ásamt drögum að erindisbréfi starfshóps.
Rektor gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um stefnubundna úthlutun akademískra starfa í samstarfi fræðasviða og drögum að erindisbréfi starfshóps sem ætlað er að undirbúa málið. Málið var rætt. Rektor lagði til að Ólafur Pétur yrði formaður starfshópsins.
– Samþykkt einróma.

Fundarhlé.

6.    Drög tillögu að nýjum reglum um inntöku nemenda í grunnnám, sbr. fund ráðsins 9. desember sl.
Inn á fundinn komu Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og Gísli Fannberg, verkefnisstjóri hjá kennslusviði, og gerðu grein fyrir framlögðum drögum að endurskoðuðum reglum um inntökuskilyrði í grunnnám í deildum Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu Róbert og Gísli spurningum fulltrúa í háskólaráði. Málið verður áfram á dagskrá ráðsins.

Einar Sveinbjörnsson, Jón Ólafsson, Róbert og Gísli viku af fundi.

7.    Málefni Happdrættis Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ). Málefni HHÍ voru síðast til umræðu á fundi háskólaráðs 2. september sl., en rektor hafði sl. vor sett starfshóp um álitaefni tengd tekjuöflun happdrættisins. Nýlega hefur rektor ásamt formanni starfshópsins átt fund með nýjum dómsmálaráðherra um þessi mál, en á vegum ráðuneytisins eru málefni varðandi rekstur spilakassa til skoðunar.

Niðurstöður skýrslu starfshóps rektors voru ræddar og tekið undir þau sjónarmið sem þar eru sett fram varðandi rekstur spilakassa HHÍ. Framlag HHÍ til Háskóla Íslands er honum mikilvægt. Í umræðum kom fram að nauðsynlegt sé að horfa á málið heildstætt og leita allra leiða til að bregðast við mögulegum tekjumissi sem breytingar kunna að valda og mikilvægt að rektor vinni áfram að málinu í samráði við stjórnvöld.

Bryndís vék af fundi.

8.    Málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn komu Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. (VHÍ), og Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri VHÍ. Sigurður Magnús fór yfir helstu framkvæmdir og áætlanir á vegum VHÍ, þ.m.t. bílastæðamál. Málið var rætt.

9.    Bókfærð mál.
a.    Framlenging skipunartíma starfshóps um útreikning tímafjölda að baki námskeiðum við Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt. Ólafur Pétur tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

b.    Frá Hugvísindasviði: Tillaga að nýjum reglum um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands og niðurfellingu reglna nr. 1022/2009.
– Samþykkt.

c.    Tillaga að breytingu á verklagsreglum um greiðslur vegna aukastarfa innan Háskóla Íslands sem kostuð eru af öðru fé en opinberum fjárveitingum til Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

d.    Nýr formaður stjórnar Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands.
– Lagt var til að Herdís Sveinsdóttir prófessor yrði formaður. Samþykkt.

e.    Stefna Háskóla Íslands um fjárhagslega hagsmunaárekstra er varða styrki sem veittir eru af bandarísku lýðheilsuþjónustunni (U.S. Public Health Services, PHS).
– Samþykkt.

10.    Mál til fróðleiks.
a.    Nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð þarf að taka afstöðu til.
b.    Vísindamenn tengdir Háskóla Íslands fá sex öndvegisstyrki úr Rannsóknasjóði.
c.    Úthlutun verkefnastyrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
d.    Glærur rektors frá upplýsingafundi með starfsfólki 2. febrúar sl.
e.    Sigurður Magnús Garðarsson endurráðinn forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
f.    Fréttabréf háskólavina, dags. 27. janúar 2022.
g.    Bílastæðamál Háskóla Íslands. Starfshópur.
h.    Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.