Upplifa kynin vinnustaðinn á ólíkan hátt?
Háskóli Íslands, Empower, Viðskiptaráð og Gallup vinna saman að verkefninu „Kynin og vinnustaðurinn“. Árlega verður gerð könnun á stöðu, upplifun og líðan starfsfólks í fyrirtækjum á Íslandi þar sem sérstaklega er horft til þess hvort greina megi mun eftir kyni. Fulltrúi Háskóla Íslands í verkefninu er Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild.
Lagðar verða spurningar fyrir starfsfólk í um 200 fyrirtækjum sem eiga aðild að Viðskiptaráði. Einnig verður staða kynjanna í stjórnunarlögum fyrirtækjanna tekin saman til þess að miðla því hvort og þá hvernig halli á eftir kynjum.
Með niðurstöðum könnunarinnar verður hægt að fá vísbendingu um það hvort kyn skipti máli í menningu og þá með hvaða hætti ójafnrétti kynja birtist. Með betri upplýsingum og vel skilgreindum viðmiðum eru meiri líkur á því að stjórnendur geti metið hvort ástæða sé til að grípa til aðgerða til að bæta stöðu kynjanna innan síns fyrirtækis. Niðurstöðurnar ættu því að nýtast öllu atvinnulífinu og samstarfsaðilar vonast til þess að verkefnið verði hreyfiafl til jákvæðrar þróunar í jafnréttismálum. Niðurstöðurnar verða kynntar á opnum fundi í maí og með kynningarátaki en verða aðgengilegar öllum eftir fundinn.