Skoðar samband okkar við snjalltækin og gervigreind
Á hverjum degi kvikna framtíðardraumar í Háskóla Íslands og í gegnum bæði nám og rannsóknir finna nemendur skólans sína fjöl sem reynist kannski allt önnur en sú sem viðkomandi hafði í huga við upphaf háskólanáms. Þetta á sannarlega við um Marcello Milanezi, doktorsnema í félagsfræði, sem komst að því í Háskólanum að ástríða hans lægi á sviði félagsvísinda og jafnframt að hann langaði að starfa innan háskólasamfélagsins. Í doktorsrannsókn sinni rýnir hann í samband okkar við snjalltækin og áhrif gervigreindar á samfélagsgerðina.
Marcello er frá Brasilíu þar sem hann lærði lögfræði en áhugi hans á samfélagsmálum, stjórnmálum og kvikmyndum leiddi hann á endanum í Háskóla Íslands þar sem hann lauk meistaraprófi í félagsfræði. Hann ákvað í framhaldinu að hefja doktorsnám og doktorsverkefnið vinnur hann undir leiðsögn prófessoranna Viðars Halldórssonar og Ingólfs V. Gíslasonar.
„Kveikjan að þessari rannsókn er áleitin ummæli Willams Gibsons sem hljómar einhvern svona: Þegar við mætum „Framtíðinni“ munum við átta okkur á því að hún verður „lág-stafa“ framtíð. Þetta þýðir að meðan við lesum um og horfum á gervigreindarmenni sölsa undir sig heiminn í blóðugri skothríð að hætti Terminator hættir okkur til að horfa fram hjá hinum frekar leiðinlega algóritma sem mun endurskapa samfélagsgerðina í sífellt ótryggari lýðræðissamfélögum,” segir Marcello.
Snjalltæknin getur haft skaðleg áhrif á samfélög
Tilkoma samfélagsmiðla og þeirra algóritma sem þeim stjórna hefur breytt samfélagskerfi vestrænna samfélaga eins og því íslenska umtalsvert. Samfélagsmiðlanotkun er stór þáttur í lífi flestra Íslendinga og þessi nýi samfélagsvettvangur hefur áhrif á skynjun okkar á raunveruleikanum og miðlun upplýsinga. Þessum breytingum geta fylgt ýmsar jákvæðar hliðar en miðlarnir nýju geta einnig valdið miklum skaða, m.a með tilliti til sjálfstæðis samfélaga, friðhelgi einkalífs og allsherjar yfirtöku hins starfræna á menningarþáttum samfélagsins.
„Í doktorsverkefni mínu rannsaka ég reynslu fólks í íslensku samfélagi af þeim breytingum sem hafa fylgt smátækjum, samfélagsmiðlum og jafnvel kórónuveirufaraldrinum sem þröngvaði okkur enn frekar inn á hið stafræna svið vegna samkomutakmarkana,“ segir Marcello.
Alls eru áhersluatriðin í rannsókninni af fernum toga, en þar er horft til
- samspils manns og snjalltækja
- samspils ólíkra aldurshópa og annarrar nýrrar tækni
- tilkomu heimaskrifstofunnar í og eftir COVID-19-faraldurinn
- hinna hröðu breytinga sem eru að verða í gervigreind og áhrifa þeirra á listsköpun
„Sú athyglisverða þróun er að eiga sér stað að tækin virðast vera að búa til þarfir hjá okkur sem kalla á að við notum þau enn meira og gera um leið eftirlit og upplýsingasöfnun um okkur að einhvers konar normi,“ segir Marcello.
Tækin skapa nýjar þarfir sem kalla á aukna notkun
Rannsóknin byggist m.a. á viðtölum við fólk um reynslu þess snjalltækninni en til grundvallar eru kenningar innan félagsfræðinnar sem snerta stjórnun manneskjunnar (e. biopower) og þátt snjalltækninnar í henni. „Viðtölin hafa þegar getið af sér athyglisverð gögn um samband notanda og tækis þegar kemur að stjórn,” segir Marcello og bendir á hvernig snjallsíminn og snjallúrið verða hluti af okkur sjálfum. Það síðarnefnda sé bókstaflega lagt á líkamann og látið safna upplýsingum í gegnum yfirborð húðarinnar sem sé svo miðla í gegnum símann.
