Yfir 200 erindi á Þjóðarspeglinum á morgun
Hinn árlegi Þjóðarspegill, ráðstefna Háskóla Íslands í félagsvísindum, fer fram á morgun, föstudaginn 29. október, og verður alfarið á netinu.
Í rúma tvo áratugi hefur ráðstefnan verið vettvangur fyrir fræðilega umræðu um það sem efst er á baugi innan félagsvísinda og þátttakendur eru bæði fræðimenn og nemendur við Háskóla Íslands og aðra háskóla á Íslandi.
Afbrot og ástarrannsóknir, kynbundið ofbeldi og COVID, fötlunarfræði og fjölmiðlar, dægurmenning, loftslagsmál og markaðs- og ferðamál er aðeins brot af þeim viðfangsefnum sem rúmlega 300 fyrirlesarar munu fjalla um í yfir 200 erindum í 53 málstofum.
Þjóðarspegillinn hefst stundvíslega kl. 9 og munu málstofur fara fram á Zoom. Hægt er að kynna sér glæsilega dagskrá og finna tengla á allar málstofur á vef Þjóðarspegilsins.