Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 16. ágúst 2023

7/2023

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2023, miðvikudaginn 16. ágúst var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Guðvarður Már Gunnlaugsson (varamaður fyrir Arnar Þór Másson), Aðalheiður Jóhannsdóttir (varamaður fyrir Silju Báru Ómarsdóttur), Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Vilborg Einarsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

Dagskrá

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og kom fram að Silja Bára Ómarsdóttir tæki ekki þátt í fundinum vegna vanhæfis.

2.    Málefni Happdrættis Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ) og Víðir Smári Petersen, dósent við Lagadeild og formaður stjórnar HHÍ.

Fyrir fundinum lágu drög að umsögn HHÍ um mál nr. S-137/2023 sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda 17. júlí 2023, Áform um breytingar á lögum um söfnunarkassa og lögum um Happdrætti Háskóla Íslands (aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka). Bryndís og Víðir Smári gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu þau Bryndís og Víðir Smári spurningum er fram komu.

Fram kom að tekjuöflun HHÍ hefur allt frá stofnun fyrir tæpri öld verið ein mikilvægasta fjárhagsstoð Háskóla Íslands hvað varðar uppbyggingu og viðhald húsnæðis og tækjakaup til rannsókna. Jafnframt var lögð rík áhersla á að sérstaða HHÍ í þágu Háskóla Íslands sé virt.

Að umræðu lokinni voru framlögð drög umsagnar HHÍ um mál nr. S-137/2023 samþykkt einróma ásamt eftirfarandi bókun:

„Tekið er undir þau sjónarmið sem fram koma í áformum stjórnvalda um breytingar á lögum sem gera kröfu um auðkenningu spilara, mögulega með svokölluðu spilakorti. Í því samhengi er mikilvægt að persónuverndarsjónarmiða verði gætt. HHÍ hefur frá árinu 2017 unnið að undirbúningi innleiðingar spilakorta til að stuðla að ábyrgri spilun og þar með skaðaminnkun þeirra sem glíma við spilavanda og spilafíkn, en lagaumhverfi hefur skort. Um málið hefur ítrekað verið fjallað í háskólaráði, sbr. m.a. skýrslu starfshóps rektors Háskóla Íslands um álitaefni tengd tekjuöflun HHÍ frá júní 2021, sem rædd var í ráðinu 2. september 2021 og 3. febrúar 2022. Háskólaráð hefur tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í skýrslunni um að „leggja áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir í tengslum við rekstur spilakassa með því að hvetja HHÍ til að taka sem fyrst nauðsynleg skref til innleiðingar spilakorta. Slíkar einhliða ákvarðanir HHÍ munu óhjákvæmilega leiða til tekjuhruns sem aftur mun koma verulega niður á innviðauppbyggingu HÍ. Með hliðjón af framansögðu er nauðsynlegt að horfa á málið heildstætt og leita allra leiða til að bregðast við væntum tekjumissi.

Þótt enn séu uppi andstæð sjónarmið um hvort rekstur spilakassa falli ómögulega að hlutverki háskóla þá er það engum vafa undirorpið að þessi helsta menntastofnun þjóðarinnar getur ekki staðið að rekstrinum öðruvísi en að taka tillit til nýjustu rannsókna um áhrif spilakassa á tiltekna hópa samfélagsins og með því að taka upp allar mögulegar aðgerðir sem geta stuðlað að ábyrgri spilun og lágmarkað neikvæðar afleiðingar jafnt fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.“

Samhliða upptöku spilakorta telur háskólaráð jafnframt brýnt að tekið verði á hinni víðtæku ólöglegu fjárhættuspilun á erlendum vefsíðum sem boðið er upp á óáreitt hér á landi, en áætlað er að Íslendingar spili fyrir um 20 milljarða króna árlega á slíkum síðum og að hreinar happdrættistekjur sem tapist nemi því um 6 milljörðum króna á ári hverju og fari hækkandi. Ljóst er að upptaka spilakorta ein og sér mun skila litlum árangri ef ekki verður jafnframt stemmt stigu við slíkri ólögmætri spilun.“

Fulltrúar stúdenta lögðu til viðbótar fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar stúdenta leggja áherslu á mikilvægi upptöku spilakorta og ítreka að hlutverk kortanna skuli fyrst og fremst stuðla að skaðaminnkun þeirra sem glíma við spilavanda og spilafíkn. Þá taka fulltrúar stúdenta undir með tillögum starfshóps um réttarbætur á sviði happdrættismála, einkum er kemur að atriðum 6 og 7; að kannaður verði „grundvöllur fyrir frekari rannsóknir á spilavanda og spilafíkn“, og að „happdrættisfélögin greiði annaðhvort fast gjald eða hlutfall af hreinum happdrættistekjum til forvarna, rannsókna og meðferðarúrræða.

Upptaka spilakorta sé vissulega framfaraskref og brýnt að innleiðing þeirra gangi farsællega fyrir sig. Fulltrúar stúdenta vilja þó ítreka að Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur talað fyrir því að Háskóli Íslands eigi ekki að hafa aðkomu að rekstri spilakassa og skuli fara fram á að stofnunin sé fjármögnuð af ríkisvaldinu þannig að hún þurfi ekki að reiða sig á happdrættisfé. Hlutverk Háskóla Íslands sem þekkingarstofnun er nýtur virðingar hefur gríðarlega mikla samfélagslega þýðingu og áfram ítrekum við að það sé óviðunandi að núverandi fyrirkomulag sé forsenda uppbyggingar og styrkingar innviða æðstu menntastofnunar landsins. Það er á ábyrgð stjórnvalda að fjármagna Háskóla Íslands og hvetjum við öll sem að málinu koma að halda því til haga í áframhaldandi umræðu við stjórnvöld.

Með fylgir ályktun Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna reksturs spilakassa Happdrættis Háskóla Íslands til fjármögnunar Háskóla Íslands frá 2021.

Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir
Katrín Björk Kristjánsdóttir“

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 14.00.