Skip to main content
17. október 2024

Sofiya Zahova ráðin forstöðumaður Vigdísarstofnunar

Sofiya Zahova ráðin forstöðumaður Vigdísarstofnunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sofiya Zahova hefur verið ráðin forstöðumaður Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar. Sofiya er með doktorspróf í þjóðfræði frá Vísindaháskóla Búlgaríu og hafa þverfræðilegar rannsóknir hennar fjallað um tengsl sjálfsmyndarstjórnmála, ritunar, þekkingarsköpunar, málefni minnihlutahópa og félagsleg einkenni frá sjónarhorni sögunnar og samtímans.

Sofiya hefur leitt rannsóknarverkefnið RomIs: History and Ethnography of Roma in Iceland sem hlaut Rannísstyrk 2022-2025 og Roma in the Centre. Sofiya gegndi stöðu forstöðumanns Vigdísarstofnunar 2022 til 2023, var nýdoktor við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum 2018-2021 og lektor við Vísindaháskóla Búlgaríu 211-2016. Vegna sérþekkingar sinnar á málefnum og tungumálum minnihlutahópa hefur Sofiya unnið með Evrópuráðinu (CoE), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE) og er fulltrúi Íslands í stýrihóp áratugar frumbyggjamála 2022-2032. Hún hefur birt greinar í ritrýndum tímaritum og bókaköflum og ritað nokkrar bækur, nú síðast The Romani literature (Paradigma, 2024, in Bulgarian).

Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar er starfrækt undir merkjum UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna og er undirstofnun Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Helstu áherslur í starfi stofnunarinnar hafa verið sambýli tungumála og tengsl tungumála og menningar á vesturströnd Noregs, í Færeyjum, á Íslandi og Grænlandi, frumbyggjatungumál, fámennismál og lítil málsvæði, bókmenntir, tungumál og menning Rómafólks og tungumálasýningin Mál í mótun, þar sem gestum gefst kostur á að kanna ýmis tungumál heimsins og fræðast um lífshlaup þeirra.

Sofiya Zahova.