Skip to main content
14. júní 2017

Tæplega 7.300 umsóknir um grunn- og framhaldsnám við HÍ

""

Nærri 7.300 umsóknir um grunn- og framhaldsnám bárust Háskóla Íslands fyrir skólaárið 2017-2018, en umsóknarfrestur um grunnnám rann út 5. júní. Umsóknir um grunnám eru um 4450 og umsóknir um framhaldsnám 2.830. Umsóknum um kennaranám fjölgaði um 30% milli ára og þá er áfram mikil aðsókn í íþrótta- og heilsufræði sem flutt var til Reykjavíkur í fyrra. Áhugi á að þreyta inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun jókst einnig mikið en nær fjórðungi fleiri skráðu sig í prófið nú en í fyrra.

Umsóknir um grunnnám skiptust svo á fimm fræðasvið Háskólans:

Umsóknir á Félagsvísindasviði eru alls 850 talsins. Þar af voru 355 umsóknir um viðskiptafræði sem er, líkt og undanfarin ár, vinsælasta greinin innan Háskóla Íslands. Umsóknir um nám í Félags- og mannvísindadeild reyndust 121. Þá bárust 114 umsóknir um nám í lögfræði og 97 umsóknir um nám í hagfræði auk þess sem 87 hyggjast hefja nám í félagsráðgjöf og 76 í stjórnmálafræði.

Heilbrigðisvísindasviði bárust flestar umsóknir af sviðunum fimm, eða rúmlega 1.150. Meðal umsækjenda þar eru 367 stúdentar sem sóttust eftir inngöngu í læknisfræði og sjúkraþjálfun við Læknadeild, 311 um læknisfræði en 56 um sjúkraþjálfun. Það er 23 prósenta aukning milli ára. Inntökupróf vegna þessara námsleiða fór fram í síðustu viku. Þeir sem þreyta prófið en fá ekki inngöngu í Læknadeild geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí nk. Tæplega 300 umsóknir bárust um nám í sálfræði og ríflega 160 umsóknir um inngöngu í hjúkrunafræði en Hjúkrunarfræðideild nýtir eins og Lagadeild svokallað A-próf til inntöku nemenda auk þess sem horft er til frammistöðu á stúdentsprófi. Þá bárust 85 umsóknir um að hefja nám í tannlæknisfræði en við Tannlæknadeild eru samkeppnispróf haldin að loknu fyrsta misseri.

Hugvísindasviði bárust tæplega 1.040 umsóknir og líkt og undanfarin ár er íslenska sem annað mál vinsælasta greinin innan sviðsins. Samtals bárust tæplega 440 umsóknir um BA-nám eða styttra hagnýtt nám á þeirri námsleið. Þá sækjast nærri þrjú hundruð manns eftir að hefja nám í einhverju þeirra erlendu tungumála sem kennd eru við Háskóla Íslands. Þess má geta að frá og með næsta hausti fer kennsla í tungumálum við háskólann fram í Veröld – húsi Vigdísar sem opnað var á dögunum. Á Hugvísindasviði hyggjast enn fremur tæplega 50 hefja nám í sagnfræði í haust og 25 í guðfræði.

Menntavísindasvið fékk tæplega 620 umsóknir um grunnnám að þessu sinni og er vinsælasta greinin þar grunnskólakennsla. Alls bárust rúmlega 130 umsóknir um nám í þeirri grein en til samanburðar voru þær rétt um eitt hundrað í fyrra. Þá vilja 115 hefja nám í íþrótta- og heilsufræði eða þremur fleiri en í fyrra. Auk þess bárust tæplega 90 umsóknir um nám í þroskaþjálfafræði og nærri 80 í uppeldis- og menntunarfræði. Umsóknir um B.Ed.-nám í leikskólakennarafræði og grunndiplóma í leikskólafræði voru samanlagt um 70.

Verkfræði- og náttúruvísindasviði bárust nærri 800 umsóknir. Vinsælasta greinin innan sviðsins er líkt og undanfarin ár tölvunarfræði en rúmlega 200 stúdentar hyggjast hefja nám á þeirri námsleið í haust. Samanlagður fjöldi umsókna í verkfræði- og tæknigreinar við skólann reyndist rúmlega 310 og þá vilja rúmlega 90 hefja nám í líffræði eða lífefna- og sameindalíffræði. Enn fremur reyndust umsóknir um ferðamálafræði 55 talsins. 

Alls eru þetta um 4450 umsóknir um grunnnám við Háskóla Íslands en þess má geta að um fjögur þúsund nemendur brautskráðust með stúdentspróf frá framhaldsskólum landsins um síðustu áramót og í vor.

Umsóknarfrestur um  flestar námsleiðir í framhaldsnámi við Háskóla Íslands var til 15. apríl sl. og sem fyrr segir sækjast 2.830 eftir inngöngu í framhaldsnám á einhverju af fimm fræðasviðum Háskólans. Ríflega 1.100 þeirra bárust Félagsvísindasviði en um 470 Heilbrigðisvísindasviði og um 450 Menntavísindasviði. Af þverfræðilegum námsleiðum innan Háskólans er þess að geta að 125 hafa sótt um nám sem nefnist Menntun framhaldsskólakennara, nærri 70 vilja hefja nám í umhverfis- og auðlindafræði og hátt í 40 hyggja á framhaldsnám í lýðheilsuvísindum. 

Nemendur ganga frá Háskólatorgi