Skip to main content
12. desember 2024

Taktu þátt í AWE-frumkvöðlahraðlinum fyrir konur

Taktu þátt í AWE-frumkvöðlahraðlinum fyrir konur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi leita nú að þátttakendum fyrir frumkvöðlahraðalinn Academy for Women Entrepreneurs (AWE) sem er sérstaklega ætlaður konum. Hraðallinn hefst 23. janúar 2025 og lýkur 30. apríl með útskrift. Bæði einstaklingar og lið geta tekið þátt í hraðlinum sér að kostnaðarlausu og frestur til að skila inn umsókn um þátttöku rennur út 6. janúar

Hraðallinn er nú haldinn  í fjórða sinn en markmið hans er að efla konur til að þróa áfram sínar viðskiptahugmyndir og efla tengslanetið. Frumkvöðlahraðallinn samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Management við Ríkisháskólann í Arizona og vinnulotum sem Háskóli Íslands í samvinnu við FKA heldur utan um. Þar njóta þátttakendur m.a. leiðsagnar reyndra kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi við markaðsmál og samfélagsmiðla, stofnun fyrirtækja á Íslandi, sköpun tengslanets, styrkjasókn, hugverkamál og annað sem gott er að þekkja við stofnun og þróun fyrirtækis.  

Lögð er rík áhersla á að konur alls staðar af landinu og með fjölbreyttan bakgrunn og uppruna taki þátt. Fyrirkomulag hraðalsins er því með þeim hætti að flestar vinnulotur eru á Teams en einnig verður staðlota á Hvanneyri og heimsókn í fyrirtæki undir forystu kvenna á Suðurnesjum. Nánari dagskrá má finna á vef AWE-hraðalsins

Verðlaun eru veitt fyrir bestu viðskiptahugmyndina bæði í einstaklings- og teymisflokki: 

  • 1. sæti – 700.000 kr.  
  • 2. sæti – 500.000 kr.   
  • 3. sæti – 300.000 kr.  

Einnig eru veitt verðlaun fyrir “pitch” keppni að upphæð 300.000 kr. og fyrir mestu framfarirnar á meðan hraðlinum stendur að upphæð 200.000 kr.

Konur á öllum aldri geta sótt um að taka þátt í hraðlinum og verða 20-30 umsækjendur valdir til þátttöku. Engin krafa er um að viðkomandi sé eða hafi verið nemandi við Háskóla Íslands.

Hægt er að skrá sig til þátttöku í hraðlinum á vef AWE. Þar eru einnig frekari upplýsingar um fyrirkomulag hraðalsins og upptaka af kynningarfundi sem fram fór 21 nóvember sl.

Nánar um AWE-hraðalinn

Háskóli Íslands stendur fyrir AWE-hraðalinum í samvinnu við Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi en AWE-verkefnið er í boði í yfir 50 löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda. Ísland er fyrst norrænu ríkjanna til að taka þátt í verkefninu. Að skipulagningu hraðalsins koma einnig Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) og Samtök kvenna af erlendum uppruna (W.O.M.E.N).

Áttatíu og fimm konur hafa farið í gegnum hraðalinn og hafa í framhaldinu haslað sér völl bæði hér heima og erlendis með frekari þróun og fjármögnun viðskiptahugmynda sinna. 

Gestir á kynningarfundi AWE-hraðalsins.