Skip to main content
11. júní 2021

Traustið skilar sér í mikilli aðsókn að Háskólanum

Traustið skilar sér í mikilli aðsókn að Háskólanum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (11. júní):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Háskóli Íslands fagnar í næstu viku 110 ára afmæli sínu og verður sérstakur viðburður helgaður tímamótunum á afmælisdaginn, þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 9.00. Streymt verður frá þessum viðburði en frekari hátíðarhöld bíða til haustsins. Háskólinn hefur frá upphafi haft það að markmiði að bæta kjör þjóðarinnar enda hefur það sýnt sig í meira en heila öld að þekkingin er mikilvægasta veganestið inn í framtíðina. Við munum halda áfram að leita nýrrar þekkingar í þágu þjóðarinnar og fagna í sameiningu þessum merku tímamótum. Við gerum það ekki síst strax í haust þegar við getum vonandi opnað skólann okkar alveg upp á gátt á nýjan leik. 

Í næstu viku verður einnig haldinn ársfundur skólans og þar verður ný heildarstefna Háskólans til næstu fimm ára kynnt auk þess sem veitt verða verðlaun fyrir frumkvæði og forystu í starfi skólans. Ný stefna skólans hefur yfirskriftina Betri háskóli – betra samfélag og inniheldur hún þau leiðarljós sem skólinn mun fylgja á næstu árum til að treysta samband sitt við atvinnulíf og samfélag. Markmið okkar er einnig að auka við gæði á öllum sviðum starfsins. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp á ársfundinum sem verður haldinn í Hátíðasal á mánudaginn kemur milli 8.30 og 9.30. Streymt verður frá fundinum.  

Eitt það allra eftirsóknaverðasta sem háskólar geta notið er traust. Háskóli Íslands nýtur þess að hafa afar mikið traust hjá íslensku þjóðinni samkvæmt árlegri mælingu Gallup. Traust er aldrei sjálfgefið heldur byggist það á heilindum og gæðum í öllu starfi okkar og á ótvíræðum metnaði ykkar, kæru stúdentar og starfsfólk. Traustið skilar sér í mikilli aðsókn að skólanum en honum bárust nú í vor nærri tíu þúsund umsóknir um grunn- og framhaldsnám fyrir komandi skólaár. Þetta er næstmesti fjöldi umsókna að námi við Háskóla Íslands frá upphafi. Háskólinn starfar í alþjóðlegu umhverfi og vera hans á alþjóðlegum matslistum staðfesting á árangri hans sem skilar sér m.a. í síauknum áhuga erlendra nemenda á að stunda nám við skólann. Það þarf því ekki að koma á óvart að umsóknum þeirra fjölgar um heil 15% milli ára.

Strax eftir helgi mun háskólasvæðið taka að iða af lífi þegar nemendur í Háskóla unga fólksins þyrpast hingað til að nema fjölbreytt fræði. Það er einstakt ánægjuefni að Háskóli unga fólksins geti tekið til starfa á ný eftir takmarkanir og lokanir undanfarins árs vegna heimsfaraldursins. Þótt okkur öllum sé létt skulum við enn um sinn halda áfram á sömu braut hvað varðar sóttvarnir til að tryggja þann árangur áfram sem náðst hefur. 

Brautskráning verður eins og áður hefur komið fram í Laugardalshöll þann 19. júní nk. Hátíðin verður í tveimur aðskildum athöfnum

Njótum helgarinnar sem best við megum kæru nemendur og samstarfsfólk en förum áfram að öllu með gát. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Íslenskur fáni fyrir utan Aðalbyggingu