Marcello segir að svo virðist sem fólk njóti almennt þeirra þæginda sem snjalltæknin færi okkur en horfi stundum fram hjá því hvernig við leggjum bæði undir huga og líkama með því að veita upplýsingar um hvort tveggja í gegnum tækin. Í sumum tilvikum átti fólk sig þó á því hvernig tæknin stjórni lífi okkar. „Sú athyglisverða þróun er að eiga sér stað að tækin virðast vera að búa til þarfir hjá okkur sem kalla á að við notum þau enn meira og gera um leið eftirlit og upplýsingasöfnun um okkur að einhvers konar normi,“ segir hann.
Hann bætir við að með rannsókn á hinni miklu nánd okkar við tækin vilji hann vekja fólk til umhugsunar um þróun tækjanna yfir í ígræðslur, sem sé þegar hafin og hafi í för með sér tækifæri til enn frekara eftirlits með okkur. „Þetta skref var þar til nýlega aðeins að finna í fantasíum og vísindaskáldsögum en það eru þegar hafnar prófanir á ígræðslum í öðrum dýrum,“ segir Marcello og vísar m.a. í tilraunir á vegum fyrirtækis auðjöfursins Elons Musk, Neuralink, sem þegar hefur sótt um leyfi til tilrauna á mönnum.
Rýnt í heimilið sem vinnustað
Í rannsókninni hyggst Marcello einnig skoða hvernig Íslendingar nýta sér tækni hinnar fjórðu iðnbyltingar í hinu daglega lífi og hvernig hún hefur áhrif á upplifun ólíkra kynslóða á veruleikanum. Þar horfir hann m.a. til þeirra miklu áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hafði á ólíkar kynslóðir þar sem innkaup á mat og aðgengi að heilsuvernd og ýmsum öðru varð erfiðari og færðist jafnvel alveg yfir á netið og í tækin. „Hinir stafræni vettvangur varð allsráðandi og samfélagsmiðlar urðu enn þá mikilvægari fyrir þau sem voru einangruð og gátu ekki átt í hefðbundum mannlegum samskiptum í raunheimum,“ segir Marcello.
Samfara þeirri miklu einangrun sem mörg upplifðu í kórónuveirufaraldrinum urðu heimili margra jafnframt að vinnustöðum þeirra. Það kallar að sögn Marcellos á rannsóknir á skilum heimilis og vinnu og eftirliti með starfsfólki, sem færist frá vinnustöðum til heimilis. Þessi skörun rýma geti mögulega haft áhrif á samband manneskjunnar við það sem venjulega er griðastaður frá vinnu. „Ég er mjög spenntur fyrir því hvað viðtöl í þessum hluta rannsóknarinnar munu leiða í ljós. Á Íslandi var ekki gripið til öfgakenndra aðgerða til einangrunar fólks í faraldrinum, eða þannig upplifi ég það, og því gætu niðurstöður rannsókna á áhrifum vinnu á heimili reynst allt aðrar en hjá öðrum þjóðum.“
Að endingu hyggst Marello rannsaka hvaða áhrif hin hraða þróun í gervigreind, eins og ChatGPT, muni hafa á listamenn og ekki síst málverkið, en þegar eru komin fram gervigreindarforrit sem geta galdrað fram myndir af ýmsu tagi samkvæmt okkar pöntun, þar á meðal listaverk. Er þetta undanfari þess sem koma skal í samfélögum heims og hvað áhrif hefur þetta á hina kapítalísku vöruvæðingu menningar, spyr Marcello. Mun þessi breyting gera menningu okkar fátækari þar sem töfrar sköpunarinnar hjá listamanninnum eru ekki lengur fyrir hendi?
Marcello bendir á að þessi nýja tækni sé allt öðruvísi en sú sem á undan kom og mikilvægt sé að skoða vel bæði þau tækifæri og þær hættur sem henni fylgja og hvaða áhrif hún kann að hafa á samfélagsgerðina nú þegar tæknin þróast á leifturhraða. Doktorsannsókn hans sé framlag til þess.