Viðskiptafræðideild eftirsóknarverður kostur fyrir tilstilli starfsþjálfunar
Ásta Dís Óladóttir, dósent í Viðskiptafræðideild, og Eydís Anna Theodórsdóttir, sérfræðingur í mannauðsmálum gáfu nýverið út greinina „Starfsþjálfun gerir deildina eftirsóknarverðari kost“: Reynsla af starfsþjálfun í Viðskiptafræðideilda Háskóla Íslands. Þar skoðuðu þær ávinninginn er af þeirri starfsþjálfun sem Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands býður nemendum sínum og þær áskoranir sem nemendur og stjórnendur standa frammi fyrir meðan á starfsþjálfun stendur.
Rannsóknin byggðist á viðtölum við 16 nemendur og stjórnendur sem allir hafa reynslu af starfsþjálfun á vegum Viðskiptafræðideildar. Rannsóknin sýndi að þátttaka í starfsþjálfun heilt yfir reyndist mjög jákvæð fyrir bæði nemendur og stjórnendur. Nemendur nefndu það að starfsþjálfunin væri mikilvægt tækifæri fyrir þau til þess að öðlast reynslu og auka samkeppnishæfni sína og líkur á því að fá vinnu við útskrift. Stjórnendur nefndu mikilvægi þess að vera í góðum tengslum við háskólasamfélagið og deildina, þar fengju þeir nýjustu þekkingu beint í æð og að þar væru tækifæri til þess að finna framtíðarstarfsmenn, nemendur sem kæmu með ferska sýn inn í fyrirtækið eða stofnunina.
Tengsl menntunnar og starfsþjálfunar
Stjórnendur nefndu að ný sjónarhorn á ákveðnum viðfangsefnum gætu litið dagsins ljós með því að fá nemendur í starfsþjálfun, að þeim fylgdi ný sýn, ný þekking og ný viðhorf. Nokkrir nemendur tóku undir með stjórnendum og töldu sig mörg hver koma með nýjustu strauma tengda fræðunum eða nýtt sjónarhorn inn í umræður hjá fyrirtækjum. Nemendur nefndu það jafnframt að þeim þætti gott að fá tækifæri til þess að nýta þá fræðilegu þekkingu sem að þeir höfðu öðlast í háskólanum og beita henni á raunveruleg verkefni í atvinnulífinu.
Tengslanet og samkeppnishæfni
Nemendur tilgreindu einnig að starfsþjálfunin veitti þeim mikilvægt tækifæri þar sem að hún stækkaði tengslanet þeirra og opnaði dyr fyrir þau, en slíkt skiptir máli þegar nemendur fara í atvinnuleit að lokinni útskrift, veitti þeim ákveðið samkeppnisforskot fram yfir aðra.
Nú hafa hátt í 100 nemendur lokið starfsþjálfun í grunn- og meistaranámi frá Viðskiptafræðideild frá því að farið var að bjóða upp á hana árið 2020 og mörg þeirra hafa fengið starf hjá þeim fyrirtækjum þar sem þau fóru í starfsþjálfun. Önnur nefndu mikilvægi þess að fá umsögn sem hefði svo nýst þeim til þess að fá starf hjá öðrum fyrirtækjum og stofnunum eftir starfsþjálfunina.
Hér er fjallað um vel heppnað samstarf Viðskiptafræðideildar og tölvuleikjaframleiðandans CCP um starfsþjálfun.
Stjórnendur voru margir þeirrar skoðunar að þeir væru ekki endilega að taka inn nemanda í starfsþjálfun í nokkra mánuði heldur væru þau opin fyrir því að viðkomandi gæti farið í launað starf hjá fyrirtækinu þegar starfsþjálfun lýkur.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að ávinningurinn af starfsþjálfun er margþættur fyrir nemendur, en ekki síðri fyrir stjórnendur og starfsfólk vinnustaðanna. Það yki einnig líkurnar á að nemendur kæmu inn með nýjustu strauma og stefnur sem starfsfólk og stjórnendur gætu mögulega tileinkað sér. Þá fá nemendur þjálfun í að beita þeirri þekkingu sem þau hafa öðlast í náminu í raunverkefnum. Flestir stjórnendur hafa nefnt mikinn ávinning af því að fá inn ungt fólk sem hugsar kannski öðruvísi eða sér hlutina með öðrum augum en þau sem fyrir eru.
„Árið 2020 hófum við að bjóða upp á starfsþjálfun sem hefur gengið vonum framar. Við erum í samstarfi við yfir 50 félagasamtök, fyrirtæki, ráðuneyti og stofnanir sem taka til sín nemendur í starfsþjálfun á vor- og haustmisseri,“ segir Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild.
Mikilvægi rannsóknarinnar
Gildi þessarar rannsóknar felst m.a. í því að þar koma fram sjónarmið og reynsla nemenda og stjórnenda sem endurspegla mikilvægi starfsþjálfunar sem vettvangs til þess að hagnýta þá þekkingu í atvinnulífinu sem nemendur öðlast í námi sínu í Viðskiptafræðideild. Niðurstöðurnar bæta við þá þekkingu sem fyrir er hér á landi um gildi starfsþjálfunar. Lærdómurinn sem draga má af rannsókninni er að ávinningurinn af starfsþjálfun sé umtalsverður, bæði fyrir nemendur og stjórnendur þeirra fyrirtækja sem taka þátt í starfsþjálfuninni. Gagnlegt væri fyrir háskóla að efla starfsþjálfun og nýta mætti þá vinnu sem unnin hefur verið í Viðskiptafræðideild og öðrum deildum háskólans sem bjóða upp á starfsþjálfun sem fyrirmynd, enda samrýmist aukin starfsþjálfun vel nýlegri stefnu Háskóla Íslands um aukið samstarf og samtal við atvinnulífið.
Samtal og samstarf við atvinnulífið
„Það er afar mikilvægt fyrir háskóladeild eins og Viðskiptafræðideild, sem menntar stjórnendur og sérfræðinga, að vera í öflugum og góðum tengslum við atvinnulífið,“ segir Ásta Dís Óladóttir og bætir við: „Það er margþætt hjá okkur í Viðskiptafræðideildinni hvernig það er gert. Árið 2020 hófum við að bjóða upp á starfsþjálfun sem hefur gengið vonum framar. Við erum í samstarfi við yfir 50 félagasamtök, fyrirtæki, ráðuneyti og stofnanir sem taka til sín nemendur í starfsþjálfun á vor- og haustmisseri.“
Ásta Dís bætir við að sú verði nú á að ætlunin sé að auglýsa starfsþjálfunarmöguleika fyrir næsta haust nú fyrir páska. Nemendur geti þá sótt um og þau sem verða valin verði þá komin með stöður fyrir haustmisserið. „Þetta er mjög skemmtilegur tími og það er gaman að virkja vel tengslanetið til þess að fá stjórnendur í samstarf með okkur. Það er svo mikill ávinningur fyrir bæði nemendur og stjórnendur að taka þátt í þessu, það hagnast allir á þessu og þá er ég sátt,“ segir Ásta Dís.