Skip to main content
24. maí 2018

Von á 1700 manns á EURAM-ráðstefnuna í Háskóla Íslands

Von á 1700 manns á EURAM-ráðstefnuna í Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Von er á allt að sautján hundruð manns  á ráðstefnu European Academy of Management (EURAM) sem Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands stendur fyrir dagana 19.-22. júní nk. Um er að ræða eina stærstu ráðstefnu sem haldin hefur verið á Íslandi.

EURAM er þekkingarsamfélag háskóla í 49 löndum sem stofnað var árið 2001 og miðar að því að efla rannsóknir og þekkingarsköpun í viðskiptafræði. Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands tryggði sér rétt til að halda ráðstefnuna árið 2016 og hefur undirbúningur hennar því staðið yfir í tæp tvö ár. 

Umsóknarferlið vegna ráðstefnunnar var unnið í samvinnu Háskóla Íslands, Meet in Reykjavik, Reykjavíkurborgar og Embættis Forseta Íslands. Formaður undirbúningsnefndar EURAM 2018 er dr. Eyþór Ívar Jónsson, lektor við Viðskiptafræðideild og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti. Hann mun taka sæti í stjórn EURAM á þessu ári þegar Ísland verður 50. þátttökulandið í samtökunum.

Ráðstefna EURAM er ein sú stærsta á sviði viðskiptafræði í Evrópu og stærsta ráðstefna sem haldin hefur verið á þessu sviði á Íslandi.  Frestur fræðimanna til að skila inn umsókn um að kynna rannsóknir sínar á ráðstefnunni rann út í upphafi árs 2018 og þegar upp var staðið reyndust umsóknirnar alls um 2.000. Það eru um 60% fleiri umsóknir en bárust þegar ráðstefnan var haldin í fyrra við University of Strathclyde í Glasgow í Skotlandi. Undirbúningsnefnd ráðstefnunnar hafði því í nógu að snúast á fyrri hluta ársins við að meta umsóknir og ákvað á endanum að bjóða aðstandendum um 1.200 rannsókna að kynna þær á ráðstefnunni í júní. 
Við þennan fjölda bætast svo aðrir gestir ráðstefnunnar en samanlagt er áætlað að um sautján hundruð manns komi hingað til lands á ráðstefnuna sem verður um leið ein sú stærsta sem haldin hefur verið við Háskóla Íslands. 

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er „Research in Action – Accelerating knowledge creation in management“ og fer hún fram víða á háskólasvæðinu. Kynntar verða nýjustu rannsóknir á hinum ólíku sviðum viðskiptafræðinnar, þar á meðal stjórnunar, stefnumótunar, nýsköpunar, alþjóðavæðingar og stjórnarhátta auk þess sem boðið verður upp á vinnustofur fyrir bæði fræðimenn og fólk í viðskiptalífinu. Þá verður einnig sérstakur fundur fyrir doktorsnema í viðskiptafræði í tengslum við ráðstefnuna en hann fer fram dagana 17.-19. júní. 

Heimasíða ráðstefnunnar
 

Eyþór Ívar Jónsson