05/2019
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2019, fimmtudaginn 2. maí var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Benedikt Traustason, Guðbrandur Benediktsson (varamaður fyrir Ásthildi Margréti Otharsdóttur, Guðvarð Má Gunnlaugsson og Rögnu Árnadóttur), Guðrún Geirsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Einar Sveinbjörnsson og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Rektor bar upp tillögu um að dagskrárliður 7 yrði tekinn fyrir á undan lið 6 og var það samþykkt. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.
a) Ársreikningur Háskóla Íslands 2018.
Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2018 og gerði Jenný Bára grein fyrir honum. Málið var rætt. Fram kom að beðið er eftir frekari gögnum frá Fjársýslu ríkisins en ráðgert er að endanlegur ársreikningur verði lagður fram til afgreiðslu á næsta fundi ráðsins.
b) Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-mars 2019.
Jenný Bára fór yfir framlagt yfirlit um rekstur Háskóla Íslands fyrstu þrjá mánuði ársins 2019. Fram kom að reksturinn á tímabilinu hefur verið í jafnvægi.
c) Ráðstöfun framkvæmdafjár 2019.
Rektor kynnti málið og Guðmundur fór yfir framlagt minnisblað um ráðstöfun framkvæmdafjár á árinu 2019. Á síðasta fundi háskólaráðs, 4. apríl sl., var samþykkt að verja allt að 300 m.kr. til uppbyggingar Háskóla Íslands fyrir starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs á LSH svæðinu. Um leið þýddi þetta að til ráðstöfunar voru um 280 m.kr. til viðhalds bygginga Háskólans árið 2019. Fyrir liggur að ráðast þarf í kostnaðarsöm viðhaldsverkefni og þar sem ljóst er að fjárhæðin sem ætluð var til framkvæmda á LSH svæðinu mun verða lægri en áætlað var á árinu 2019, er óskað eftir því að rektor geti veitt framkvæmda- og tæknisviði svigrúm til að nýta fjármuni sem þannig losna til viðhaldsverkefna. Fyrri ákvörðun um uppbyggingu fyrir Heilbrigðisvísindasvið stendur óhögguð.
– Samþykkt einróma.
d) Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 10. janúar og 4. apríl sl. Staða mála.
Rektor greindi frá stöðu málsins og fyrirhuguðum fundi með fjármála- og efnahagsráðherra í næstu viku. Málið var rætt.
Guðmundur og Jenný Bára viku af fundi.
3. Hús íslenskra fræða, ákvörðun um framkvæmd. Erindi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, dags. 5. apríl sl. og svar við því, dags. 8. apríl sl. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Fram kom m.a. að stjórnvöld hafa nú frestað ákvörðun um að hefja framkvæmdir við Hús íslenskra fræða. Í bréfi rektors til mennta- og menningarmálaráðuneytis 8. apríl sl. er settur fyrirvari um samþykki háskólaráðs varðandi þátttöku Háskóla Íslands í byggingarkostnaði. Málið var rætt og samþykkti háskólaráð þá afstöðu sem fram kemur í bréfi rektors.
4. Innleiðing Stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021, HÍ21, sbr. starfsáætlun háskólaráðs. Staða mála.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innleiðingu stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021 og tengslum hennar við starfsáætlun háskólaráðs starfsárið 2018-2019. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.
Steinunn vék af fundi.
5. Drög að umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um vandaða starfshætti í vísindum.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram komu nokkrar ábendingar sem tekið verður mið af í endanlegri umsögn Háskóla Íslands.
– Samþykkt einróma.
6. Stjórnsýslukæra til háskólaráðs.
Inn á fundinn kom Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og gerði grein fyrir málinu og framlögðu minnisblaði um mögulega málsmeðferð innan Háskóla Íslands. Málið var rætt og verður það undirbúið á vettvangi miðlægrar stjórnsýslu til afgreiðslu á næsta fundi ráðsins.
Björn Atli vék af fundi.
7. Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala. Kynning.
Inn á fundinn kom Kristinn Andersen, prófessor og formaður Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala, og gerði grein fyrir hlutverki og störfum nefndarinnar. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum fulltrúa í háskólaráði.
8. Bókfærð mál.
a) Samningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Grósku.
– Samþykkt.
b) Skipan dómnefndar í framgangsmáli.
– Samþykkt.
9. Mál til fróðleiks.
a) Dagskrá 23. háskólaþings 3. maí nk.
b) Aðalfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 6. maí nk.
c) Ársreikningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og endurskoðunarskýrsla.
d) Dagskrá árlegs akkerisfundar um innleiðingu Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021, HÍ21, 23. maí nk.
e) Ársreikningur Rannsókna- og háskólanets Íslands hf.
f) Samningur um samstarf Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um starfsþróun og nýsköpun í menntun.
g) Fréttabréf háskólavina, dags. 29. apríl 2019.
h) Ferð rektors til University of California Santa Barbara.
i) Úthlutun nýdoktorastyrkja Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands 2019.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.30.