Tilkynning rektors vegna Kvennaverkfalls

Silja Bára R. Ómarsdóttir rektor sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta.
„Kæru stúdentar og starfsfólk Háskóla Íslands.
Föstudaginn 24. október nk. fer fram Kvennaverkfall, sem á sér 50 ára sögu og er hluti af Kvennaári 2025. Þá eru konur og kvár hvött til að leggja niður launuð og ólaunuð störf.
Samstöðufundir verða haldnir um allt land þennan dag, meðal annars í miðbæ Reykjavíkur þar sem dagskrá hefst síðdegis. Viðburð má finna á Facebook. Að auki fer fyrr um daginn fram málþing um stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði sem vert er að benda á.
Háskóli Íslands styður Kvennaverkfall og ég hvet konur og kvár í hópi stúdenta og starfsfólks til að taka þátt. Jafnrétti er eitt af grunngildum Háskóla Íslands. Í samræmi við það verður séð til þess að fjarvera frá vinnu muni ekki hafa áhrif á viðveruskráningu, laun og kjör.
Ég bið stjórnendur um að leggja sig fram um að skapa aðstæður fyrir konur og kvár til að taka þátt í skipulagðri dagskrá 24. október nk. og vona að stúdentar og annað starfsfólk sýni því skilning og stuðning að kennsla og þjónusta kunni að raskast.“
