Vöruinnsetningar og duldar auglýsingar
Eva María Schiöth Jóhannsdóttir, BS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Viðskiptafræðideild
Í lokaverkefni sínu, sem ber heitið „Vöruinnsetningar og duldar auglýsingar: Sjónarhorn bloggara og snappara“, rannsakaði Eva María Schiöth Jóhannsdóttir fyrirtæki sem eru að greiða þekktum bloggurum og snöppurum fyrir að birta vörumerki í færslum eða myndböndum en sú aðferð kallast vöruinnsetningar og duldar auglýsingar.
Eva María svaraði nokkrum spurningum okkar um verkefnið.
Um hvað fjallar rannsóknin?
Rannsóknin fjallar um að fyrirtæki eru að greiða þekktum bloggurum og snöppurum fyrir að birta vörumerki í færslum eða myndböndum en sú aðferð kallast vöruinnsetningar og duldar auglýsingar. Markmið rannsóknarinnar var að athuga hvert viðhorf þekktra bloggara og snappara væri til vöruinnsetninga og duldra auglýsinga ásamt þeirri þóknun sem þeir hafa fengið í gegnum tíðina.
Hvaðan kom hugmyndin að rannsókninni?
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á markaðssetningu og sérstaklega í gegnum samfélagsmiðla og þess vegna verið vakandi fyrir þeim áhrifum sem samfélagsmiðlar hafa á samfélagið. Hins vegar kviknaði hugmyndin að rannsókninni þegar ég tók eftir þeim áhrifum sem Snapchat og blogg hafði á mína nánustu vini. Vinkonur mínar voru t.d. farnar að spjalla um vörur sem frægir snapparar væru að nota og voru jafnvel að fara á veitingastaði einungis vegna þess að þekktur einstaklingur bloggaði góða umfjöllun um hann. Það sem mér fannst þó merkilegast var þegar ég tók eftir því að herbergisfélaginn minn fór að kaupa meira af súkkulaði eftir að hafa fylgst með Snapchat aðgangi Katrínar Eddu en hún er einmitt þekkt fyrir að birta súkkulaði í myndböndum sínum.
Hverjar eru niðurstöður rannsóknarinnar?
Rannsóknin leiddi í ljós að töluvert er um að bloggarar/snapparar fái einhverja þóknun frá fyrirtækjum til þess að kynna vörumerki í færslum/myndböndum. Aftur á móti eru bloggarar/snapparar orðnir meðvitaðri um þær afleiðingar sem vöruinnsetningar og duldar auglýsingar geta haft og þess vegna er viðhorf þeirra að breytast og þeir farnir að vilja kynna vörumerkin með löglegum hætti og auka þannig trúverðugleika sinn. Niðurstöðurnar sýndu þó einnig að bloggarar/snapparar telja sig ekki bera fulla ábyrgð á því hvað fylgjendur gera eftir að hafa skoðað færslu/myndbönd þeirra.
Hvað kom helst fram hjá viðmælendum/svarendum?
Á meðan viðtölum stóð var fyrst og fremst einblínt á rannsóknarspurninguna: „Hvert er viðhorf þekktra bloggara og snappara þegar kemur að vöruinnsetningum og duldum auglýsingum í færslum og myndböndum?“
Það sem kom helst fram hjá viðmælendum var hversu mikið fylgjendur skipta máli og hversu mikilvægt það væri að viðhalda ákveðinni ímynd. Rætt var um þá þóknun sem viðmælendur hafa fengið í gegnum tíðina ásamt viðhorfi þeirra gagnvart vöruinnsetningum og duldum auglýsingum og þeim afleiðingum sem gætu átt sér stað.
Hvað kom mest á óvart í niðurstöðunum?
Það sem kom á óvart var hversu ólík viðhorf viðmælendurnir höfðu til duldra auglýsinga og vöruinnsetninga. Sumum fannst ekkert athugavert að birta vörumerki gegn þóknun í myndböndum/færslum á meðan aðrir að láta fylgjendur vita ef um vörukynningu er að ræða. Það sem kom einnig á óvart var að viðmælendurnir telja sig ekki ábyrgð á hvað fylgjendur gera eftir að hafa skoðað myndbandið/bloggfærsluna þar sem fylgjendurnir sjálfir kjósa að nálgast myndböndin/færslurnar. Erfitt getur þó verið að segja við yngri kynslóðina að ábyrgðin liggi hjá þeim þar sem hugur og vitund þeirra hefur ekki náð þeim þroska að gera greinarmun á duldum auglýsingum og raunverulegum skoðunum fyrirmynda þeirra.