Tuttugu lið grunnskólanema taka þátt í hönnunar- og tæknikeppni FIRST LEGO League
Nærri 200 grunnskólanemar á aldrinum 10-16 ára alls staðar af landinu taka þátt í hinni árlegu og alþjóðlegu tækni- og hönnunarkeppni First LEGO League, sem fer fram í Háskólabíói laugardaginn 16. nóvember. Keppnin verður opin almenningi eftir hádegi og opið verður í Vísindasmiðju Háskóla Íslands í bíóinu. Á næsta ári mun First LEGO League fagna 20 ára afmæli á Íslandi og því er um að ræða langa og verðmæta hefð sem hefur vakið áhuga þúsunda grunnskólanema á vísindum og nýsköpun.
Háskóli Íslands heldur utan um keppnina en markmið hennar er að efla áhuga ungs fólks á vísindum og tækni og styrkja færni þeirra í lausnamiðaðri og skapandi hugsun. Keppnin reynir á nýsköpunarhugsun, samskiptahæfni og samstarf liða og hefur jafnframt það hlutverk að efla sjálfstraust þátttakenda. Keppnin er haldin með stuðningi Verkfræðingafélags Íslands sem á stóran þátt í að gera þessa upplifun að veruleika fyrir ungu keppendurna.
Keppnin skiptist í nokkra hluta þar sem lið glíma við margvísleg verkefni, m.a. að forrita LEGO-vélmenni til að leysa þrautir á keppnisbraut. Einnig vinna liðin að nýsköpunarverkefni sem tengist þema keppninnar, sem í ár er Neðansjávar (e. SUBMERGED). Þemað tengist 14. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna sem snýr að lífi í vatni. Markmið þessa heimsmarkmiðs er að vernda og nýta hafið á sjálfbæran hátt, draga úr mengun og tryggja heilbrigði hafsins fyrir framtíðina. Þemað hvetur keppendur til að kanna hafsbotninn og uppgötva nýjar leiðir til að stuðla að sjálfbærni og heilsu hafsins með LEGO-tækni og nýsköpun. Liðin þurfa einnig að kynna hvernig þau hafa hannað og forritað vélmennið og loks er lögð áhersla á liðsheild og samstarf innan hvers hóps. Þá verða jafningjaverðlaun veitt í fyrsta sinn í keppninni í ár. Viðurkenninguna hlýtur það lið sem að mati annarra liða þykir hafa sýnt hvað mesta vinnusemi og liðsanda, farið eftir FIRST-grunngildunum í einu og öllu og sýnt háttvísi og fagmennsku í keppninni.
Í ár keppa tuttugu lið grunnskólanema í Háskólabíói, þar á meðal eru nokkrir nýliðar sem auka fjölbreytni og spennu í keppninni. Sigurvegurum keppninnar býðst að taka þátt í norrænni FIRST LEGO League keppni síðar í vetur, annaðhvort í Noregi, þar sem norsk og sænsk lið keppa, eða í Danmörku, þar sem dönsk og færeysk lið etja kappi. Vinningsliðið í fyrra fór alla leið á heimsmeistaramótið í Houston og það er aldrei að vita nema sigurliðið í ár feti í fótspor þess.
Keppnin hefst kl. 10.00 á laugardeginum og verður í beinu streymi á vefsíðu keppninnar firstlego.is. Almenningur er hvattur til að mæta frá klukkan 13 og upplifa stemninguna, kynna sér nýsköpunarverkefni liðanna á básum í anddyri Háskólabíós og taka þátt í fjölbreyttum vísindatilraunum og leikjum í sívinsælu Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Þetta er einstakt tækifæri til að fylgjast með framtíðarfólki vísinda og tækni á Íslandi og hvetja unga þátttakendur áfram í sínum sköpunar- og uppgötvunarleiðangri.