Skip to main content
10. desember 2025

Tuttugu ár frá stofnun alþjóðlegs meistaranáms í miðaldafræðum við HÍ

Tuttugu ár frá stofnun alþjóðlegs meistaranáms í miðaldafræðum við HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Um þessar mundir eru liðin tuttugu ár síðan alþjóðlegu meistaranámi í íslenskum miðaldafræðum — Medieval Icelandic Studies — var hleypt af stokkunum í Háskóla Íslands í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar. Þetta alþjóðlega nám hefur laðað að sér öfluga nemendur hvaðanæva úr heiminum og þannig borið ríkulegan ávöxt. Fyrstu nemendurnir hófu nám haustið 2005 á 90 eininga (þriggja missera) meistaranámsleiðinni Medieval Icelandic Studies. Haustið 2012 bættist við önnur námsleið, Viking and Medieval Norse Studies, en sú er 120 eininga (fjögurra missera) og starfrækt í samstarfi við Árósaháskóla, Kaupmannahafnarháskóla og Óslóarháskóla, auk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Stofnað var til Viking and Medieval Norse Studies námsleiðarinnar með Nordic Master Programme styrk frá norrænu ráðherranefndinni sem veittur var 2010.

Í þessu alþjóðlega meistaranámi, sem er í eðli sínu þverfræðilegt, er fjallað um miðaldir á Íslandi og Norðurlöndum og tímabil víkingaferða frá sjónarhóli máls og málsögu, bókmennta, sagnfræði, fornleifa, handrita- og textafræði, trúarbragðafræði og þjóðfræði. Markmiðið er að gefa háskólanemum hvaðanæva úr heiminum kost á að kynnast viðfangsefnum og rannsóknum í íslenskum og norrænum miðalda- og víkingaaldarfræðum, meðal annars með því að lesa og greina Eddukvæði, Íslendingasögur og aðrar íslenskar og norrænar miðaldabókmenntir og veita þeim þjálfun til að lesa þessa texta á frummálinu. Enn fremur er lögð áhersla á að kynna íslensk miðaldahandrit og þjálfa nemendur í að lesa þau og vinna með frumheimildir.

Umsóknir um nám hafa hin síðari ár verið í kringum 70 á ári að jafnaði og um 25 nemendur hefja nám á hausti hverju. Alls hafa nú brautskráðst af þessum tveimur meistaranámsleiðum 339 nemendur frá 41 landi, Andorra, Argentínu, Ástralíu, Austurríki, Bandaríkjunum, Belgíu, Brasilíu, Bretlandi, Búlgaríu, Chile, Danmörku, Finnlandi, Frakklandi, Hollandi, Indlandi, Írlandi, Ísrael, Ítalíu, Japan, Kanada, Kína, Kólumbíu, Líbanon, Litháen, Lúxemborg, Mexíkó, Noregi, Póllandi, Portúgal, Púertó Ríkó, Rúmeníu, Rússlandi, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni, Suður-Kóreu, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjalandi og Þýskalandi. Stærstu hóparnir eru frá Bandaríkjunum (41,3%), Kanada (10%), Bretlandi (9,7%), Þýskalandi (5,3), Ítalíu (4,4%) og Frakklandi (3,8%).

Haraldur Bernharðsson, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild HÍ og annar af forstöðumönnum námsins, í ferð með miðalafræðinemendum.

Haraldur Bernharðsson, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild HÍ og annar af forstöðumönnum námsins, segir að nemendur á þessum alþjóðlegu meistaranámsleiðum haldi margir áfram að fást við íslensk og norræn miðaldafræði í námi sínu og störfum eftir brautskráningu frá Háskóla Íslands. „Af 339 brautskráðum nemendum hafa alls 108 (31,9%) farið áfram í doktorsnám og af þeim hefur 51 þegar lokið doktorsprófi. Fimm hafa lokið doktorsprófi í íslenskum bókmenntum eða íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands, en 46 hafa lokið doktorsprófi annars staðar, flestir við háskóla í Bandaríkjunum (17) og Bretlandi (12), en einnig í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Rússlandi, Ungverjalandi, Þýskalandi, Argentínu og Kanada, í ólíkum en þó skyldum greinum, svo sem miðaldafræðum, samanburðarbókmenntum, enskum bókmenntum, frönskum bókmenntum, norrænum fræðum, sagnfræði, fornleifafræði og málvísindum. Margir þeirra hafa hlotið nýdoktorastyrki til frekari rannsókna og um 20 af brautskráðum nemendum af þessum námsleiðum gegna nú föstum störfum við háskóla eða á söfnum víða um heim,“ segir Haraldur. Íslensk og norræn miðaldafræði eru alþjóðlegt rannsóknasvið og fræðimenn víða um heim sækja þaðan rannsóknarviðfangsefni og tengja við efnivið úr miðaldamenningu annarra þjóða. Brautskráðir nemendur úr alþjóðlegu meistaranámi í íslenskum og norrænum miðaldafræðum við Háskóla Íslands verða að sögn Haraldar virkir þátttakendur í þessu alþjóðlega fræðasamfélagi og halda áfram í störfum sínum við erlenda háskóla um veröld víða að rannsaka og kynna íslenskan miðaldaarf á borð við Eddukvæði og Íslendingasögur.

Í upphafi veittu forstöðu náminu þau Guðrún Nordal, prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum og nú forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræði, en nú stýra því Torfi H. Tulinius og Haraldur Bernharðsson, prófessorar í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.

Sérstök afmælishátíð meistaranámsins verður haldin í fyrirlestrasal Eddu — húsi íslenskunnar, föstudaginn 12. desember kl. 13:00-14:30