Stofna Frumkvöðla í HÍ
Nýsköpunar - og frumkvöðlanefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands stofnaði nýlega Frumkvöðla í HÍ, vettvang fyrir nemendur sem hafa áhuga á nýsköpun, frumkvöðlastarfi, viðskiptum og hagnýtingu vísinda. Vettvangurinn er opinn öllum nemendum HÍ og hefur það að markmiði að veita þeim stuðning og upplýsingar um sérstök tækifæri sem þeim standa til boða á þessum sviðum.
Frumkvöðlar í HÍ mun miðla upplýsingum um námskeið, viðburði, starfsþjálfun og ýmiss konar annan stuðning sem stendur þátttakendum til boða. Þau sem hafa áhuga geta skráð sig í hópinn hér.
Fyrsti kynningarviðburður Frumkvöðla í HÍ verður haldinn í Fenjamýri í Grósku þann 31. október næstkomandi kl. 16:00-17:00. Þar verður farið yfir þann stuðning sem Háskóli Íslands veitir upprennandi frumkvöðlum og þau tækifæri sem nemendur geta nýtt sér til að þróa viðskiptahugmyndir sínar.
„Markmið Frumkvöðla í HÍ er að hvetja nemendur til nýsköpunar. Þegar ég tók við sem formaður Nýsköpunar- og frumkvöðlanefndar hafði ég ekki hugmynd um alla þá aðstoð sem skólinn býður nemendum upp á til að vinna úr hugmyndum og stofna fyrirtæki. Meginvettvangurinn er Facebook-hópur og tölvupóstlisti þar sem reglulega verður farið yfir hvað stendur nemendum til boða á hverjum tíma, til dæmis styrkir, vinnuaðstaða og starfsnám. Stefnt verður að því að halda viðburði annað slagið þar sem frumkvöðlar geta tengst og til dæmis fengið fyrirlestra frá fólki sem hefur náð árangri innan frumkvöðlageirans,“ segir Hannes Lúðvíksson, formaður formaður Nýsköpunar- og frumkvöðlanefndar, um starf Frumkvöðla í HÍ.
Öll áhugasöm eru hvött til að skrá sig og kynnast starfsemi vettvangsins.