Skip to main content
19. janúar 2017

Stíga þarf markviss skref um bætta fjármögnun háskóla

""

Rektorar íslenskra háskóla fagna þeirri ákvörðun Alþingis að hækka fjárframlög til háskólanna við afgreiðslu frumvarps til fjárlaga 2017 og koma þannig til móts við áskorun rektora til þingmanna um að bæta úr undirfjármögnun íslensks háskólakerfis.

Rektorarnir taka undir ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kveða á um eflingu allra skólastiga og að styðja skuli háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni um leið og samvinna og samhæfing íslenskra háskóla- og vísindastofnana verður aukin. Þá taka rektorar eindregið undir það að endurskoða þurfi reiknilíkan háskólakerfisins því að forsenda þess að háskólar á Íslandi geti haldið uppi gæðum og staðist alþjóðlega samkeppni er sú að þeir búi við sambærilega fjármögnun og háskólar í nágrannalöndum okkar. Stjórnvöld hafa áður markað sér þá stefnu að meðaltali framlaga til háskóla í OECD-ríkjum skuli náð og síðar meðaltali hinna norrænu ríkjanna en Ísland er enn langt undir þeim markmiðum. Því er mikilvægt að viðbótarframlag til háskólanna í fjárlögum 2017 verði ekki tímabundin aðgerð heldur einungis fyrsta skrefið í markvissri áætlun um bætta fjármögnun háskólanna.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir enn fremur að menntakerfið gegni „lykilhlutverki við að búa landsmenn undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og þekking, menning, listir, nýsköpun og vísindi skipt[i] sköpum við uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða“. Rektorar íslenskra háskóla taka heils hugar undir það og lýsa yfir einlægum vilja til samstarfs við stjórnvöld um að efla háskóla landsins svo þeir geti staðið undir því hlutverki að leiða þróun íslensks þekkingarsamfélags.

rektorar íslenskra háskóla
rektorar íslenskra háskóla