Vísindi og nám í lifandi ljósi á Háskóladaginn
Lifandi og litrík vísindamiðlun, rússnesk þjóðdansakennsla, ferðir um himingeiminn í Stjörnutjaldinu, leiðnimæling á líkamssamsetningu, tónlistaratriði og kynning á yfir 400 námsleiðum í grunn- og framhaldsnámi er meðal þess sem bíður gesta á Háskóladeginum í Háskóla Íslands laugardaginn 4. mars. Háskólinn opnar dyr sínar fyrir landsmönnum öllum milli klukkan 12 og 16 og í boði verða ótal viðburðir, kynningar og uppákomur.
Auk þess að kynna námsframboð við skólann munu nemendur og starfsmenn kynna margþætta þjónustu, félagslíf og spennandi starfsemi, tæki og búnað í rannsóknastofum og öðrum húsakynnum. Á staðnum verða vísindamenn, kennarar og nemendur úr öllum deildum háskólans sem svara spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst.
Öll fræðasvið með kynningu á háskólasvæðinu
Námskynningar á vegum einstakra fræðasviða Háskóla Íslands verða á eftirtöldum stöðum:
Félagsvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Heilbrigðisvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Hugvísindasvið: Aðalbygging
Menntavísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Verkfræði- og náttúruvísindasvið: Askja
Fjölskrúðug dagskrá í fjölmörgum byggingum
Líkt og undanfarin ár kennir ýmissa grasa á Háskóladeginum í Háskóla Íslands en þar eru bæði fræði og fjör í fyrirrúmi.
• Í Aðalbyggingu Háskólans, þar sem nám í hugvísindum verður kynnt, verður nóg um að vera allan tímann. Boðið verður upp á kennslu í rússneskum þjóðdönsum og japanskt dansatriði auk þess sem kínverskur dreki mun hlykkjast um ganga þessarar elstu háskólabyggingar landsins. Þá er einnig von á Háskólakórnum sem mun hefja upp raust sína í anddyri Aðalbyggingar þar sem hljómburður er með eindæmum góður. Gestir geta einnig glöggvað sig á íslenskum mállýskum, fengið nafn sitt skrifað með hljóðritunartáknum, spjallað um bókmenntir við íslenskunema og skoðað eftirgerðir af handritum frá Árnastofnun.
• Í Öskju verður auk námskynningar boðið upp á ferðir upp í himinhvolfin í Stjörnuverinu en það er enginn annar en Sævar Helgi Bragason sem mun lýsa fyrir fólki því sem fyrir augu ber á himingeimnum. Í Öskju verður einnig hægt að skoða TS16, glæsilegan rafknúinn kappakstursbíl verkfræðinema sem brunaði um kappakstursbraut á Ítalíu síðasta sumar. Þá munu eldfjallafræðingar glóðarsteikja pylsur á staðnum.
• Á Háskólatorgi, hjarta skólans, verður ys og þys en þar kynna fulltrúar Menntavísindasviðs, Félagsvísindasviðs og Heilbrigðisvísindasviðs fjöldan allan af námsleiðum. Hægt verður að taka þátt í skutlukeppni tómstunda- og félagsfræðinema, reyna sig í stökkprófi hjá íþrótta- og heilsufræðinemum og kynna sér hvernig er að kenna. Á torginu bjóða fulltrúar Heilbrigðisvísindasviðs jafnframt upp á mat á líkamssamsetningu með leiðnimælingu og þar verður einnig hægt að reyna sig við skurðlækningar og hjartahnoð.
• Á Háskólatorgi munu fulltrúar frá Nemendaskrá skólans, Skrifstofu alþjóðasamskipta, Náms- og starfsráðgjöf og Vísindavefnum jafnframt svara þeim spurningum sem brenna á gestum. Á staðnum verða jafnframt fulltrúar frá jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, ráði um málefni fatlaðs fólks, Q - félagi hinsegin stúdenta, Femínistafélagi HÍ og jafnréttisnefnd Stúdentaráðs. Þá veita fulltrúar Félagsstofnunar stúdenta upplýsingar um Stúdentagarða, Leikskóla stúdenta og aðra þjónustu fyrir stúdenta. Stúdentakjallarinn verður einnig opinn en þar mun hljómsveitin Hinemoa stíga á stokk kl. 13.
• Félagar úr Sprengjugengi Háskóla Íslands, sem er fyrir löngu orðið landsþekkt, verða með kraftmiklar og litríkar sýningar í sal 1 í Háskólabíói kl. 13 og 14.30 en á því sviði munu félagar í Háskóladansinum einnig sýna listir sínar. Enn fremur verður boðið upp á Vísindabíó í salnum á undan og eftir sýningum Háskóladansins og Sprengjugengisins. Í Háskólabíói verður Vísindasmiðjan sívinsæla einnig opin frá kl. 12-16. Þar getur öll fjölskyldan kynnt sér undur vísindanna með lifandi hætti enda er þar að finna fjölmörg tæki og tól sem varpa skemmtilegu og forvitnilegu ljósi á vísindin.
• Auk þess eru Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri með námskynningu á 1. hæð Háskólatorgs en þar verður jafnframt að finna fulltrúa Endurmenntunar Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólans á Bifröst ásamt Keili sem kynnir sína landsþekktu háskólabrú. Tæknifræðinám Keilis verður hins vegar kynnt í Öskju.
Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst verða með námskynningar í húsakynnum Háskólans í Reykjavík við Öskjuhlíð og Listaháskóli Íslands kynnir allar sínar námsleiðir í sínum húsakynnum á Laugarnesvegi. Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli skóla.
Aðgangur er ókeypis á alla viðburði á Háskóladeginum.