Veglegir styrkir til brjóstakrabbameinsrannsókna frá Göngum saman til vísindamanna HÍ

Styrktarfélagið Göngum saman veitti fyrr í vikunni 15 milljónir króna í rannsóknastyrki til vísindamanna á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og komu þeir nær allir í hlut vísindamanna og nemenda HÍ. Göngum saman hefur veitt um 180 milljónir króna að nafnvirði til brjóstakrabbameinsrannsókna frá stofnun félagsins árið 2007.
Styrkþegar Vísindasjóðs Göngum saman 2025:
- Amal Fiaz, meistaranemi í iðnaðarlíftækni við Háskóla Íslands, hlaut 2.000.000 kr. styrk til verkefnisins „Rannsókn á estrógentengdum R-lykkjum og ífarandi eiginleikum í BRCA2-stökkbreyttu, estrógenviðtaka-jákvæðu brjóstakrabbameini“.
- Berglind Ósk Einarsdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands, hlaut 1.500.000 kr. styrk til verkefnisins „Greining á utanfrumuerfðaefni BRCA2-999del5 arfbera“.
- Erna María Jónsdóttir, doktorsnemi við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hlaut 1.500.000 kr. styrk til verkefnisins „Skilvirkni marksækinna nanólyfjaferja gegn þríneikvæðu brjóstakrabbameini in vivo“.
- Gunnhildur Ásta Traustadóttir, náttúrufræðingur á Landspítala og lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlaut 2.000.000 kr. styrk til verkefnisins „Sértæk virkjun ónæmiskerfisins gegn brjóstakrabbameini“.
- Jens G. Hjörleifsson, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut 2.000.000 kr. styrk til verkefnisins „Þróun á sértækum in vitro lyfjaprófum fyrir EGFR gegn brjóstakrabbameini“.
- Magnea Sól Sigmarsdóttir, meistaranemi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands, hlaut 2.250.000 kr. styrk til verkefnisins „Frá ómótuðum svæðum til krabbameins: Áhrif S250F stökkbreytingarinnar á virkni frumkvöðlaumritunarþáttarins FOXA1“.
- Valur Emilsson, yfirmaður kerfislíffræði hjá Hjartavernd og gestakennari við HÍ, hlaut 1.500.000 kr. styrk til verkefnisins „Innsýn í æxlismyndun brjóstakrabbameins með sermispróteinum“.
- Þórarinn Guðjónsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlaut 2.250.000 kr. styrk til verkefnisins „Hlutverk Azithromycin sem mögulegt lyf gegn brjóstakrabbameini“.
Um Göngum saman
Göngum saman var stofnað árið 2007 og hefur frá upphafi haft þann megintilgang að safna fé til rannsókna sem auka skilning á uppruna og eðli brjóstakrabbameins. Gunnhildur Óskarsdóttir, fyrrverandi prófessor á Menntavísindasviði HÍ, stofnaði félagið og leiddi með miklum drifkrafti frá stofnun þar til hún lést árið 2023.
Allt starf félagsins er unnið í sjálfboðavinnu og öll framlög renna óskipt í Vísindasjóð Göngum saman. Sjóðurinn styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini enda eru slíkar rannsóknir forsenda framfara í vísindum og þróunar nýrra meðferða. Árlega er auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum og eru rannsóknarverkefni metin samkvæmt faglegu gæðamati, þar sem vísindanefnd félagsins og ytri ráðgjafanefnd leggja mat á umsóknirnar.
Styrkveitingar félagsins byggja að að mestu leyti á félagsgjöldum og frjálsum framlögum einstaklinga sem leggja sitt af mörkum með þátttöku í fjölbreyttum fjáröflunum félagsins. Þar má nefna áheit á hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu, kaup á Brjóstasnúðum Brauð & co í tilefni Mæðradagsins, þátttöku í styrktargöngu Volcano Trails í Þórsmörk og kaup á ýmsum söluvarningi félagsins, nú síðast á bleikum klútum sem voru hannaðir í samvinnu við Herrafataverzlun Kormákar og Skjaldar. Auk þess hafa hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið með margvíslegum hætti.
