Skip to main content
10. október 2023

Viðskiptafræðin mikilvæg í þverfræðilegu samstarfi

Viðskiptafræðin mikilvæg í þverfræðilegu samstarfi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Inga Minelgaité, prófessor við Viðskiptafræðideild, tók á dögunum þátt í ráðstefnu og uppskeruhátíð samtakanna Heidelberg Laureate Forum (HLF) en hún hefur að undanförnu unnið sem mentor á vegum vettvangsins sem ætlaður er framúrskarandi ungum vísindamönnum í stærðfræði og tölvunarfræði. Þátttaka í þessu verkefni varð henni enn fremur innblástur að nýrri rannsókn í forystufræðum.

HLF er eini vettvangurinn sinnar tegundar í heiminum og stendur árlega fyrir fimm daga ráðstefnu í Heidelberg í Þýskalandi. Þar koma saman handhafar Abel-verðlaunanna og Turing-verðlaunanna, sem stundum eru nefnd Nóbelsverðlaunin í stærðfræði og tölvunarfræði, og annarra virtra verðlauna á þessum tveimur fræðasviðum til fundar við 300 unga vísindamenn sem hafa verið valdir sérstaklega til þátttöku. Ráðstefna HLF er því ekki hefðbundin heldur hugsuð sem mikilvægur hlekkur í uppbyggingu tengslanets, til að veita næstu kynslóð vísindamanna innblástur og hvatningu og skapa umhverfi fyrir þá til að deila hugmyndum sínum og þróast. HLF var komið á laggirnar árið 2013 og var ráðstefna samtakanna haldin í 10. sinn í lok september.

Styður við starfsframa ungs tölvunarfræðings

Inga Minelgaité fékk í byrjun árs boð um að vera mentor í verkefni á vegum HLF sem nefnist HLFF Inspiring Minds. Í því felst að styðja við unga vísindamenn, sem HLF hefur valið sérstaklega, á vegferð þeirra að þróa og byggja upp starfsframa sinn á sviði stærðfræði og tölvunarfræði. Verkefnið snýst m.a. um að mynda sambönd á milli ungra vísindamanna og virtra sérfræðinga til að stuðla að næstu skrefum þeirra fyrrnefndu á framabrautinni.

Mikil þörf er á því að styðja unga vísindamenn, sérstaklega konur, í því að koma starfsferli sínum á flug. Forysta, stefnumótun og áætlanir um starfsferil eru dæmi um það sem mentorarnir aðstoða vísindamennina ungu með og var Inga beðin um að taka þátt á grundvelli þess að hún er vísindakona á sviði forystu og með þvermenningarlega þekkingu sem nýtist til að styðja fólk á vettvangi HLFF.

Inga hefur að undanförnu verið mentor Patriciu Pons Tomás, ungrar konu frá Spáni sem stundar rannsóknir í tölvunarfræði sem snerta m.a. samskipti dýra við tækni og tölvur. Inga segir að það hafi komið sér mjög á óvart að leitað hafi verið til hennar um að sinna hlutverki mentors þar sem samtökin eru utan hennar fræðasviðs. „Ég var svolítið stressuð fyrir því að vera leiðbeinandi einstaklings á sviði tölvunarfræði en eftir 6 mánaða vinnu með Patriciu er ég enn sannfærðari en áður um það hversu mikið viðskiptafræðin getur hjálpað öðrum greinum að verða skilvirkari, þróast og vaxa. Viðskiptafræðin veiti mikilvægan stuðning við aðrar greinar og hjálpar til við að láta hlutina gerast,“ segir Inga.

Ráðstefnan innblástur að nýrri rannsókn

Inga bætir við að til þess að hafa raunveruleg áhrif á samfélög og framtíðina þurfi fræðigreinar að vinna saman og þar eigi viðskiptafræðin mikilvægt sæti við borðið. „Ég er full innblásturs eftir ráðstefnuna og enn vissari en áður um mikilvægi þverfaglegs samstarfs viðskiptafræðinnar og annarra greina. Síðasti dagur ráðstefnunnar fjallaði um gervigreind og vísindamenn og aftur og aftur komu upp hugtök og fræði sem kennd eru innan viðskiptafræðinnar,“ segir hún og undirstrikar að hin svokölluðu hörðu vísindi þurfi sannarlega á viðskiptafræðinni að halda.

Inga segir ráðstefnuna hafa verið frábæra upplifun og þar hafi hún fengið tækifæri til þess að ræða við sérfræðinga úr öllum áttum, hitta Nóbelsverðlaunahafa og aðila sem komu að þróun Chat GTP og fleira. Ráðstefnan hafi einnig verið henni innblástur að rannsóknum. „Þegar ég hlustaði á Hugo Duminil-Copin, stærðfræðing og Fields-verðlaunahafa árið 2022, kynna rannsóknir sínar kviknaði hjá mér frábær hugmynd að rannsókn á forystu. Þessi hugmynd kviknaði út frá einu líkani sem hann kynnti! Svona geta vísindamenn innan ólíkra greina veitt hver öðrum innblástur.“

Inga M fyrir utan ráðstefnuhúsið
Fyrirlestur ráðstefnunnar
Ráðstefnuhúsið
Inga M með kollega fyrir utan ráðstefnuhúsið