Stofnun Sæmundar fróða stendur á tímamótum
Hafdís Hanna Ægisdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða og tekur við af Guðrúnu Pétursdóttur sem hefur veitt stofnuninni forstöðu frá upphafi. Háskólaráð samþykkti á fundi nýverið að stofnunin myndi flytjast yfir á Félagsvísindasvið. „Við fögnum þessari viðbót við það fjölbreytta starf sem er nú þegar á fræðasviðinu,“ segir Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs.
Hafdís Hanna er með BS og MS próf í líffræði frá Háskóla Íslands og lauk doktorsprófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Basel í Sviss. Síðastliðin 12 ár hefur hún starfað sem forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og sem ráðgjafi fyrir utanríkisráðuneytið í umhverfismálum og þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.
Hafdís Hanna hlakkar til að taka við starfi forstöðumanns stofnunarinnar. Mikil tækifæri eru í að efla enn frekar rannsóknir, kennslu og samstarf ólíkra stofnana og einstaklinga á sviði sjálfbærni. „Það er mjög mikilvægt að við vinnum saman þvert á stofnanir og fagsvið til takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í heiminum í dag: loftlagsbreytingar, tap á líffræðilegri fjölbreytni og auknum ójöfnuði svo fátt eitt sé nefnt. Ég hlakka til að takast á við starfið,“ segir Hafdís Hanna að lokum.
Stofnun Sæmundar fróða, sem tók til starfa í júní 2006, er rannsókna- og kennslustofnun á sviði sjálfbærrar þróunar og þverfræðilegra viðfangsefna og heyrir þar af leiðandi undir öll fræðasvið Háskóla Íslands en er nú hýst hjá Félagsvísindasviði.
Meginhlutverk stofnunarinnar er að vera vettvangur fyrir þverfræðilegar rannsóknir og efla þær m.a. í samvinnu við deildir og aðrar stofnanir skólans. Stofnunin er samstarfsvettvangur fyrir aðila utan háskólans á sviði sjálfbærrar þróunar, svo sem stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.