Á árinu 1941 færði frú Anna Friðriksson, eigandi Hljóðfærahúss Reykjavíkur, Háskóla Íslands konsertflygil að gjöf í Hátíðasal skólans. Flygillinn var af tegundinni Broadwood, sem þóttu miklir kostagripir, handgerðir og sérstaklega tónfallegir. Flygillinn var notaður í Hátíðasal skólans um áratugaskeið. Þegar salurinn var gerður upp og opnaður á ný um aldamótin 2000 var flygillinn seldur og andvirði hans var notað til að kaupa nýjan flygil í salinn. Því má segja að endurómur gjafar frú Önnu Friðriksson til Háskóla Íslands hljómi enn í sölum hans.
Sagt er frá gjöf frú Önnu Friðriksson í Morgunblaðinu 28. febrúar 1941. Þar er haft eftir henni að „langt (er) síðan jeg fékk áhuga á því að hjer gæti komist upp tónleikasalur fyrir góða tónlist af líkri stærð og t.d. salur Hornung & Möller í Khöfn. Þetta fanst mjer hafa rætst um vonir fram, þegar háskólasalurinn var kominn upp, að öðru leyti en því að það vantaði aðeins góðan konsertflygil.“ Þess ber að geta að Aðalbygging Háskóla Íslands var vígð snemmsumars árið 1940 og Hátíðasalurinn var þá tekinn í notkun. Gjöfin var færð háskólanum í tilefni af 25 ára afmæli Hljóðfærahúss Reykjavíkur og frú Anna lætur þess getið að hún geti ekki eignað sér allan heiðurinn af þessari gjöf því að fjármálaráðherra og Eimskipafélag Íslands hafi gefið eftir tolla og flutningskostnað!
Frú Anna Friðriksson var dönsk, fædd í Kaupmannahöfn 1892. Faðir hennar var skókaupmaður og móðir hennar var kennari að mennt. Anna gekk í æðri skóla og stundaði auk þess píanónám hjá kunnum kennara í Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hún giftist Ólafi Friðrikssyni, rithöfundi og síðar ritstjóra og verkalýðsfrömuði, á árinu 1912 og fluttust þau til Íslands þremur árum síðar. Ólafur var m.a. forgöngumaður að stofnun Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins árið 1916. Þau hjón eru skrifuð inn í Íslandssöguna í svokölluðu „drengsmáli“ sem snerist um 14 ára rússneskan dreng sem Ólafur kom með heim frá Alþjóðaþingi kommúnista 1921 og reyndist vera með smitandi augnsjúkdóm. Íslensk heilbrigðisyfirvöld vildu vísa honum úr landi gegn vilja Ólafs, sem leit svo á að um pólítíska aðför að sér væri að ræða. Var um skeið umsátursástand um heimili þeirra og hafði þessi atburður mikil áhrif á þau hjón alla tíð.
Anna Friðriksson
Frú Anna Friðriksson var kaupsýslukona. Hún stofnaði Hljóðfærahús Reykjavíkur, sem var fyrsta hljóðfæraverslun landsins, árið 1916 og stóð fyrir rekstri hennar í meira en fjóra áratugi. Í minningargrein um Önnu segir m.a.: „Henni tókst að styrkja svo verzlun sína að hún gat jafnvel hlaupið undir með blaðinu þegar til vandræða kom“ og er þar átt við vikublaðið Dagsbrún, sem verkalýðsfélög í Reykjavík gáfu út og eiginmaður hennar ritstýrði. Á millistríðsárunum stóð hún fyrir heimsóknum margra erlendra listamanna til landsins til að halda hljómleika. Hún var umboðsmaður ýmissa heimskunnra hljómplötufyrirtækja, s.s. Decca og Deutsche Grammophone og hún hafði jafnframt umboð fyrir Linguaphone kennsluplötur. Þá gaf hún út allmargar hljómplötur með söng og hljóðfæraleik íslenskra listamanna. Var haft eftir henni í viðtali í tilefni af 40 ára starfsafmæli fyrirtækisins hún hefði „alla tíð … lagt á það kapp, að hafa á boðstólum hið bezta á sviði klassískrar tónlistar.“
Frú Anna Friðriksson lést í byrjun árs 1960.