Útrýmum fátækt með sjálfbæru efnahagslífi
„Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru afar mikilvæg þar sem sett er fram framkvæmdaráætlun þar sem ólík lönd samræma aðgerðir til að gera jörðina að betri stað fyrir okkur öll.“ Þetta segir Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, en hún mun fjalla um fátækt út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna ásamt Berglindi Rós Magnúsdóttur, dósent við Deild menntunar og margbreytileika. Þetta gera þær í erindum í nýrri röð Háskóla Íslands um heimsmarkmiðin. Viðburðurinn verður í Hátíðasal í hádeginu þann 19. Nóvember næstkomandi. Að auki munu Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi, kirkjunnar og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri flytja styttri erindi.
„Í áætlun Sameinuðu þjóðanna eru sett fram markmið sem eiga auðvitað misjafnlega við í samfélögum og við Íslendingar erum svo heppin að vera komin langt á veg með mörg þeirra. En það sem er mikilvægast er að þarna eru sett fram mælanleg markmið og þau beina sjónum okkar bæði að eigin samfélagi okkar og hvað má betur fara hér, en auka um leið vitund okkar um ábyrgð okkar allra á velferð fólks í öðrum löndum og þá auðvitað sérstaklega hvernig gæðum heimsins er misskipt,“ segir Sigrún.
Berglind Rós tekur í svipaðan streng. „Það er alveg ljóst að markmiðin horfa ólíkt við þjóðum heims. Sjónarhornið markast talsvert mikið af muninum milli hins vestræna heims og annarra heimshluta, þ.e. eins og umræða um aðgengi stúlkna að skólum, aðgengi fátækra að skólum, sem er markmið sem fyrir löngu hefur náðst hér á landi og víðast í hinum vestræna heimi. Það þýðir hins vegar ekki að mismunun sé ekki fyrir hendi og við verðum að vera vakandi fyrir henni og ólíkum birtingarmyndum hennar,“ segir Berglind.
Sigrún segir að í markmiðinu um enga fátækt séu sett fram fimm almenn undirmarkmið auk tveggja sem eiga einungis við í þróunarlöndunum. „Hér erum við aftur komin að mikilvægi þess að setja nákvæm markmið sem lönd geta einbeitt sér að því að ná og að sumu leyti má segja að þó að málefnið sé gífurlega stórt og mikilvægt, þá er hægt að ímynda sér veruleika sem samræmist því sem sett er fram. Það er til dæmis talað um að afnema sára fátækt og ef við hugsum um upphæðina sem stefnt er að, þá er hún ekkert sérlega há. Hér er miðað við að enginn einstaklingur hafi minna en 1,25 bandaríkjadali til að framfleyta sér á dag, en það er í kringum 150 íslenskar krónur,“ segir Sigrún.
„Ef við skoðum hins vegar markmið sem eiga betur við hér á Íslandi þá er eitt markmiðið að helmingi færri einstaklingar búi við fátækt eins og hún er skilgreind í hverju landi. Hér er oft miðað við að einstaklingur sé með ráðstöfunartekjur sem eru sextíu prósent af miðgildi ráðstöfunartekna í landinu. Eins og staðan er núna þá átti þetta við um níu prósent þjóðarinnar árið 2018, en það má nefna það að sambærileg tala var 10,3% árið 2017. Þannig að þar sjáum við lækkun um meira en eitt prósent á milli ára,“ segir Sigrún.
Á fundinum ætla þau fjögur að fjalla um baráttuna við fátækt bæði hér heima og erlendis út frá sinni menntun, rannsóknum og reynslu. Fyrsta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna snýst einmitt um að útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar eigi síðar en 2030.
Mun setja fátækt á Íslandi í alþjóðlegt samhengi
„Ég mun ræða heimsmarkmiðið um enga fátækt almennt og velta upp hvernig við hugsum um fátækt og hvernig það er mismunandi á milli samfélaga,“ segir félagsfræðingurinn Sigrún Ólafsdóttir. Í rannsóknum sínum hefur hún m.a. beint sjónum að heilsu, geðheilsu, ójöfnuði, stjórnmálum og menningu. Þar hefur hún skoðað sérstaklega hvernig stærri samfélagslegir þættir, svo sem velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið, hafa áhrif á líf einstaklinga, til dæmis heilsu þeirra og viðhorf varðandi heilsu og veikindi.
„Félagsfræðingar greina oft á milli algjörrar fátæktar og hlutfallslegrar fátæktar,“ segir Sigrún, „þar sem það fyrra vísar til að einstaklingur sé undir einhverjum ákveðnum fátæktarmörkum en hið síðara hvernig hann eða hún stendur í samanburði við aðra í samfélaginu eða jafningjahópnum. Ég mun síðan gefa yfirlit um fátækt á Íslandi og setja hana í alþjóðlegt samhengi, ásamt því að sýna niðurstöður úr alþjóðlegum könnunum um hvers konar samfélag Íslendingar vilja út frá jöfnuði og fátækt. Að lokum mun ég svo nota sjónarhorn félagsfræðinnar til að hjálpa okkur að skilja fátækt innan og milli samfélaga og skoða þá sérstaklega hvað við vitum varðandi orsakir fátæktar sem og afleiðingar hennar.“
Háskólinn og heimsmarkmiðin – Engin fátækt
Viðburðurinn þriðjudaginn 19. nóvember er hluti af nýrri röð Háskóla Íslands um helstu áskoranir sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Hann verður í Hátíðasal Háskóla Íslands og stendur frá kl. 12 til 13.30 og er opinn öllum. Streymt verður frá viðburðinum. Viðburðaröðin er haldin í samvinnu við Stjórnarráðið en eitt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verður tekið fyrir í hverri viðburðalotu þar sem framúrskarandi fræðimönnum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands verður teflt fram ásamt lykilfólki úr íslensku samfélagi til að kryfja og ræða þau knýjandi verkefni sem tengjast hverju markmiði.
Neyslumenningin ýtir undir upplifun á skorti
Berglind Rós beinir nú að mestu sjónum sínum að félagslegu réttlæti í menntun í rannsóknum sínum með áherslu á samverkandi áhrif stéttar, uppruna, kynferðis og sértækra menntunarþarfa á gæði og jafnrétti í uppeldi og menntun. Hún segir að fátækt sé að einhverju leyti afstæð, þ.e. hver og einn upplifi stöðu sína út frá nærumhverfinu. „Neyslumenningin ýtir undir að fólk upplifi skort, það er beinlínis hluti af sálfræði markaðarins að skapa slíkar tilfinningar með fólki. Segja má að lífsgildi elstu kynslóðarinnar hafi verið og sé nægjusemi. Nú er markmiðið að hver einstaklingur nái að fullnýta hæfileika sína og rétt sinn sér til framdráttar í samkeppnisþjóðfélagi og látið að því liggja að allir hafi jöfn tækfæri til þess. Þar liggur hið táknræna ofbeldi. Nægjusemi er því nú á tímum gjarnan skilgreind sem metnaðarleysi og skortur á árangri skilgreindur sem vandamál einstaklingsins.”
„Það kemur líka fram í rannsóknum á viðhorfum almennings á Íslandi að við höfum mjög litla þolinmæði gagnvart alls kyns ójöfnuði,“ segir Sigrún, “og flest viljum við beita ríkisvaldinu í að tryggja sem mestan jöfnuð. Þannig má benda á að árið 2009 taldi nær helmingjur þjóðarinnar að ójöfnuður sé nokkur eða mikill, en einungis um 10% vilja þannig samfélag. Hin 90% sameinast um að velja jafnari samfélagsgerð. Nýrri rannsóknir sýna svipuð minnstur, t.d. er nær algilt að Íslendingar séu á móti því að hinir ríku geti keypt sér betri heilbrigðisþjónustu eða betri menntun fyrir börnin sín, og erum við einna mest á móti því í alþjóðlegum samanburði. Og það kemur einnig skýrt fram að við sjáum ríkið sem tæki til þess að tryggja jafnan aðgang að lífskjörum og grunnþjónustu samfélagsins og til að leiðrétta þann ójöfnuð sem verður til á markaðinum. Hvernig þetta endurspeglast síðan í stefnumótun og því sem síðan gerist er annað mál, en vilji meirihluta þjóðarinnar virðist vera tiltölulega skýr.“
Alltaf verið stéttamunur á Íslandi
Berglind Rós segist ætla að fjalla um misskiptingu út frá samspili þess efnahagslega, félagslega, tilfinningalega og menningarlega í sínu erindi. „Ég mun m.a. fjalla um aukna aðgreiningu milli stétta í gegnum búsetuþróun og skólaval síðustu tuttugu árin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er algeng þróun alls staðar í kringum okkur og er ekki bara afleiðing af aukinni misskiptingu heldur tiltekinni hugmyndafræði sem kennd hefur verið við nýfrjálshyggju eða einstaklingsvæðingu,” segir Berglind.
„Við sjáum að efnahags- og menningarelítan safnast í tiltekin skólahverfi annars vegar og svo hins vegar fyrir bragðið safnast þau sem búa við kröpp kjör á önnur svæði. Félagslegt samhengi og þróun þess í sérhverju skólasamfélagi hefur gjarnan áhrif á árangursmeðaltal skólans og munur milli skóla á Íslandi hefur einmitt verið aukast. Þetta ástand veldur ákveðnum vítahring sem ýtir undir stéttisma og rasisma og enn frekari aðgreiningu.”
Berglind segir að í raun hafi alltaf verið stéttamunur á Íslandi en aðgreining í gegnum búsetu og skólaval sé hins vegar til marks um aukna tilhneigingu elítunnar til að skapa fjarlægð frá þeim sem búa við krefjandi félagslega og efnahagslegar aðstæður. „Samkeppnisforskotið eykst og menntakerfið verðure beinn og óbeinn þátttakandi í því. Ég mun taka dæmi úr rannsóknargögnum um þessar birtingarmyndir og hvernig þetta ýtir undir minni félagslegan hreyfanleika, hættu á auknum fordómum milli hópa og neikvæðri lýðræðisþróun.”
Það þarf að skapa sjálfbært efnahagslíf
Berglind segir að víða sé litið svo á að mikil misskipting sé nánast einhvers konar náttúrulögmál og til að bæta þann skaða þurfi einfaldlega að virkja betur starfskraftana í velferðar- og menntakerfum. „Ég mun gagnrýna þetta sjónarmið án þess þó að gera lítið úr mikilvægi velferðarkerfanna,“ segir Berglind. Sigrún bætir við mikilvægi þess að skoða hvað það er sem kerfin gera og þá sérstaklega hvort við getum haldið því fram að við höfum öll jöfn tækifæri í lífinu. „Hafa til að mynda allir tækifæri til menntunar og til að leita sér sambærilegrar læknisþjónustu? Í samfélögum þar sem aðgangur að grunnstoðum samfélagsins er tryggður skapast almennt mestur jöfnuður, eins og við sjáum á Norðurlöndunum, en auðvitað erum við langt frá því að geta sagt að einstaklingar í þessum samfélögum hafi jöfn tækifæri í raun og veru. Þar komum við inn á mikilvægi þess að skoða efnahagslífið sérstaklega og hvernig leikreglurnar eru þar og í raun má segja að einhvers konar endurskipulagning eða uppstokkun á því kerfi sé eina leiðin ef að við raunverulega viljum útrýma fátækt og tryggja réttlátt samfélag fyrir alla.“
Að lokum minnist Sigrún á þó að mikilvægt sé að skoða hvernig íslenska hagkerfið og velferðarkerfið misskiptir tækifærum okkar og eigum, séum við einnig hluti af stærra alþjóðlegu kerfi og þar komum við auðvitað tiltölulega vel út. „Því þurfum við að spyrja okkur sem þjóð, hver sé ábyrgð okkar á velferð einstaklinga í öðrum löndum og þá sérstaklega þeim þar sem að lífskjör eru mun verri en hér á landi. Getum við sem búum í hinum ríkari löndum réttlætt okkar lífsmáta á 21. öldinni, þegar hundruðir milljóna búa við sára fátækt?“