Staða smáríkis í breyttu pólitísku andrúmslofti alþjóðasamfélagsins
Pólitískt andrúmsloft alþjóðasamfélagsins hefur tekið stórfelldum breytingum síðastliðin misseri sem hefur áhrif á stöðu Íslands og þær áskoranir sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir. Þetta kallar á stöðugt endurmat á hagsmunagæslu Íslands og hlutverki landsins á alþjóðavettvangi. Hvaða áhrif hefur breytt valdajafnvægi í heiminum á stöðu smáríkis í alþjóðakerfinu?
Reynt verður að svara þessari spurningu frá ýmsum hliðum á ráðstefnu sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Norðurlönd í fókus og utanríkisráðuneytið standa saman að undir yfirskriftinni „Alþjóðasamvinna á krossgötum – Hvert stefnir Ísland?“ Ráðstefnan fer fram síðasta vetrardag, miðvikudaginn 18. apríl, í Norræna húsinu kl. 9-17.
Tilgangur ráðstefnunnar er að leiða saman sérfræðinga og fræðimenn og ekki síst alla þá sem áhuga hafa á alþjóðamálum á Íslandi til opinnar umræðu um helstu áskoranir og tækifæri Íslands í utanríkismálum.
Ráðstefnan samanstendur af nokkrum málstofum þar sem framsögumenn flytja áhugaverð erindi og í kjölfarið fara fram líflegar pallborðsumræður með valinkunnum gestum. Í hópi þátttakenda eru fjölmargir fræðimenn við Háskóla Íslands. Meðal þess sem til umræðu verður eru þjóðernishyggja, áhrif samfélagsmiðla á grasrótarhreyfingar og alþjóðastjórnmál, áskoranir Íslands í breyttu öryggisumhverfi og áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum.
Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast á vef Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands en þar fer jafnframt fram skráning á ráðstefnuna.