Skip to main content
23. maí 2019

Tuttugu og þrjú brautskráð frá Jafnréttisskóla Háskóla SÞ

Brautskráningarkandídatar og gestir

Tuttugu og þrír nemendur brautskráðust með diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna við Háskóla Íslands þriðjudaginn 21. maí. 

Þetta var tólfti útskriftarárgangur skólans frá upphafi en hann tók til starfa árið 2009. Samanlagt hafa nú 132 nemendur frá 22 löndum lokið námi frá skólanum.

Í útskriftarhópnum í ár voru fulltrúar frá þrettán löndum: Afganistan, Bosníu og Hersegóvínu, Eþíópíu, Gana, Kenía, Malaví, Mósambík, Nígeríu, Palestínu, Serbíu, Úganda og í fyrsta sinn frá Kosovo og Indlandi. 

Markmið Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna er að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.

Brautskráningarathöfnin fór fram í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, að viðstöddum Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands sem jafnframt er verndari skólans, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Sturlu Sigurjónssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Irmu Erlingsdóttur, forstöðumanni Jafnréttisskólans, og fjölda gesta. 

Í ræðu sinni á athöfninni benti Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, á að útskriftarnemarnir gæfu von um bætta framtíð fyrir komandi kynslóðir og trú á að frekari breytingar gætu og myndu verða í heiminum í jafnréttismálum. Hassan Waddimba frá Úganda flutti erindi fyrir hönd brautskráningarkandídata en í erindi sínu benti hann á að þrátt fyrir að ólík þjóðerni, trú, kyn, kynhneigð og félagslegan bakgrunn væru áskoranir kandídatanna þær sömu. „Breytingarnar byrja hjá okkur sjálfum og svo í umhverfinu í kringum okkur,“ bætti hann við.  
 

Najlaa Attaallah frá Gasa í Palestínu hlaut verðlaun framúrskarandi lokaverkefni við brautskráningu fyrir verkefnaáætlun um árangursríka kynjasamþættingu við hönnun og byggingu skóla hjá Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna í Gasa (UNRWA). Najlaa Attaallah tók við verðlaununum úr hendi Vigdísar Finnbogasóttur en verðlaunin eru einmitt kennd við hana. MYND/Kristinn Ingvarsson

Líkt og undanfarin ár voru veitt verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni á brautskráningunni. Aldrei áður hafa jafn mörg verkefni komið til greina, eða sex sem hlutu ágætiseinkunn. Ákveðið var á endanum að veita að Najlaa Attaallah frá Gasa í Palestínu verðlaunin fyrir verkefnaáætlun um árangursríka kynjasamþættingu við hönnun og byggingu skóla hjá Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna í Gasa (UNRWA). Verkefnið var unnið undir leiðsögn Magneu Marinósdóttur, sérfræðings í kynjafræði og alþjóðastjórnmálum. Najlaa Attaallah tók við verðlaununum úr hendi Vigdísar Finnbogasóttur en verðlaunin eru einmitt kennd við hana.

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands en starfsemi hans og áherslur eru þverfaglegar. Kennarar við skólann eru sérfræðingar af mörgum fræðasviðum, bæði innlendir og erlendir. Á Íslandi starfa fjórir skólar undir hatti Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Jarðhitaskóli, Sjávarútvegsskóli, Landgræðsluskóli og Jafnréttisskóli og eru skólarnir fjórir hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Háskóli Íslands óskar öllum brautskráningarkandídötunum frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna til hamingju með áfangann og velgengni í verkefnum framtíðarinnar. 

""