Skip to main content
24. mars 2020

Til nemenda um námsmat og próf

Rektor Háskóla Íslands sendi eftirfarandi tilkynningu til stúdenta 24. mars:

„Kæru nemendur.

Eitt það erfiðasta við þá tíma sem við erum nú að ganga í gegnum er óvissan. Þetta kemur t.d. skýrt fram í könnun sem Stúdentaráð gerði á líðan nemenda Háskóla Íslands. Niðurstöðurnar sýna svo ekki verður um villst að margir nemendur upplifa álag og kvíða vegna þess ástands sem er í samfélaginu.

Til að létta undir með nemendum getum við eytt óvissu eins og hægt er. Þess vegna vil ég ítreka eftirfarandi: 

•    Kennarar vinna nú hörðum höndum að því að útfæra námsmat, verkefni og próf sem henta nemendum og námi þeirra sem best.
•    Nær allir nemendur munu fá upplýsingar um breytta framkvæmd prófa og námsmats fyrir næstu helgi og enginn síðar en 30. mars.
•    Lögð verður áhersla á að hafa samráð við nemendur um þessar breytingar, koma til móts við þarfir þeirra og draga úr álagi.

Á fundum mínum með forsetum fræðasviða og neyðarstjórn Háskóla Íslands hefur verið algjör samhljómur um að draga úr álagi á nemendur eftir því sem kostur er. Það er fullur skilningur á því að aðstæður nemenda eru afar ólíkar og mjög krefjandi um þessar mundir. Þess vegna skiptir líka máli að í stað lokaprófa komi úrræði sem nemendur eru vanir og þeir þekkja. Í sumum tilvikum gæti það verið rafrænt heimapróf, í öðrum tilfellum verkefni og í enn öðrum gæti ritgerð verðið skynsamleg leið. Háskóli Íslands er mjög stór og fjölbreyttur skóli og þau úrræði sem gagnast nemendum best eru í mörgum tilvikum breytileg á milli fræðasviða og deilda.

Þetta er í samræmi við það sem flestir háskólar á Norðurlöndum hafa gert en við höfum fylgst vel með þeim leiðum sem aðrir háskólar fara í þessum efnum og haft þær til hliðsjónar við endurskoðun prófahalds hér.

Að lokum hvet ég ykkur til að fylgjast vel með tilkynningum frá umsjónarkennurum námskeiða og nýta ykkur netspjallið á vefsíðu Háskóla Íslands ef spurningar vakna.

Sameinuð vinnum við sigra. 

Með góðri kveðu,

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Frá Háskólatorgi