Viðbótarfjármagn í verkefnastyrki Rannsóknasjóðs
Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands hefur lokið við úthlutun verkefnastyrkja úr sjóðnum fyrir þetta ár og var rúmum 268 milljónum króna úthlutað. Rúmar 132 milljónir fóru til nýrra styrkja og tæpar 136 milljónir til framhaldsstyrkja.
Í ljósi vaxandi krafts í rannsóknum við Háskóla Íslands og metfjölda umsókna í verkefnastyrki úr Rannsóknasjóði skólans, veitti rektor viðbótarfjármagn í sjóðinn annað árið í röð. Það er m.a. gert til að viðhalda slagkrafti í úthlutunum úr sjóðnum.
Að þessu sinni bárust 180 nýjar umsóknir í sjóðinn og var unnt að styrkja 172 þeirra. Einnig voru veittir 160 styrkir vegna verkefna sem eru á öðru eða þriðja styrkári úr fyrri úthlutunum. Aldrei hafa sjóðnum borist fleiri umsóknir um verkefnastyrki þegar tekið er tillit til samanlagðs fjölda nýrra umsókna og framhaldsverkefna.
Viðbótarfjármagnið í sjóðinn nam samtals 15 milljónum króna fyrir árið 2019 og 22,5 milljónir króna fyrir árið 2020.
Stjórn Rannsóknasjóðs annast úthlutun úr sjóðnum á grundvelli tillagna fagráða. Forgangsröðun fagráða byggðist á vísindalegu gildi verkefna, ritvirkni umsækjenda, frágangi umsókna og því hversu líkleg verkefni þóttu til að leiða til birtingar á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur.
Vegna fjölda góðra umsókna og vaxandi umsóknarfjölda sem áður var getið, var aðeins í fáum tilvikum unnt að veita umbeðna styrkupphæð að fullu, þrátt fyrir aukna fjárhæðir sem settar hafa verið í sjóðinn.
Þetta var í þriðja sinn sem hægt var að sækja um styrk til allt að þriggja ára í senn.
47% umsókna var til 1 árs
19% umsókna til 2ja ára
30% umsókna til 3ja ára
4% umsókna var um lausn frá kennslu
Við óskum styrkþegum góðs gengis í rannsóknum sínum og vonumst til að styrkirnir komi að góðum notum.