Varði doktorsritgerð um þyngd setningarliða í íslensku og færeysku
Ingunn Hreinberg Indriðadóttir hefur varið doktorsritgerð sína í íslenskri málfræði, Weight effects and variation in word order in Icelandic and Faroese, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
Andmælendur við vörnina voru Caroline Heycock, prófessor við Edinborgarháskóla og Heimir Freyr Viðarsson, aðjunkt í íslensku á Menntavísindasviði HÍ. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Höskuldar Þráinssonar, prófessors emeritus í íslenskri málfræði við HÍ en auk hans voru í doktorsnefnd þau Anton Karl Ingason, dósent við Íslensku- og menningardeild HÍ og Nicole Dehé, prófessor við háskólann í Konstanz í Þýskalandi.
Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu HÍ, þriðjudaginn 30. maí.
Um rannsóknina
Svokölluð þyngdaráhrif hafa lengi verið þekkt fyrirbæri í málvísindum en málfræðingar eru ekki á einu máli um það hvernig best sé að skilgreina þyngd setningarliða. Í ritgerðinni er sjónum beint að ólíkum skilgreiningum á þyngd og þær kannaðar í ýmsum setningagerðum í íslensku og færeysku með blönduðum rannsóknaraðferðum. Sýnt er fram á að þyngdaráhrif séu víðtækari en áður var talið og að ólíkir þyngdarþættir, þ.m.t. fjöldi orða í setningarliðum og flækjustig liðanna, hlutfallsleg þyngd liða og jafnvel hljóðkerfislegir þættir á borð við setningaráherslu, geta allir haft áhrif á orðaröð í ýmsum setningagerðum í íslensku og færeysku. Auk þess er sýnt fram á að þyngdaráhrif almennt séu mikilvægari fyrir málbeitingu en upplýsingaúrvinnslu viðtakanda á rituðu máli, en ekki hefur verið sýnt fram á þetta áður með svo ítarlegri rannsókn.
Um doktorinn
Ingunn Hreinberg Indriðadóttir lauk BA-prófi í almennum málvísindum og rússnesku frá Ríkisháskóla Sankti-Pétursborgar og MA-prófi í almennum málvísindum frá Háskóla Íslands. Hún starfar sem aðjunkt í rússnesku við Mála-og menningardeild Háskóla Íslands.