Skip to main content
6. maí 2025

Trúariðkun tekur breytingum í kirkjum landsins 

Haraldur Hreinsson

Trúariðkun þjóðarinnar hefur tekið umtalsverðum breytingum á liðnum árum. Þar má nefna ástundun jóga í kirkjum landsins og íhugun og bænalíf af ýmsu tagi sem nú er stundað innan Þjóðkirkjunnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Haraldar Hreinssonar, lektors við Guðfræði- og trúarbragðadeild á Hugvísindasviði og deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði, Háskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja umfangsmiklar breytingar sem hafa átt sér stað innan kirkjunnar á undanförnum áratugum. Tveir meistaranemar hafa lagt rannsókninni lið. 

„Á síðustu þremur áratugum hefur fjölbreytni aukist mikið í trúarlegu landslagi á Íslandi og hefur það tekið á sig ýmsar myndir,“ segir Haraldur en rannsóknin nær yfir tímabilið 1998 til 2023. 

Á tímabilinu sem rannsóknin tekur til hefur hlutfall landsmanna í Þjóðkirkjunni lækkað úr 90 prósentum í 58 prósent. Það segir Haraldur endurspegla grundvallarbreytingar á trúarlífi þjóðarinnar. 

Tilkoma nýrra forma trúariðkunar innan kirkjunnar er athyglisverð þróun að mati Haraldar. „Við sjáum til dæmis ákveðna trúariðkun sem er sótt aftur til miðalda, ákveðnar íhugunarhefðir og tegundir af bænalífi. Það er áhugavert að skoða hvernig austrænar hefðir hafa ratað inn í kirkjurnar. Þar höfum við einkum hug á að skoða útbreiðslu jóga og hvernig fólk sem býður upp á slíka iðkun útskýrir það guðfræðilega,“ segir Haraldur. 

Rannsóknin er á sviði samtímasögu og er fyrst og fremst kortlagning á breytingum á trúarlífi og er hugsuð sem grunnur að frekari rannsóknum. Haraldur beitir kortlagningaraðferð þar sem markmiðið er að draga upp heildarmynd af breytingum á trúariðkun innan þjóðkirkjunnar. 
„Við köfum ekki ýkja djúpt ofan í þessa þætti, að minnsta kosti ekki til að byrja með. Markmiðið er að fá upp mynd af landslaginu,“ segir Haraldur. 

Hann segir breytingar hérlendis hluta af alþjóðlegri þróun sem hefur orðið vart í Norður- og Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. „Þetta tengist aukinni hnattvæðingu, meiri hreyfingu á fólki og auknum tengslum við önnur trúarbrögð og lífsskoðanir. Fólki líður eins og það þurfi ekki endilega að fylgja einhverju ákveðnu trúarlegu boðvaldi. Fólk upplifir meira frelsi til að tengja við það sem því finnst heillandi,“ segir hann.

Rannsóknin er mikilvægt framlag til þekkingar á breytingum í íslensku samfélagi enda er um vanrannsakað svið að ræða. „Með aukinni vitneskju um breyttar áherslur í trúariðkun þá getum við öðlast betri skilning á okkar eigin samfélagi,” segir Haraldur Hreinsson. 

Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á ráðstefnu á vegum Háskólans í Karlstad í Svíþjóð í desember.

Höfundur greinar: Ásdís Inga Bjarnadóttir, nemi í blaðamennsku.

Haraldur Hreinsson

Trúariðkun þjóðarinnar hefur tekið umtalsverðum breytingum á liðnum árum. Þar má nefna ástundun jóga í kirkjum landsins, íhugun og bænalíf af ýmsu tagi sem nú er stundað innan Þjóðkirkjunnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Haraldar Hreinssonar, lektors við Guðfræði- og trúarbragðadeild á Hugvísindasviði og deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.