Varði doktorsritgerð um fornleifafræði einokunartímabilsins
Kevin Martin hefur varið doktorsritgerð sína í fornleifafræði, Uncovering the Archaeology of the Danish Trade Monopoly in Iceland (1602-1787). Merchant Ships and Trade Ports, frá Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Andmælendur við vörnina voru dr. Mark Gardiner, prófessor við Háskólann í Lincoln, og dr. Niklas Eriksson, dósent við Háskólann í Stokkhólmi.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Gavins Lucas, prófessors við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Natascha Mehler, prófessor við Háskólann í Tübingen, og dr. Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður.
Steinunn Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 15. mars síðastliðinn. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).
Um rannsóknina
Í ritgerð Kevins er fornleifafræði einokunartímabilsins (1602-1787) rannsökuð með athugun á tveimur þáttum efnislegra innviða verslunar, þ.e. rannsókn á kaupskipum og verslunarstöðum. Tvær tilviksrannsóknir -á flaki skipsins Melckmeyt og á leifum torfbyggingar á Arnarstapa- mynda grunn fyrir fornleifafræðilegar rannsóknir á verslun á þessu tímabili, sem brúar bilið milli hinna oft aðskildu sviða, neðansjávarfornleifafræði og yfirborðsfornleifafræði. Rannsóknin dregur fram mikilvæga og tengda þætti efnislegra innviða einokunarverslunarinnar. Með þá að vopni er hægt að varpa upp nærmyndum af versluninni og daglegu lífi áhafnanna jafnt um borð í kaupskipunum sem og á verslunarstöðunum.
Um doktorinn
Kevin Martin lauk BA-prófi í fornleifafræði og sagnfræði frá University College í Cork og M.Phil-prófi í miðaldafornleifafræði frá Háskólanum í Glasgow. Hann býr á Íslandi og starfar sem sjávarfornleifafræðingur.