Þróa nám í hnattrænni heilsu
Háskóli Íslands tekur þátt í samstarfi sex háskóla á Norðurlöndunum um þróun framhaldsnáms í hnattrænni heilsu undir yfirskriftinni Nordic Global Health Network. Verkefnið hlaut NordPlus styrk í júní sl.
Geir Gunnlaugsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild, og Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent við Matvæla- og næringarfræðideild, eru fulltrúar Háskóla Íslands í samstarfinu. Hinir háskólarnir fimm eru Háskólinn í Bergen og Háskólinn í Tromsö í Noregi, Háskólinn í Umeå í Svíþjóð, Háskólinn í Tampere í Finnlandi og Kaupmannahafnarháskóli.
Þann 12. og 13. desember sl. fór fram fyrsti fundur samstarfshópsins í Bergen. Þar var meðal annars fjallað um uppbyggingu meistaranáms í hnattrænni heilsu í skólunum sex, gæði þess og mögulega samvinnu. Næsti fundur um verkefnið verður í apríl 2018 í Tampere í Finnlandi.