Skip to main content
28. apríl 2019

Spennandi tækifæri í samstarfi við University of California

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, heimsótti Kaliforníuháskóla í Santa Barbara (University of California, Santa Barbara (UCSB)) fyrir páska og endurnýjaði við að tækifæri samstarfssamning skólanna ásamt því að leggja drög að nýjum samningi um nemendaskipti milli alls Kaliforníuháskólakerfisins en undir það heyra tíu háskólakampusar, þ.á m. UC Berkely, UCLA, UC San Diego ásamt UCSB. Samningarnir færa með sér spennandi tækifæri fyrir bæði stúdenta og starfsmenn Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands og UCSB hafa átt í samstarfi allt frá árinu 1990 og samstarfssamningur hefur verið í gildi síðan árið 2000. Fjölmargir nemendur Háskóla Íslands hafa tekið hluta af námi sínu við UCSB og sumir þeirra stundað framhaldsnám við skólann í kjölfarið. Þá hefur hópur akademískra starfsmanna Háskóla Íslands dvalið við UCSB við rannsóknastörf í lengri eða skemmri tíma og átt í rannsóknasamstarfi við vísindamenn skólans. Á móti hafa nemendur og kennarar frá UCSB dvalið við Háskóla Íslands. Þá má geta þess að Björn Birnir, prófessor í stærðfræði við UCSB, gegnir starfi gestaprófessors við Háskóla Íslands en hann hefur ásamt konu sinni Ingu Dóru Björnsdóttir, sem kennir í mannfræði við UCSB, veitt stúdentum og starfsfólki Háskóla Íslands, sem dvalið hafa við UCSB, ómetanlegan stuðning á liðnum árum.

Frá vinstri: Björn Birnir, Inga Dóra Björnsdóttir, Henry T. Yang, Jón Atli Benediktsson og Stefanía Óskarsdóttir, eiginkona rektors.

Í heimsókn Jóns Atla til Santa Barbara nýttu hann og Henry T. Yang, rektor UCSB, tækifærið og endurnýjuðu samstarfssamning skólanna og gildir hann til ársins 2024. Jafnframt undirritaði rektor HÍ viljayfirlýsingu ásamt Robert York hjá USCB Professional and Continuing Education sem á grundvelli samnings skólanna veitir nemendum Háskóla Íslands sérstök kjör á námi við UCSB Extension. Auk þess að undirrita samningana átti rektor Háskóla Íslands fundi með sviðsforsetum í UCSB og stjórnendum University of California Education Abroad Program en í undirbúningi er nýr samningur milli skólanna um nemendaskipti.

Þá var rektor viðstaddur úthlutun úr  Freymóðsson-Danley sjóðnum svokallaða, en Leif Kristján Gjerde, nemandi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands sem nú er í skiptinámi við UCSB, hlaut styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Sjóðinn stofnaði Bragi Freymóðsson, rafmagnsverkfræðingur og einn af frumkvöðlum GPS-tækninnar, sem fæddist á Íslandi en bjó lengst af í Bandaríkjunum. Sjóðurinn hefur veitt nemendum við Háskóla Íslands styrk til náms í UCSB. Dóttir Braga, Steinunn Freymóðsson-Danley, afhenti Leifi verðlaunin ásamt manni sínum Howard E. Green en hann vinnur hjá Disney-samsteypunni sem hefur styrkt Freymóðsson-Danley sjóðinn. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Henry T. Yang, rektor UCSB, undirrita endurnýjaðan samstarfssamning milli skólanna.
Frá afhendingu styrks úr Freymóðsson-Danley sjóðnum. Frá vinstri: Howard E. Green, Steinunn Freymóðsson-Danley, Leif Kristján Gjerde stykhafi, Jón Atli Benediktsson, Stefanía Óskarsdóttir, eiginkona rektors, Inga Dóra Björnsdóttir og Björn Birnir.
Jafnframt undirritaði rektor HÍ viljayfirlýsingu ásamt Robert York hjá USCB Professional and Continuing Education sem á grundvelli samnings skólanna veitir nemendum Háskóla Íslands sérstök kjör á námi við UCSB Extension.
Auk þess að undirrita samningana átti rektor Háskóla Íslands fundi með sviðsforsetum í UCSB og stjórnendum University of California Education Abroad Program en í undirbúningi er nýr samningur milli skólanna um nemendaskipti.