Uppskeruhátíð vísinda á Landspítala
Árleg uppskeruhátíð vísinda á Landspítala „Vísindi á vordögum“ fór fram þann 28. apríl. Vísindafólk við Landspítala og Háskóla Íslands var verðlaunað á hátíðinni fyrir framúrskarandi árangur í vísindum.
Heiðursvísindamaður Landspítala 2021
Gunnar Guðmundsson, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í lungnalækningum við lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala, var valinn heiðursvísindamaður Landspítala árið 2021. Helsta áhugasvið Gunnars í vísindarannsóknum snýr að lungnasjúkdómum. Gunnar hefur unnið mjög náið með Hjartavernd að rannsóknum á millivefslungnabreytingum sem geta verið forstig lungnatrefjunar og hafa niðurstöður rannsókna þeirra vakið mikla athygli, birst í mjög virtum tímaritum og aukið skilning á tilurð og framþróun lungnatrefjunar. Einnig hefur Gunnar unnið að klínískum rannsóknum á langvinnri lungnateppu. Sjá nánar á heimsíðu Landspítala.
Ungur vísindamaður Landspítala 2021
Elías Sæbjörn Eyþórsson, sérnámslæknir í svæfingar- og gjörgæslulækningum á Landspítala, var valinn ungur vísindamaður Landspítala fyrir árið 2021. Elías lauk doktorsprófi frá Læknadeild árið 2019. Leiðbeinandi hans var Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalæknisfræði við Læknadeild. Doktorsverkefnið fjallaði um lýðgrunduð áhrif ungbarnabólusetningar gegn bakteríunni Streptococcus pneumoniae. Elías vinnur að rannsóknum á Covid-19 undir handleiðslu Runólfs Pálssonar og Martins Inga Sigurðarssonar, prófessora við Læknadeild, og var fyrsti höfundur að grein um einkennamynstur Covid-19 sem birtist í British Medical Journal í desember 2020. Sjá nánar á heimasíðu Landspítala.
Verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum
Hans Tómas Björnsson, prófessor í færsluvísindum og barnalæknisfræði við Læknadeild HÍ og yfirlæknir í klínískri erfðafræði við Landspítala, hlaut 6 milljóna króna verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum. Rannsóknir Hans Tómasar snúa að því að skilja hlutverk utangenaerfða í sjaldgæfum sjúkdómum. Meðal annars hefur hann rannsakað ný músamódel sem bera stökkbreytingar í genum sem framleiða þætti sem viðhalda utangenaerfðum. Sjá nánar á heimasíðu Landspítala.
Verðlaunaágrip
Þau Arsalan Amirfallah, Auður Anna Aradóttir Pind og Telma Huld Ragnarsdóttir, doktorsnemar við Læknadeild HÍ, hlutu verðlaun fyrir bestu veggspjöld á ráðstefnunni.
Auður Anna Aradóttir Pind: Tjáning á APRIL, lifunarboði plasmafrumna, er takmörkuð í beinmerg nýburamúsa
Auður Anna Aradóttir Pind, doktorsnemi í ónæmisfræði við Læknadeild Hí, er hluti af rannsóknarhópi Ingileifar Jónsdóttur, prófessors og Stefaníu P. Bjarnarson, dósents, við sömu deild. Rannsóknir hópsins beinast einna helst að ónæmiskerfi nýbura og þróun á leiðum til að efla ónæmissvör þessa viðkvæma hóps við bólusetningum, meðal annars með notkun ónæmisglæða.
Arsalan Amirfallah: Hsa-miR-21-3p er áhrifagen í brjóstakrabbameini
Arsalans Amirfallah, doktorsnemi við Læknadeild HÍ, vinnur rannsóknarverkefni sitt við frumulíffræðieiningu meinafræðideildar Landspítala, undir leiðsögn Ingu Reynisdóttur. Verðlaunaverkefni Arsalans lýsir microRNA, sem kallast miR-21-3p, og tengingu þess við batahorfur brjóstakrabbameinssjúklinga og áhrifum á boðleiðir sem stjórna framvindu krabbameins. Doktorsverkefni Arsalans snýr að skilgreiningu nýrra áhrifagena brjóstakrabbameins.
Telma Huld Ragnarsdóttir: Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku: framsýn, tilfellamiðuð rannsókn
Telma Huld Ragnarsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild HÍ og sérnámslæknir í almennum lyflækningum á Landspítala, vinnur rannsóknarverkefni sitt undir handleiðslu Ólafs Skúla Indriðasonar, sérfræðilæknir í nýrnalækningum, Runólfs Pálssonar, sérfræðilæknis í nýrnalækningum, forstöðumanns Lyflækninga- og bráðaþjónustu og prófessors við Læknadeild HÍ og Vicente Sanchez-Brunete Ingelmo sérfræðilæknis í bráðalækningum. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á helstu orsakir og áhættuþætti fyrir bráðum nýrnaskaða á bráðamóttöku.
Sjá nánar um verðlaunaágripin á heimsíðu Landspítala.
Vorstyrkir úr Vísindasjóði Landspítala
Fjöldi vísindamanna við Landspítala og Háskóla Íslands hlutu styrki úr Vísindasjóði Landspítala. 74 rannsóknaverkefni hlutu styrk úr sjóðnum, þar af 46 ný verkefni. Heildarupphæð styrkja nam um 83 milljónum króna og nemur meðalstyrkur rúmlega 1 milljón króna. Sjá nánar á heimasíðu Landspítala.