Tuttugu brautskráð frá Alþjóðlegum jafnréttisskóla GRÓ-GEST
Alþjóðlegur jafnréttisskóli GRÓ (GRÓ-GEST) við Hugvísindasvið Háskóla Íslands brautskráði 20 nemendur með diplómu á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum við hátíðlega athöfn í Veröld – húsi Vigdísar á föstudag. Viðstödd var m.a. nýr utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Markmið jafnréttisskólans að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.
Nemendahópur þessa árs átti upphaflega að koma til landsins í byrjun árs en vegna kórónuveirufaraldursins var ákveðið að fresta kennslu fram á haustmisseri. Nemendur hafa í haust fengist við fjölbreytt þverfræðileg verkefni og námsleiðir sem snerta m.a. jafnréttisfræði og þróunarsamvinnu, kynbundið ofbeldi og öryggi, stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samspil jafnréttisfræða, umhverfismála og loftslagsbreytinga. Öll unnu þau svo lokaverkefni í náminu.
Í nemendahópnum í ár var fólk frá 15 löndum: Kína, Egyptalandi, Kenía, Indlandi, Írak, Malaví, Mexíkó, Mongólíu, Namibíu, Nepal, Nígeríu, Palestínu, Rússlandi, Srí Lanka og Úganda. Þau starfa öll sem sérfræðingar ýmist við stjórnsýslu, vísindi og rannsóknir, hjá félagasamtökum eða innan heilbrigðisgeirans í heimalöndum sínum.
Þetta var í 13. sinn sem nemendur eru brautskráðir er frá jafnréttisskólanum en önnur brautskráningin eftir að skólinn varð hluti af GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, undir merkjum UNESCO. Undir GRÓ heyra líka Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn. Frá upphafi hafa samtals 172 nemendur frá 31 landi brautskráðst með diplómu á meistarastigi í alþjólegum jafnréttisfræðum frá skólanum.
Á brautskráningunni voru veitt tvenn verðlaun fyrir bestu lokaverkefnin en þau eru kennd við Vigdísi Finnbogadóttur. Þau komu annars vegar í hlut Pamelu Chavarría Machado frá Mexíkó og hins vegar Dariu Burnasheva frá Rússlandi. Þær eru hér ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands., MYND/Kristinn Ingvarsson
Tvenn verðlaun fyrir lokaverkefni
Sem fyrr segir fór brautskráningarathöfnin fram í Veröld – húsi Vigdísar en auk nemenda og kennara við jafnréttisskólann sóttu þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, og Jón Karl Ólafsson, formaður stjórnar GRÓ, athöfnina.
Ávörp fluttu bæði ráðherra, rektor og Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskólans, auk Namutebi Bernah Namatovu frá Úganda en hún ávarpaði samkomuna fyrir hönd útskriftarnema. Þá flutti hljómsveitin Eva tónlist á athöfninni.
Á brautskráningunni voru veitt tvenn verðlaun fyrir bestu lokaverkefnin en þau eru kennd við Vigdísi Finnbogadóttur. Þau komu annars vegar í hlut Pamelu Chavarría Machado frá Mexíkó, sem fjallaði um viðbrögð samfélagsins í Mexíkóborg við ofbeldi í nánum samböndum, og hins vegar Dariu Burnasheva frá Rússlandi sem fjallaði um loftslagsbreytingar út frá jafnréttismálum og málefnum frumbyggja í Jakútíu í N-Rússlandi.
Nánar um brautskráninguna á vef GRÓ-GEST
Háskóli Íslands óskar nýútskrifuðum nemendum Alþjóðlega jafnréttisskólans innilega til hamingju með áfangann og alls hins besta í þeim verkefnum sem nú taka við.