Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 11. janúar 2018

1/2018

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2018, fimmtudaginn 11. janúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Eydís Blöndal (varamaður fyrir Þengil Björnsson), Guðrún Geirsdóttir, Orri Hauksson, Ragna Árnadóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rúnar Unnþórsson (varamaður fyrir Stefán Hrafn Jónsson) og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ragna Sigurðardóttir óskaði eftir að liður 7b yrði ræddur. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ að öðru leyti og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Líkleg rekstrarniðurstaða Háskóla Íslands 2017.
Jenný Bára gerði grein fyrir líklegri rekstrarniðurstöðu Háskóla Íslands fyrir árið 2017. Fram kom að gert er ráð fyrir að rekstur ársins verði í jafnvægi.

b)    Fjárlög ársins 2018.
Fyrir fundinum lá minnisblað fjármálanefndar háskólaráðs um fjármál og tillaga nefndarinnar um skiptingu fjárveitingar árið 2018. Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.

c)    Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2018, tillaga fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga.
– Tillaga fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga 2018 samþykkt einróma.

Guðmundur og Jenný Bára viku af fundi.

3.    Innleiðing Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021, sbr. starfsáætlun háskólaráðs. Staða mála.
Inn á fundinn komu Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, formaður stýrihóps HÍ21 og Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs og fóru yfir stöðu mála varðandi innleiðingu HÍ21, Stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. Málið var rætt og svöruðu Steinunn og Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Steinunn og Guðmundur viku af fundi.

4.    Kynjajafnrétti innan Háskóla Íslands. Jafnlaunarannsókn og úttekt á framgangskerfi. Skýrsla Félagsvísindastofnunar, ásamt viðauka, desember 2017.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Hanna Ragnarsdóttir, formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Guðný Gústafsdóttir, verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun. Guðbjörg Andrea og Guðný gerðu grein fyrir nýlegri skýrslu, „Kynjajafnrétti innan Háskóla Íslands. Jafnlaunarannsókn og úttekt á framgangskerfi“, sem unnin var af Félagsvísindastofnun að beiðni jafnréttisnefndar.

Málið var rætt. Fram kom að skýrsla Félagsvísindastofnunar muni nýtast við endurskoðun á vinnumatskerfi Háskólans sem nú stendur yfir sem og við mótun fjölskyldustefnu, jafnréttisáætlun, kynjaða fjárhagsáætlanagerð og undirbúning jafnlaunavottunar fyrir Háskóla Íslands, sem m.a. miðar að því að koma í veg fyrir kynbundinn launamun. Er það í fullu samræmi við að jafnrétti er leiðarljós í starfi Háskóla Íslands og eitt af grunngildum í stefnu skólans fyrir tímabilið 2016-2021.

Guðbjörg Linda, Hanna, Guðbjörg Andrea og Guðný viku af fundi.

5.    Vinna stýrihóps rektors um innleiðingu nýrra reglna um persónuvernd á vettvangi Háskóla Íslands, sbr. reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd sem ráðgert er að verði lögleidd hér á landi á þessu ári (2018). Staða mála.
Inn á fundinn kom Erla Guðrún Ingimundardóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors og greindi frá yfirstandandi vinnu stýrihóps um innleiðingu nýrra reglna um persónuvernd á vettvangi Háskóla Íslands, sbr. reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd sem ráðgert er að verði lögleidd hér á landi á árinu 2018. Málið var rætt og mun það aftur verða á dagskrá háskólaráðs.

Erla vék af fundi.

6.    Innri endurskoðun. Endurskoðunaráætlun fyrir árin 2018-2020, ásamt fjárhagsáætlun fyrir árið 2018.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi og gerði grein fyrir drögum að endurskoðunaráætlun fyrir árin 2018-2020 og fjárhagsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2018. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum ráðsmanna.

– Endurskoðunaráætlun fyrir árið 2018-2020 og fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 samþykkt einróma.

Ingunn vék af fundi.

7.    Bókfærð mál.
a)    Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár komandi háskólaárs 2018-2019.

– Samþykkt.

b)    Tillaga Miðstöðvar framhaldsnáms að breytingu á 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 um skipulegt framhaldsnám til meistara- og doktorsprófa, sbr. fund háskólaráðs 5. október sl.
Ragna Sigurðardóttir spurði hvers vegna ekki hefði verið tekið tillit til ábendingar í umsögn Stúdentaráðs og umsögn Fedon um að bjóða upp á annað en 50% námshlutfall þegar um er að ræða hlutanám. Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Guðlaug Þóra Kristjánsdóttir, verkefnisstjóri hjá Miðstöð framhaldsnáms og brugðust við. Málið var rætt.
– Samþykkt.

c)    Skipun skipulagsnefndar háskólasvæðisins.
Skipulagsnefnd verði skipuð Hrund Ólöfu Andradóttur, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, formaður, Steinunni J. Kristjánsdóttur, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, Stefáni Thors, arkitekt, fv. forstjóra Skipulagsstofnunar og ráðuneytisstjóra og Ara Guðna Haukssyni, sagnfræðinema. Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, starfar með nefndinni, ásamt Sigurlaugu I. Lövdahl, skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, sem er ritari nefndarinnar. Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., situr jafnframt fundi nefndarinnar. Nefndin er skipuð til 30. júní 2020.
– Samþykkt.

d)    Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands verði þannig skipuð árið 2018: Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við Lagadeild, formaður, Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs Háskólans, Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, forstjóri Kaffitárs.
– Samþykkt.

e)    Reglum um inntöku nýnema í Hagfræðideild Háskóla Íslands, nr. 188/2012, verður ekki beitt háskólaárið 2018-2019.
– Samþykkt.

f)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Læknadeildar að breytingu á reglum nr. 1042/2003 um inntöku nýnema í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði í Læknadeild Háskóla Íslands (varðar að sett verði tilskilin lágmarkseinkunn í einum prófhluta inntökuprófs).
– Samþykkt.

g)    Innleiðing nýrrar deildarskiptingar á Menntavísindasviði.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a)    Uppfært yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
b)    Uppfært dagatal Háskóla Íslands.

c)    Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2018.
d)    Framlenging samstarfssamnings Háskóla Íslands og Landspítala til 30. júní 2018.
e)    Auglýsing starfs forseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
f)    „Jafnrétti er leiðarljós í starfi Háskóla Íslands“. Grein rektors í Fréttablaðinu 27. desember 2017.
g)    Greinargerð Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna Aldarafmælissjóðs.
h)    Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, janúar 2018.
i)    Samningur Vísindagarða Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um randbyggð, dags. 21. desember 2017.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.40