Skip to main content
2. september 2024

Skuggavaldið – nýtt hlaðvarp stjórnmálafræðiprófessora um samsæriskenningar

Skuggavaldið – nýtt hlaðvarp stjórnmálafræðiprófessora um samsæriskenningar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Skuggavaldið er heitið á nýju hlaðvarpi þar sem Hulda Þórisdóttir, prófessor í stjórnmálasálfræði við Háskóla Íslands, og Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, spjalla saman um hvaðeina er viðkemur samsæriskenningum. Þau segja skemmtilegar sögur af samsæriskenningum og ræða þær líka á fræðilegan og gagnrýninn hátt. Fyrsti þátturinn birtist á hlaðvarpsveitum í dag, 2. september. Í honum kemur til dæmis fram að Íslendingar eru ginnkeyptari fyrir pólitískum samsæriskenningum heldur íbúar í öðrum ríkjum Norðurlanda. 
 
Fyrsti þátturinn fjallar um samsæriskenningar á Norðurlöndum. Í honum takast Hulda og Eiríkur meðal annars á við eftirfarandi spurningar:

  • Stóð aðskilnaðarstjórnin í Suður-Afríku að baki morðinu á Olof Palme? 
  • Var farþegaferjunni MS Estoina grandað vegna vopnaflutninga frá Rússlandi? 
  • Fórnuðu Satanistar fyrr á öldum norrænum börnum til þess að greiða eldgamla skuld við Ottomannveldið? 

 
Þótt Norðurlöndin virðist á yfirborðinu ekki vera gróðrastía samsæriskenninga kennir þar þó ýmissa grasa, svo sem greina má af framanverðum spurningum sem spretta af fullyrðingum samsæriskenningasmiða. 
 
Auk þess að fjalla Eiríkur um norrænar samsæriskenningar og ræða þau Hulda og Eiríkur jafnframt um eðli og inntak samsæriskenninga almennt í þessum fyrsta þætti. 
 
Í næstu þáttum munu Hulda og Eiríkur fjalla um kenningar í kringum andlát Díönu prinsessu, ótta við að illvirkjar ætli sér að koma á nýrri heimskipan og um Qanon-samsæriskenninguna svo eitthvað sé nefnt. Þá mun dauða Kurt Cobain bera á góma. Skuggavaldið fjallar vítt og breitt um samsæriskenningar í sögu og samtíð en áhugi almennings og áhyggjur af fyrirbærinu hefur vaxið svo nálgast siðfár á köflum.
 

Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir