Úrval þýddra kvæða og sagna eftir Poe
Út er komið í íslenskri þýðingu úrval kvæða og sagna eftir Edgar Allan Poe í ritstjórn Ástráðs Eysteinssonar, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, rithöfundar og útgefanda. Ástráður ritar inngang um höfundarverk Poe og þýðingarnar.
Í bókinni er að finna gamlar og nýjar þýðingar á veigamestu verkum þessa brautryðjanda í vestrænum nútímabókmenntum. Í hópi nýrra þýðenda eru Ástráður Eysteinsson, Jón Karl Helgason og Rúnar Helgi Vignisson, prófessorar við Íslensku- og menningardeild HÍ. Aðrir nýir þýðendur kvæða og sagna eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Elísa Björg Þorsteinsdóttir og Sjón en meðal eldri þýðinga í bókinni eru Svarti kötturinn og Hjartslátturinn í þýðingu Þórbergs Þórðarsonar, Hrafninn í rómuðum þýðingum Einars Benediktssonar og Þorsteins frá Hamri, Í röstinni í þýðingu Málfríðar Einarsdóttur og Draumaland í þýðingu Helga Hálfdanarsonar.
Þetta er í annað sinn sem þeir Ástráður og Aðalsteinn standa saman að merkisútgáfu, því árið 2021 gáfu þeir út glæsilegt Ljóðasafn Einars Braga í tveimur bindum.