Skrifuðu alþjóðlegt kennsludæmi um Reykvíking ársins
Nýútkomin er dæmisagan (e. case) Þorvaldur Daníelsson: At a Crossroad as a Social Entrepreneur, eftir Þröst Olaf Sigurjónsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Murray Bryant, prófessor emeritus við Ivey Business School. Þorvaldur, sem er betur þekktur sem Valdi í Hjólakrafti, var á dögunum útnefndur Reykvíkingur ársins 2020. Hjólakraftur Valda vinnur með ungu fólki að almennum forvörnum og í erfiðari málum.
Um 500 ungmenni eru innan stuðningssamfélags Valda í dag. Rekstur Hjólakrafts hefur þó oft staðið andspænis áskorunum. Þröstur Olaf og Murray ákváðu á síðasta ári að skrifa kennsludæmi um þessar áskoranir til að nota í kennslu í viðskiptasiðfræði og kom það út í mars á þessu ári. Markmiðið er að nemendur setji sig í þær aðstæður sem Valdi þarf sjálfur að glíma við og komi með sínar tillögur að lausnum. Nú þegar er farið að kenna dæmisöguna í fjórum háskólum.