Styrkur til þróunarverkefnis um læsi
Í sumar munu tveir nemendur Háskóla Íslands vinna þróunarverkefni um læsi með nýsköpunarstyrk frá Rannís og í samstarfi við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Nemendurnir eru þær Fatou N´dure Baboudóttir sem er að ljúka meistaranámi í þróunarfræði og Tinna Björk Helgadóttir sem er meistaranemi í opinberri stjórnsýslu. Báðar hafa þær áralanga reynslu af starfi á frístundaheimilum.
Markmið verkefnisins er að semja og gefa út aðgengilega og hagnýta handbók fyrir starfsfólk frístundaheimila þar sem tilgreindar eru nýjar aðferðir til að efla mál og læsi á frístundaheimilum. Stefnt er að útgáfu og kynningu innan Reykjavíkurborgar í haust.
Frístundaheimili eru vettvangur sem býður upp á fjölmörg tækifæri til eflingar íslenskrar tungu í gegnum leik og starf með fjölbreyttum og oft óhefðbundnum aðferðum. Í verkefninu verður sett fram samhæft ferli sem byggir á upplýsingum og gögnum frá sérfræðingum og forstöðumönnum frístundaheimila sem unnið hafa að eflingu máls og læsis á sínum starfsstöðum.
Með því að tryggja aðgengi að slíku fræðsluefni er hægt að auka enn frekar fagmennsku í frístundastarfi, styðja við mál og læsi barna í gegnum leik, jafnframt því að stuðla að nýsköpun í opinberum rekstri.
Verkefnið er unnið undir umsjón Margrétar S. Björnsdóttur aðjunkts við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og eins og áður sagði í samráði við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.
Nánari upplýsingar veitir Tinna Björk Helgadóttir í síma 7750907 eða tölvupósti: fristundalaesi@gmail.com
Tinna Björk Helgadóttir og Fatou N'dure Baboudóttir