Stúdentaráð Aurora ræddi inngildingu í háskólanámi
Inngilding í háskólanámi er sérstakt áhersluatriði Stúdentaráðs Aurora-háskólanna (ASC) á yfirstandandi skólaári og ráðið kynnti þær áherslur á haustráðstefnu Aurora sem fór fram í Palacky-háskólanum í Olomouc í Tékklandi 16.-18. október.
Palacky-háskólinn er einn af meðlimum Aurora sem er samstarfsvettvangur níu evrópskra háskóla, þar á meðal Háskóla Íslands. Meðal þeirra sem sóttu ráðstefnuna fyrir hönd HÍ voru tveir nemendafulltrúar, þær Nana Bruhn Rasmussen, alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) og ritari ASC, og Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsdóttir, sviðsráðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs og meðlimur í ASC.
Stúdentaráð Aurora stýrði jafnframt sérstökum viðburði á ráðstefnunni þar sem rætt var um fjölbreytileika og inngildingu, mikilvægi þess að nemendur taki virkan þátt í vinnu Aurora og þóknun til nemendafulltrúa Aurora.
Stúdentaráð Aurora lagði áherslu á geðheilbrigði á síðasta skólaári og voru niðurstöður þeirrar vinnu kynntar á ráðstefnunni sömuleiðis. Þær fela m.a. í sér upplýsingar um geðheilbrigðisúrræði sem boðið er upp á í hverjum Aurora-háskóla fyrir sig. Nemendafulltrúar Aurora-háskólanna munu svo, eftir að hafa kynnt áherslu þessa árs, finna þrjú lykilatriði sem bæta þarf innan sinna stofnana.
Fulltrúar Háskóla Íslands á haustráðstefnu Aurora í Olomouc í Tékklandi.
Stúdentaráð Aurora nýtti ráðstefnuna sömuleiðis í að semja og samþykkja erindisyfirlýsingu auk þess sem ráðið setti sér markmið um stefnu til fjögurra ára fyrir ráðið. Erindisyfirlýsingin, í íslenskri þýðingu, hljóðar svo:
„Stúdentaráð Aurora setur sér það markmið að valdefla nemendur og auka þátttöku þeirra í ákvarðanatöku Aurora.
Stúdentaráðið vinnur að auknum sýnileika á tækifærum fyrir nemendur og því að miðla þekkingu um ráðið innan allra Aurora-samstarfsskólanna, bæði meðal stjórnenda, stjórnsýslu og nemenda.
Stúdentaráðið einsetur sér að bæta hag nemenda í háskólum með því að gæta hagsmuna þeirra og stuðla að stofnanabreytingum með alþjóðlegu samstarfi og markvissri þróun nemendasamfélags.
Stúdentaráðið mun stuðla að þessum breytingum með því að setja sér fjögurra ára stefnu sem fellur að öðrum áfanga Aurora-samstarfsins, sem fer fram á árunum 2023-27. Ráðið mun sömuleiðis setja sér aðgerðaáætlun fyrir hvert misseri, sem inniheldur m.a. aðgerðir sem tengdar eru áherslu hvers skólaárs og ætlað er að stuðla að stofnanabreytingum innan Aurora-skólanna.“
Stúdentaráð Aurora hittist að nýju í Reykjavík 21.-22. nóvember þegar öðrum áfanga Aurora-samstarfsins verður formlega ýtt úr vör. Þar mun ráðið m.a. vinna í kynningarefni, uppfæra Stúdentahandbók Aurora og hefja vinnu við fjögurra ára stefnu sína.
Höfundar greinar:
Nana Bruhn Rasmussen, alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsdóttir, sviðsráðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs.