Skip to main content
2. maí 2022

Unnur Þorsteinsdóttir ráðin forseti Heilbrigðisvísindasviðs 

Unnur Þorsteinsdóttir ráðin forseti Heilbrigðisvísindasviðs  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, hefur verið ráðin nýr forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands frá 1. júlí nk. Tekur hún við starfinu af Ingu Þórsdóttur prófessor sem gegnt hefur því sl. 10 ár. 

Unnur lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1984 og diplómanámi í kennslufræði fyrir kennara í framhaldsskóla árið 1987. Hún lauk doktorsprófi í erfðafræði frá University of British Columbia árið 1997. Á árunum 1997-2000 var hún nýdoktor við Institut de Recherches Cliniques de Montreal í Kanada. Hún hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2000. Hún var verkefnastjóri í deild krabbameinsrannsókna 2000-2003, forstöðumaður erfðarannsókna 2003-2010, hafði yfirumsjón með styrkjaöflun fyrirtækisins um árabil og hefur aflað fjölda rannsóknastyrkja. Unnur hefur verið framkvæmdastjóri rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar frá 2010 og hefur m.a. leitt erfðarannsóknadeild fyrirtækisins og borið víðtæka ábyrgð á fjárhags- og starfsáætlunum. 

Samhliða starfi sínu hjá Íslenskri erfðagreiningu hefur Unnur gegnt stöðu rannsóknarprófessors við Læknadeild Háskóla Íslands frá árinu 2007. Hún hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum og nefndum, þ. á m. fagráði Rannsóknarsjóðs í heilbrigðis- og lífvísindum 2002-2006, Vísinda- og tækniráði Íslands 2009-2012, stjórn Rannsóknarsjóðs RANNÍS á árunum 2004-2008 og 2012-2016 og var formaður stjórnar Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar 2013. Hún hefur setið í doktorsnefndum, verið andmælandi við doktorsvarnir og leiðbeint doktorsnemum. Unnur er einhver mikilvirkasti vísindamaður landsins og stendur að yfir 350 ritrýndum vísindagreinum. Þá hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og rannsóknir og fékk m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag á vettvangi erfðarannsókna og vísinda árið 2017.

„Mikilvægi HÍ sem lykilmenntastofnunar verður ekki ofmetið enda hefur stærstur hluti íslenskra vísindamanna hlotið þar menntun sína. Það er mér mikið hjartans mál að við sem þjóðfélag berum gæfu til að viðhalda og efla þann árangur á sviði heilbrigðisvísinda sem íslenskt samfélag hefur náð. Ég er því mjög þakklát fyrir að fá tækifæri til að nýta krafta mína, þekkingu og reynslu til áframhaldandi uppbyggingar Heilbrigðisvísindasviðs og hlakka til að vinna með því öfluga fólki sem þar er fyrir“ segir Unnur.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, býður Unni velkomna til starfa en forseti Heilbrigðisvísindasviðs stýrir sviðinu í umboði rektors. „Unnur Þorsteinsdóttir hefur metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir Heilbrigðisvísindasvið, mikla reynslu af vísindastörfum og víðtæka stjórnunarreynslu. Það er mikill fengur að því að fá Unni í hóp lykilstjórnenda Háskóla Íslands á þeim tímamótum sem fram undan eru í starfi Heilbrigðisvísindasviðs með byggingu nýs heilbrigðisvísindahúss á lóð Landspítalans og mikilli grósku í kennslu og rannsóknum á sviðinu. Ég óska Unni velfarnaðar við að stýra þessu mikilvæga fræðasviði og hlakka til samstarfs við hana,“ segir Jón Atli.

Heilbrigðisvísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskóla Íslands. Innan þess eru sex deildir, Hjúkrunarfræðideild, Lyfjafræðideild, Læknadeild, Matvæla- og næringarfræðideild, Sálfræðideild og Tannlæknadeild.
 
 

Unnur Þorsteinsdóttir